Content-Length: 199011 | pFad | https://is.wikipedia.org/wiki/Magdeburg

Magdeburg - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Magdeburg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Magdeburg
Skjaldarmerki Magdeburg
Staðsetning Magdeburg
SambandslandSaxland-Anhalt
Flatarmál
 • Samtals201 km2
Hæð yfir sjávarmáli
55 m
Mannfjöldi
 • Samtals238.000 (2.019)
 • Þéttleiki1.149/km2
Vefsíðawww.magdeburg.de

Magdeburg er höfuðborg þýska sambandslandsins Saxlands-Anhalt,hún er þó næststærsta borgin í sambandslandinu (238 þús. íbúar, 2019). Borgin var áður fyrr aðsetur Ottos I keisara og ber viðurnefnið Ottostadt síðan 2010.

Magdeburg.

Magdeburg liggur við ána Saxelfi fyrir miðju Saxland-Anhalt. Næstu borgir eru Braunschweig til vesturs (60 km), Berlín til norðausturs (70 km) og Halle til suðurs (60 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Magdeburg er rautt borgarvirki með opnum hurðum. Milli turnanna er grænklædd ungfrú sem heldur á grænum kransi. Ungfrúin á að vera nafngefandi fyrir heiti borgarinnar (ungfrú er Magd á þýsku). Bæði virkið og ungfrúin komu fram sem merki þegar á 13. öld. Kransinn merkir hreinleika en það merki kom miklu seinna fram.

Upphaflega hét borgin Magadeburg og Magathaburg. Tvær tilgátur eru um uppruna heitins. Sú fyrri er að heitið sé dregið af Magd, sem merkir ungfrú, til dæmis skógardís. Sú síðari er að það sé dregið að orðinu Macht (en ekki Magd), sem merkir máttugur.[1]

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Otto I og Edith frá Englandi koma til Magdeburg (Hugo Vogel 1898, Ständehaus Merseburg)

805 kemur borgin fyrst við skjöl hjá Karlamagnús, sem hafði setið þar á ferðum sínum. Það var þó ekki fyrr en með Otto I konungi að Magdeburg verður að borg. Á hans tíma voru Ungverjar mikil ógn í ríkinu og fékk borgin þá viðeigandi varnarvirki. Árið 929 kvæntist Otto I í borginni að ráði Hinriks I föður sínum og fékk hann Edith, dóttur Játvarðs konungs af Wessex í Englandi. Í brúðargjöf fékk Edith Magdeburg. Otto varð síðar keisari þýska ríkisins. Bæði hvíla þau í dómkirkju borgarinnar. Seinni kona Ottos var Aðalheiður frá Ítalíu og kom hún með ítölsk áhrif á byggingarstíl borgarinnar. Eftir þeirra daga varð Magdeburg mikil verslunarborg. Þannig fannst 11. aldar silfurpeningur frá Magdeburg í Sandi á Færeyjum. Borgin var á tímabili meðlimur Hansasambandsins. 1126 varð Magdeburg að biskupsdæmi. Fyrsti biskupinn var Norbert frá Xanten, sem seinna var lýstur heilagur. Þaðan í frá var borgin stjórnuð af biskupum, allt til 1503, en þá fluttu biskuparnir til Halle.

Siðaskipti og stríð

[breyta | breyta frumkóða]
Magdeburg um 1572. Mynd eftir Franz Hogenberg.
Þýskt frímerki frá 1969 um tilraun Guerickes með lofttæmdum hálfkúlum.

Í júní 1524 kom Marteinn Lúther til Magdeburg og hóf að predika nýja trú. Borgarbúar meðtóku hana strax, ekki eingöngu trúarinnar vegna, heldur einnig til að minnka áhrif kaþólsku kirkjunnar á stjórnkerfi borgarinnar. 17. júlí 1524 fóru siðaskiptin formlega fram í öllum kirkjum borgarinnar, nema í dómkirkjunni, sem enn var stjórnuð af fulltrúa biskupanna. Í kjölfarið fór Georg frá Mecklenborg í herferð gegn Magdeburg og settist um borgina. Umsátrið varaði frá 22. september 1550 til 5. nóvember 1551 og héldu borgarbúar út við mikinn skort. Umsátrinu var létt eftir mikið samningsþóf. 30 ára stríðið var hörmulegt fyrir Magdeburg. 20. maí 1631 réðist Tilly með keisaraherinn á borgina. Hann brenndi hana niður og drap flesta íbúa hennar. Þar dóu allt að 30 þúsund manns en fjöldamorð þetta er mesta mannfall óbreyttra borgara í stríðinu öllu. Í stríðslok var kveðið á í friðarsamningum að borgin skyldi tilheyra Saxlandi þar til fulltrúi þess lands dæi. Þá ætti borgin að ganga í Brandenborg. Fulltrúi Saxlands hét Otto von Guericke og var hann borgarstjóri Magdeburg til 1680. Hann var jafnframt eðlisfræðingur og uppfinningamaður. Sérgrein hans var lofttæmi en hann gerði frægar tilraunir með tveimur hálfkúlum sem aðeins lofttæmið innan í þeim hélt saman. Nokkrir hestar voru fengnir til að toga hálfkúlurnar í sundur en tókst ekki. Með láti Guerickes 1680 varð Magdeburg eign Brandenborgar.

Nýrri tímar

[breyta | breyta frumkóða]
Stórblokkir í stalínískum stíl.

1806 hertóku Frakkar borgina. Ári síðar gaf Napoleon hana konungsríkinu Vestfalíu. Við fyrra fall Napoleons 1814 varð borgin hins vegar prússnesk og var til skamms tíma höfuðborg héraðsins Saxlands. Borgin kom lítið við sögu næstu áratugi. Eftir valdatöku nasista var stofnað til útrýmingarbúðanna KZ Magda í norðurhluta borgarinnar. Auk þess var í borginni (í Liebknechtstrasse) settar upp aukabúðir fyrir Buchenwald. Í búðum þessum létust þúsundir gyðinga og andstæðinga nasista. Fyrstu loftárásir á Magdeburg hófust 22. ágúst 1940 og var þeim viðhaldið næstu árin. Markmiðið var að eyðileggja iðnaðinn, sem að hluta var notaður í hergagnaframleiðslu. Verstu loftárásirnar voru gerðar 16. janúar 1945. Í henni lagðist borgin nánast í rúst. Um 90% miðborgarinnar eyðilagðist. Miðað við mannfall var Magdeburg í fimmta sæti yfir mest eyðilagðar borgir í Þýskalandi. Bandaríkjamenn komu að borginni 11. apríl. Þegar nasistar neituðu að gefast upp, var skotið látlaust á borgina í heilan dag. Eftir mikla bardaga náðu Bandaríkjamenn loks að hertaka borgina 19. apríl. Í júní leystu Bretar Bandaríkjamenn af en 1. júlí var borginni skilað til Sovétmanna, enda á þeirra hernámssvæði. Árið 1947 var Saxland-Anhalt stofnað sem sambandsland Austur-Þýskalands. Höfuðborgin var þá Halle. Uppbygging Magdeburg var erfið. Margar byggingar voru ónýtar. Í miðborginni voru sjö kirkjur í rústum og voru allar fjarlægðar. Aðeins dómkirkjan var endurreist. Þess í stað fékk borgin nýja ásýnd með blokkahverfum og breiðgötum í stalínískum stíl. 1990 sameinaðist Þýskaland á ný og varð Saxland-Anhalt að nýju sambandslandi. Á þinginu var ákveðið með naumum meirihluta að gera Magdeburg að höfuðborg sambandslandsins í stað Halle. Á móti komu miklir erfiðleikar í atvinnulífinu. Atvinnuleysið olli miklu brotthvarfi íbúa og fækkaði íbúum um 60 þús á aðeins 15 árum. Íbúar voru um 290 þúsund við sameiningu en voru um 230 þúsund árið 2005.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]
Magdeburger Stadtfest er þjóðhátíð borgarinnar
  • Meile der Demokratie er menningargjörningur í janúar í tengslum við heimstyrjöldina síðari. Hugmyndin var sú að stemma stigu við uppþot nýnasista og minnast látinna í loftárásum stríðsins.
  • Elbauennacht er ljósanótt borgarinnar. Hér er um ljósasjón að ræða með laser-listaverkum, flugeldum og tónlist.
  • Þjóðhátíð borgarinnar kallast Magdeburger Stadtfest og er haldið í maí.
  • Miðaldahátíðin Spectaculum Magdeburgense er haldin í maí og ein stærsta slíka í Þýskalandi.
  • Hinsegindagar eru haldnir í ágúst, en hápunktur þeirra er skrúðganga samkynhneigðra.
  • Rock im Stadtpark er tveggja daga rokkhátíð, en á henni troða aðallega þýskar rokkhljómsveitir upp.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Handboltaliðið SC Magdeburg er með bestu félagsliðum Þýskalands. Það hefur tólf sinnum orðið þýskur meistari (síðast 2001), sex sinnum bikarmeistari (síðast 1996) og þrisvar Evrópumeistari (síðast 2002). Nokkrir Íslendingar hafa sett mark sitt á félagið. Þar má nefna Ólaf Stefánsson, sem lék með félaginu 1998-2003 og Björgvin Pál Gústavsson, sem hóf leik með félaginu 2011. Alfreð Gíslason var þjálfari liðsins 1999-2006.

Maraþon er hlaupið í borginni í október ár hvert.

Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er 1. FC Magdeburg, sem þrisvar varð austurþýskur meistari. Liðið varð Evrópumeistari bikarhafa 1974, eina austurþýska liðið sem það afrekaði (sigraði þá AC Milan).

Magdeburg viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Dómkirkjan í Magdeburg
Frúarklaustrið
Þúsaldarturninn
  • Dómkirkjan er einkennisbygging Magdeburg og er jafnframt meðal elstu gotnesku bygginga Þýskalands. Fyrirrennarinn var reistur frá og með árinu 962 af Otto I. konungi (síðar keisara) þýska ríkisins. En byggingin nær gjöreyðilagðist í borgarbruna 1207. Núverandi bygging var reist 1209-1520 eða í rúmlega 300 ár. Kirkjan var byggð í frönskum gotneskum stíl, sem þá var nánast ókunnur í Þýskalandi. Smiðirnir urðu því að læra með smíðinni. 1363 var skipið vígt og helgað heilögum Márítíusi og heilagri Katarínu frá Alexandríu. Síðast voru turnarnir reistir. Þeir eru 99 og 100 metra háir. 1567 varð dómkirkjan lútersk þrátt fyrir að siðaskiptin urðu rúmlega 4 áratugum fyrr í borginni. Hún er enn lútersk í dag. 1631 eyddi Tilly borginni og drap borgarbúa í 30 ára stríðinu. Einungis 4.000 íbúar sem höfðu lokað sig inni í dómkirkjunni lifðu af. Þegar herdeildir Napoleons náðu til borgarinnar í upphafi 19. aldar, notuðu þeir dómkirkjuna sem lager og hesthús. Byggingin skemmdist mikið í loftárásum seinna stríðsins. Gert var við skemmdir strax eftir stríðslok og var dómkirkjan opnuð á ný 1955. Í kirkjunni hvíla Otto I keisari og fyrri eiginkona hans Edith frá Englandi.
  • Frúarklaustrið í miðborginni telst með merkustu rómönskum klaustrum Þýskalands. Klaustrið var stofnað 1015 en núverandi bygging var reist 1063/4. Þegar borgin brann 1207, eyðilagðist meðal annars dómkirkjan. Þar sem klaustrið slapp, var Maríukirkjan innan þess notuð sem dómkirkja meðan ný kirkja var reist. Þegar siðaskiptin urðu, var klaustrið eina kirkjustofnunin til að viðhalda kaþólskri trú. Það var hins vegar rænt og ruplað í trúarstríðinu 1546-47 (Schmalkaldischer Krieg). 1597 dó síðasti prófasturinn og upp úr því ákváðu munkarnir að yfirgefa klaustrið, þar sem erfitt var orðið að vera kaþólskur í lúterskri borg. Þegar Tilly eyddi borginni í 30 ára stríðinu 1631, slapp klaustrið við nær allar skemmdir, enda kaþólskt eins og keisareherinn. Eftir það var klaustrið notað í ýmsum tilgangi, til dæmis að hýsa húgenotta þegar borgin var hluti af Brandenborg. Skóli var opnaður þar 1698. Þegar Frakkar hertóku borgina í Napoleonsstríðunum, notuðu þeir klaustrið sem riddarabækistöð og herspítala. Maríukirkjan var notuð sem hesthús. Eftir það var klaustrið lagt niður. Það skemmdist töluvert í loftárásum seinna stríðsins. Kór Maríukirkjunnar var endurreistur 1947-49 en er notaður af mótmælendum. Með tímanum voru rústirnar endurreistar líka, en þær eru safn í dag.
Græna virkið er skondnasta byggingin í Magdeburg
  • Græna virkið (Grüne Zitadelle) er heiti á nútíma blokk í borginni. Hún er eflaust skondnasta bygging borgarinnar. Blokkin var reist 2005 af austurríska listamanninum Hundertwasser skömmu áður en hann lést. Neðst eru verslanir og leikhús. Ofar eru hótel og íbúðir. Formið er einstakt og nútímalegt. Á þakinu er gras og jafnvel tré. Hugmyndin var sú að ekki sé gert neitt að ytri veggjunum. Veðrun og gróðurinn muni breyta litnum smátt og smátt. Íbúarnir hafa rétt til að lita og mála eigin ytri veggi svo langt sem hendur og penslar ná út fyrir gluggana. Engin hefur þó enn nýtt sér þennan rétt.
  • Tugaldarturninn (Jahrtausendturm) er 60 metra hár sýningarturn. Hann var reistur 1999 í tilefni af garðasýningunni miklu (Bundesgartenschau) og er úr viði. Hann er hæsti viðarturn Þýskalands og var viljandi reistur eins og hann væri hallandi. Að innan er gengið upp tröppur í spíralformi. Þar er vísindasafn til húsa á 5 hæðum en á 6. hæð er útsýnispallur.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 176.








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: https://is.wikipedia.org/wiki/Magdeburg

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy