Content-Length: 195298 | pFad | https://is.wikipedia.org/wiki/Borg

Borg - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Borg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Reykjavík er venjulega talin vera eina borg Íslands. Áður var það fremur út af lagalegri stöðu hennar sem höfuðborg en stærð.
Íbúaþróun í þéttbýli og dreifbýli á heimsvísu frá 1960.

Borg er þéttbýli sem greinist frá , þorpi eða hverfi vegna stærðar, þéttleika byggðar, mikilvægis eða lagastöðu. Engin almenn skilgreining er til á því hversu fjölmenn borg þarf að vera að lágmarki,[1][2] en oft er miðað við 100.000 íbúa á samfelldu svæði þar sem þéttleiki byggðar er meiri en 1500 íbúar á ferkílómetra.[3] Þetta er samt alls ekki algilt viðmið og fjölmörg dæmi um þéttbýli skilgreind sem borgir um víða veröld sem eru miklu fámennari. Stundum eru borgir skilgreindar sem stórt þéttbýli með eigin stjórnsýslu þar sem flestir íbúar fást við önnur störf en landbúnaðarstörf.[4] Nútímaborgir þurfa umtalsverða innviði til að geta hýst margt fólk á litlu svæði. Til slíkra innviða teljast löggæsla, vatnsveita, fráveita, sorphirða, samgöngukerfi og samskiptakerfi.[5][6] Flestar borgir hafa miðbæjarkjarna, en svefnborgir eru að meira eða minna leyti byggðar upp sem úthverfi annarrar aðliggjandi borgar. Þéttleikinn býður upp á ýmsa kosti fyrir dagleg samskipti, stjórnsýslu og hagkvæmni í framleiðslu og þjónustu; en felur líka í sér áskoranir fyrir öryggi, lýðheilsu, félagsþjónustu og umhverfi.

Lengst af í mannkynssögunni voru borgarbúar aðeins lítið brot heildarfjölda íbúa í hverju landi. Með iðnbyltingunni á 19. öld hófst hröð þéttbýlisvæðing sem smám saman hefur breiðst út um allan heim. Nú, tveimur öldum síðar, býr yfir helmingur jarðarbúa í þéttbýli, sem leiðir af sér áður óþekktar hnattrænar áskoranir.[7][8][9][10][11] Í dag eru borgir oft hlutar stærri þéttbýlissvæða eða stórborgarsvæða þar sem borg eða borgir og margir samliggjandi minni bæir mynda samfellt atvinnu- og þjónustusvæði. Á tímum hnattvæðingar mynda þessar borgir svo tengslanet og eiga í samkeppni sem nær út fyrir staðbundið samhengi þeirra. Þetta skapar hnattrænar áskoranir sem snerta sjálfbæra þróun, loftslagsbreytingar og hnattræna heilsu. Vegna þessara áskorana er talið mikilvægt að fjárfesta í þróun sjálfbærra borga þar sem stærðarhagkvæmnin er nýtt til að draga úr vistspori íbúa. Þéttbyggð borg er stefna í borgarskipulagi sem gengur út á þetta,[12][13][14] en auknu þéttbýli fylgja líka hætta á myndun borgarhitahólma, mengunarálag og álag á vatnsból.

Önnur mikilvæg einkenni borga eru staða þeirra sem höfuðborgir og tiltölulega löng samfelld búseta. Höfuðborgir, eins og Aþena, Beijing, Djakarta, Kúala Lúmpúr, London, Maníla, Mexíkóborg, Moskva, Naíróbí, Nýja-Delí, París, Róm, Seúl, Singapúr, Tókýó og Washington-borg eru bæði andlit viðkomandi ríkja og mikilvægur hluti af sjálfsmynd viðkomandi þjóða.[15] Sögulegar höfuðborgir, eins og Kýótó, Yogyakarta og Xi'an, halda oft mikilvægi sínu þótt þær hafi ekki lengur stöðu höfuðborgar. Jerúsalem, Mekka, Varanasi, Ayodhya, Haridwar og Prayagraj eru dæmi um trúarlegar höfuðborgir, sem hafa sérstaka stöðu innan tiltekinna trúarbragða.

Orðið er skylt orðunum berg og bjarg og getur líka merkt klettaveggur. Notkun orðsins yfir þéttbýlisstað er samt mjög gömul í íslensku, samanber Egils sögu og Njáls sögu þar sem talað er um Jórvík og Dyflinni sem borgir. Latneska orðið burgus merkti lítið virki. Þaðan kemur merkingin inn í fornensku og þýsku sem víggirtur bær eða kastalabær. Danska orðið borg merkir höll, en í dönsku er orðið by „bær“ notað um bæði minni bæi og borgir. Í sænsku og þýsku er orðið stad eða stadt (dregið af „kaupstaður“) notað yfir bæði bæi og borgir. Í mörgum rómönskum málum er orðið yfir borg dregið af latneska orðinu civitas sem átti upphaflega við borgararéttindi, en latneska orðið urbs merkir borg. Í mörgum löndum er ekki gerður greinarmunur á því sem í íslensku heitir annars vegar „bær“ og hins vegar „borg“.

Upphaflega merkti íslenska orðið borg virki úr steini, þá jafnan með hlöðnum veggjum (samanber líka orðin „byrgi“ og „fjárborg“). Margir staðir á Íslandi taka nafn sitt af borgum og standa sumar þeirra enn svo sem borgin ofan á Helgafelli á norðanverðu Snæfellsnesi rétt hjá Stykkishólmi. Annað orð yfir hlaðið virki er „garður“, sem er skylt rússneska og serbneska orðinu yfir borg, город gorod og grȃd. Annars er orðið yfir borg í flestum slavneskum málum dregið af frumslavneska orðinu yfir stað, město.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Goodall, B. (1987) The Penguin Dictionary of Human Geography. London: Penguin.
  2. Kuper, A. and Kuper, J., eds (1996) The Social Science Encyclopedia. 2nd ed. London:; Routledge.
  3. „Population by region – Urban population by city size – OECD Data“. theOECD (enska). Afrit af uppruna á 3. júní 2019. Sótt 3. júní 2019.
  4. Caves, R. W. (2004). Encyclopedia of the City. Routledge. bls. 99.
  5. Glaeser, Edward (2011). „Cities, Productivity, and Quality of Life“. Science. 333 (6042): 592–594. Bibcode:2011Sci...333..592G. doi:10.1126/science.1209264. PMID 21798941. S2CID 998870.
  6. Bettencourt, Luis; West, Geoffrey (2010). „A unified theory of urban living“. Nature. 467 (7318): 912–913. Bibcode:2010Natur.467..912B. doi:10.1038/467912a. PMID 20962823.
  7. Ritchie, Hannah; Roser, Max (13. júní 2018). „Urbanization“. Our World in Data (enska). Afrit af uppruna á 29. október 2020. Sótt 14. febrúar 2021.
  8. James, Paul; with Magee, Liam; Scerri, Andy; Steger, Manfred B. (2015). Urban Sustainability in Theory and Practice: Circles of Sustainability. London: Routledge. ISBN 978-1315765747. Afrit af uppruna á 1. mars 2020. Sótt 20. desember 2017.
  9. „Rise of the City“. Science. 352 (6288): 906–907. 2016. doi:10.1126/science.352.6288.906. PMID 27199408.
  10. „Cities: The century of the city“. Nature. 467 (7318): 900–901. 2010. doi:10.1038/467900a. PMID 20962819.
  11. Sun, Liqun; Chen, Ji; Li, Qinglan; Huang, Dian (2020). „Dramatic uneven urbanization of large cities throughout the world in recent decades“. Nature Communications. 11 (1): 5366. Bibcode:2020NatCo..11.5366S. doi:10.1038/s41467-020-19158-1. PMC 7584620. PMID 33097712.
  12. „Sustainable cities must be compact and high-density“. The Guardian News (enska). 30. júní 2011. Afrit af uppruna á 9. mars 2021. Sótt 20. mars 2021.
  13. Angelo, Hillary; Wachsmuth, David (2020). „Why does everyone think cities can save the planet?“. Urban Studies. 57 (11): 2201–2221. Bibcode:2020UrbSt..57.2201A. doi:10.1177/0042098020919081.
  14. Bibri, Simon Elias; Krogstie, John; Kärrholm, Mattias (2020). „Compact city planning and development: Emerging practices and strategies for achieving the goals of sustainability“. Developments in the Built Environment. 4: 100021. doi:10.1016/j.dibe.2020.100021.
  15. „Ch2“. www-personal.umich.edu. Afrit af uppruna á 4. ágúst 2020. Sótt 10. maí 2021.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: https://is.wikipedia.org/wiki/Borg

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy