Content-Length: 126281 | pFad | https://is.wikipedia.org/wiki/Kr%C3%ADmtatarar

Krímtatarar - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Krímtatarar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Krímtatarar í hefðbundnum þjóðbúningum.
Þjóðfáni Krímtatara.

Krímtatarar (krímtatarska: къырымтатарлар) eða Krímverjar (krímtatarska: къырымлылар) eru tyrkískur þjóðflokkur sem upprunninn er á Krímskaga í Úkraínu. Úkraínsk stjórnvöld viðurkenna Krímtatara sem frumbyggjaþjóð Krímskaga.

Krímtatarar tala krímtatörsku að móðurmáli og aðhyllast flestir súnní-íslamstrú. Þjóðin er jafnan flokkuð með öðrum Tataraþjóðum en Krímtatarar eru þó aðeins fjarskyldir þeim og deilt hefur verið um hvort yfirhöfuð sé rétt að kalla þá Tatara.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Krímtatarar eru afkomendur tyrkískumælandi þjóðernishópa sem tóku þátt í landvinningum Djengis Khans á 13. öld.[1] Eftir upplausn Mongólaveldisins og Gullnu hordunnar áttu Krímtatarar ríki sitt í Krímkanatinu á Krímskaga. Þar nutu þeir verndar Tyrkjasoldáns og herjuðu gjarnan á nágrannaríkin. Rússar sigruðu Tyrkjaveldi í stríði árið 1774 sem leiddi til þess að Tyrkir glötuðu áhrifum sínum á Krímskaga og Krímkanatið varð að leppríki Rússa. Katrín mikla limaði Krímkanatið síðan beint inn í Rússaveldi árið 1783.[2]

Nauðungarflutningar Krímtatara 1944

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir seinni heimsstyrjöldina lét Jósef Stalín gera Krímtatara brottræka frá Krímskaga og koma þeim fyrir sem landnemum í Úsbekistan. Nauðungarflutningarnir á Krímtöturum voru réttlættir með vísan til grunsemda Stalíns um að þeir hefðu upp til hópa verið samstarfsmenn hernámsliðs Þjóðverja á stríðsárunum. Starfsmönnum leynilögreglunnar NKVD var falið að reka Krímtatara burt frá Krímskaga.[2] Leynilögreglan hóf að reka um 200.000 Krímtatara frá Krím þann 18. maí 1944. Krímtatararnir voru læstir minnst fimmtíu saman inn í gluggalausum gripa- og flutningavögnum og þeir fluttir í margra daga lestarferðum þvert yfir Sovétríkin. Á leiðinni höfðu þeir lítið af vatni eða mat, enga hreinlætisaðstöðu og lestirnar námu sjaldan staðar á leiðinni. Talið er að allt að 8.000 Krímtatarar hafi látið lífið í flutningunum.[1]

Eftir að til Úsbekistan var komið var Krímtöturum komið fyrir á samyrkjubúum og þeir látnir vinna erfiðisvinnu þar sem þeir höfðu lítil sem engin réttindi. Talið er að um 30-40 prósent Krímtataranna hafi látist á fyrstu árunum eftir flutningana úr vannæringu, fátækt og sjúkdómum sem breiddust út í fangabúðum þeirra, meðal annars malaríu og taugaveiki.[1]

Sovésk stjórnvöld báðu Krímtatara afsökunar fyrir nauðungarflutningana árið 1967 en gáfu þeim ekki leyfi til að snúa heim til Krímskaga.[3] Fyrstu Krímtatararnir fengu loksins heimild til að snúa aftur á Krímskaga árið 1988, á stjórnartíð Míkhaíls Gorbatsjov.[4]

Endukoma á Krímskaga og nútímasaga

[breyta | breyta frumkóða]

Krímtatarar sneru aftur til Krímskaga í miklum mæli á tíunda áratugnum, sér í lagi eftir upplausn Sovétríkjanna og sjálfstæði Úkraínu árið 1991. Í mörgum tilvikum kom til átaka milli Krímtatara og Rússa sem höfðu sest að á heimilum þeirra og foreldra þeirra eftir nauðungarflutningana 1944.[5]

Samkvæmt manntali frá árinu 2001 voru Krímtatarar þá orðnir um 12% af íbúum Krímskaga, Rússar voru 58% en Úkraínumenn 24%.[6]

Í kjölfar úkraínsku byltingarinnar árið 2014 hertók Rússland Krímskaga og limaði hann síðan inn í rússneska sambandsríkið í kjölfar atkvæðagreiðslu sem haldin var meðal íbúa skagans. Flestir Krímtatarar voru mótfallnir innlimun skagans í Rússland og sniðgengu atkvæðagreiðsluna.[6] Tveimur helstu stjórnmálaleiðtogum Krímtatara, Mústafa Dzjemílev og Refat Tsjúbarov, var meinað að koma aftur til Krímskaga eftir að Rússar innlimuðu hann.[7]

Rússnesk stjórnvöld á Krímskaga hafa verið sökuð um ofsóknir, mannrán og pyntingar gagnvart Krímtöturum á skaganum eftir innlimunina. Svokallaðar „sjálfsvarnarsveitir“ hafa í sumum tilfellum tekið sér lögregluvald og ráðist á moskur, fyrirtæki og heimili í leit að meintum öfgamönnum. Jafnframt hafa margir krímtatarískir stjórnmálamenn verið sektaðir fyrir að eiga fundi með Dzjemílev og Tsjúbarov í Kænugarði. Árið 2016 greindi Evrópuráðið frá því í skýrslu um stöðu mannréttindamála á skaganum að auk mannrána og dauðsfalla hefði tugum Krímtatara verið brottvísað frá skaganum á meginland Úkraínu.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 Vera Illugadóttir (21. maí 2016). „Líkin hrönnuðust upp í lestarvögnunum“. RÚV. Sótt 15. maí 2023.
  2. 2,0 2,1 Vera Illugadóttir. „Krímtatarar“. RÚV. Sótt 22. október 2022.
  3. „Tatarar snúa sér á ný gegn Moskvuvaldinu“. Morgunblaðið. 7. ágúst 1987. bls. 22.
  4. „Fyrstu Krímtatararnir fá að snúa heim“. mbl.is. 6. maí 1988. Sótt 22. október 2022.
  5. „„Það er Rússi sem býr í húsinu mínu". Tíminn. 18. ágúst 1995. bls. 8.
  6. 6,0 6,1 „Leiðtoga tatara meinað að koma til Krím“. mbl.is. 22. apríl 2014. Sótt 15. maí 2023.
  7. „Bannað að koma til Krím“. mbl.is. 7. júlí 2014. Sótt 15. maí 2023.
  8. Bogi Þór Arason (5. nóvember 2014). „Krím-tatarar sagðir sæta ofsóknum“. Morgunblaðið. bls. 17.








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: https://is.wikipedia.org/wiki/Kr%C3%ADmtatarar

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy