Content-Length: 105165 | pFad | https://is.wikipedia.org/wiki/Emmeline_Pankhurst

Emmeline Pankhurst - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Emmeline Pankhurst

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
lady seated in chair
Emmeline Pankhurst, u. þ. b. 1913

Emmeline Pankhurst (f. Goulden; 15. júlí 1858 – 14. júní 1928) var breskur aðgerðasinni og leiðtogi bresku kvenréttindahreyfingarinnar sem stuðlaði að því að konur öðluðust kosningarétt. Árið 1999 var hún nefnd ein af 100 áhrifamestu einstaklingum 20. aldarinnar af tímaritinu Time, sem sagði jafnframt um hana að hún hefði „mótað hugmyndina um nútímakonuna; hún skók samfélagið til nýrrar formgerðar sem ekki var aftur snúið frá.“[1] Á sínum tíma var hún harðlega gagnrýnd fyrir herskáar aðferðir sínar og sagnfræðingum kemur enn ekki saman um hvort þær hafi í raun borið árangur. Þó er almennt viðurkennt að starf hennar hafi verið mikilvægur þáttur í því að konur fengu kosningarétt í Bretlandi.[2][3]

Emmeline Goulden fæddist í Moss Side í Manchester. Foreldrar hennar voru virk í stjórnmálum og Emmeline var kynnt fyrir kvenréttindahreyfingunni þegar hún var fjórtán ára. Þann 18. desember 1879 giftist hún Richard Pankhurst, málaflutningamanni sem var 24 árum eldri en hún og var þekktur fyrir að styðja kosningarétt kvenna. Hjónin eignuðust fimm börn á næstu tíu árum. Richard studdi aðgerðir Emmeline fyrir utan heimilið og hún stofnaði Frelsunarbandalag kvenna (Women's Franchise League) sem krafðist kosningaréttar fyrir giftar og ógiftar konur. Þegar samtökin liðuðust í sundur reyndi Pankhurst að ganga í vinstriflokkinn Sjálfstæða Verkamannaflokkinn með milligöngu vinar síns, sósíalistans Keir Hardie, en fékk í fyrstu ekki aðild vegna kyns síns. Á meðan hún vann í fátækrahjálp var hún steini lostin yfir lélegum vinnuaðstæðum verkamanna í verksmiðjum Manchester.

Árið 1903, fimm árum eftir dauða eiginmanns síns, stofnaði Pankhurst Samfélags- og stjórnmálabandalag kvenna (Women's Social and Political Union; WSPU), samtök sem áttu að berjast fyrir kosningarétti kvenna með „dáðum, ekki orðum“.[4] Hópurinn skilgreindi sig sem óháð samtök sem stæðu utan við flokkapólitík. Samtökin urðu þekkt fyrir valdbeitingu: Meðlimir þeirra brutu gluggarúður og réðust á lögreglumenn. Pankhurst, dætur hennar og aðrir meðlimir samtakanna voru oft fangelsaðar en í fangelsi fóru þær gjarnan í hungurverkfall til þess að knýja fram betri meðferð. Eftir að elsta dóttir Pankhurst, Christabel, tók við stjórn samtakanna versnaði samband hópsins við bresku ríkisstjórnina til muna. Hópurinn fór að kveikja í byggingum til að vekja athygli á málstað sínum og hófsamari aðgerðarhópar fóru að ganrýna Pankhurst-fjölskylduna. Árið 1913 sögðu margir meðlimir sig úr Samfélags- og stjórnmálabandalaginu, þar á meðal dætur Pankhurst, Adela og Sylvia. Emmeline var svo reið dætrum sínum að hún „gaf Adelu fararmiða, tuttugu pund og bréf sem kynnti hana fyrir kvenréttindakonu í Ástralíu og krafðist þess að hún flytti úr landi“.[5] Adela fór að ósk móður sinnar og samband þeirra batnaði aldrei. Sylvia gerðist sósíalisti.

Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út kölluðu Emmeline og Christabel eftir því að hlé yrði gert á baráttunni fyrir kvenréttindum og að breskar konur styddu þess í stað baráttu bresku ríkisstjórnarinnar gegn „þýsku hættunni“.[6] Þær hvöttu konur til að vinna í hergagnaiðnaði og unga karlmenn til þess að skrá sig í herinn. Þær hvöttu konur jafnframt til þess að rétta körlum sem ekki voru klæddir í einkennisbúninga hvítar fjaðrir (tákn um heigulskap).[7] Árið 1918 var öllum körlum yfir 21 árs aldri og konum yfir 30 ára aldri veittur kosningaréttur. Aldursmuninum var ætlað að koma í veg fyrir að karlar yrðu í minnihluta meðal kjósenda eftir hið mikla mannfall Breta í fyrri heimsstyrjöldinni.[8] Pankhurst breytti Samfélags- og stjórnmálabandalaginu í Kvennaflokkinn (Women's Party) sem var ætlað að boða jafnrétti kynjanna í daglegu lífi. Seinna á ævi sinni fór Pankhurst að hafa áhyggjur af uppgangi kommúnismans og gekk því í Íhaldsflokkinn, sem áður hafði verið helsti óvinur hennar. Hún var kjörin sem frambjóðandi Íhaldsmanna fyrir Whitechapel og St. Georges-kjördæmi árið 1927.[9][10] Pankhurst lést þann 14. júní árið 1928, fáeinum vikum áður en Íhaldsstjórnin lækkaði kosningaaldur kvenna niður í 21 ár.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Warner, Marina (14. júní 1999). „Emmeline Pankhurst –Time 100 People of the Century“. Time. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. ágúst 2013. Sótt 5. mars 2018.
  2. Bartley, Paula. Emmeline Pankhurst. London: Routledge, 2002, bls. 4–12; Purvis, June. Emmeline Pankhurst: A Biography. London: Routledge, 2002, bls. 1–8.
  3. Bartley, bls. 240–241; Purvis 2002, bls. 361–363.
  4. E. Pankhurst 1914, bls. 38.
  5. Hochschild, Adam (2011). To End All Wars, bls. 71. Houghton Mifflin Harcourt, Boston.
  6. Quoted in Purvis 2002, bls. 270.
  7. „White Feather Feminism“. Sótt 5. mars 2018.
  8. „Representation of the People Act 1918“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 5. mars 2018.
  9. Purvis 2002, bls. 248.
  10. „Emmeline Pankhurst – Conservative candidate“.








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: https://is.wikipedia.org/wiki/Emmeline_Pankhurst

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy