Content-Length: 131489 | pFad | https://is.wikipedia.org/wiki/Merkant%C3%ADlismi

Merkantílismi - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Merkantílismi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sólsetur við höfn eftir Claude Lorrain frá 1639.

Merkantílismi eða kaupauðgisstefna er hagstjórnarstefna sem var ríkjandi í Evrópu frá sextándu öld til átjándu aldar. Hagfræðikenning merkantílismans byggist á því að efnahagsleg velferð ríkja felist í jákvæðum viðskiptajöfnuði og miklum forða gulls og silfurs. Kenningin gefur sér að heildarauður viðskipta sé óbreytanlegur, þannig að gróði eins merki óhjákvæmilega tap annars. Samkvæmt kenningunni er það hlutverk stjórnvalda að beita tollum og öðrum aðgerðum til að örva útflutning, en draga að sama skapi úr innflutningi.

Merkantílismi er efnahagsleg hlið pólitísks einveldis. Helstu talsmenn merkantílismans, Thomas Mun, Jean-Baptiste Colbert og Antonio Serra, notuðu samt hugtakið ekki sjálfir. Merkantílískir hagfræðingar litu líka aldrei svo á að þeir tilheyrðu eiginlegum skóla hagfræðikenninga.[1] Hugtakið var fyrst notað í þeim skilningi af Adam Smith árið 1776, þar sem hann leiddi það af latnesku orðunum mercari sem merkir „að eiga viðskipti“ og merx sem þýðir „varningur“. Hugtakið var í upphafi aðeins notað af gagnrýnendum kenningarinnar, en var fljótt tekið upp af sagnfræðingum sem sögulegt heiti stefnunnar.

Merkantílismi var ekki eiginlegur skóli í sama skilningi og aðrir skólar hagfræðinnar, eins og nýklassíski eða marxíski skólinn. Flestir merkantílískir hagfræðingar skrifuðu aðeins um afmörkuð efni, út frá mjög ólíkum forsendum og með afar ólíkri aðferðafræði. Margir voru starfsmenn einokunarfyrirtækja, svo sem Thomas Mun sem var stjórnandi í Breska Austur-Indíafélaginu, eða fjármálamenn í þjónustu konunga, eins og John Law. Framlög merkantílismans til hagfræðinnar eru margvísleg, en mikilvægastar eru þó kenningar um eðli peninga og utanríkisviðskipta.

Hefð er fyrir því að miða endalok tímabils merkantílisma í hagfræði við árið 1776 og útkomu bókar Adam Smith, Auðlegð þjóðanna.

Fyrstu merki merkantílískrar efnahagsstefnu má finna hjá borgríkjum Ítalíu á 15. öld, þar sem smáríki sem byggðu auð sinn og áhrif á milliríkjaviðskiptum börðust sín á milli um stjórn á viðskiptum með góðmálma á Miðjarðarhafssvæðinu.

Með vexti viðskipta og peningamagns í umferð í Evrópu á sextándu öld, eftir landafundina, tóku hagfræðingar hins vegar að veita mikilvægi peninga og utanríkisviðskipta meiri athygli. Öflug utanríkisviðskipti, sem færðu gull og silfur inn í landið, voru talin lykillinn að efnahagslegri velsæld þjóðarinnar og ríkisins (konungsins eða furstans). Í þessu fólst mikilvæg breyting frá eldri evrópskri hagfræði. Spurningar hagfræðinga á miðöldum (skólaspekinganna) höfðu fyrst og fremst fjallað um siðferðilegar spurningar tengdar viðskiptum og efnahagsmálum.

Frá 16. til 18. aldar uxu viðskipti enn frekar og frumiðnvæðing skóp umtalsverðan hagvöxt. Viðfangsefni hagfræðinga snéru fyrst og fremst að utanríkisviðskiptum og eðli peninga. Þó svo að Nikulás Kópernikus hafi verið sá fyrsti sem greindi formlega áhrif peningamagns á efnahag þjóðar árið 1517,[2] tæpum hundrað árum áður, er ítalski merkantílistinn Antonio Serra almennt talinn sá fyrsti sem birti fræðirit þar sem í lokaorðum er mælt með virkri beitingu merkantílískrar hugmyndafræði árið 1613 (Breve trattato delle cause che possono far abbondare li regni d’oro e d’argento dove non sono miniere). Þrátt fyrir umtalsverð áhrif skrifa Antonio Serra er lítið vitað um líf hans. Hann er talinn sá fyrsti til þess að greina viðskiptajöfnuð Napólí og hann útskýrði meðal annars hvernig gullskortur í Napólí hafi verið tilkominn vegna viðskiptahalla. Hans lausn byggðist á því að hvetja til útflutnings og draga úr innflutningi.[3]

Einkenni kaupaugðisstefnunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Kaupaugðisstefnan átti sér ólíkar birtingarmyndir í Evrópu frá 1500 fram á nítjándu öld.

Beiting kaupauðgisstefnunnar hófst í konungsveldi Spánar á seinni helmingi 16. aldar. Spænska kaupauðgisstefnan er almennt talin hafa verið leidd af arbitristum sem voru spænskir fræðimenn. Áhersla arbitrista var á efnahagslega greiningu á samfélagslegum vandamálum konungsveldisins og úrlausn þeirra. Fyrirkomulag kaupauðgisstefnu Spánar var i meginatriðum svipuð kaupauðgisstefnu annarra Evrópuþjóða.[4] Þeir lögðu til tollavernd og voru margir hverjir svo róttækir að heitið arbitrios er enn notað fyrir ákveðna tegund skatta. Stórkostlegt innflæði góðmálma til Spánar frá Ameríku vakti áhuga evrópskra kaupauðgissinna. Fljótt fór innflæði gulls að hafa slæm áhrif á efnahag Spánar og við tók ofsaverðbólga.[5] Skömmu síðar var tekið að nota heitið arbitrista í neikvæðri merkingu. Þó lýstu margir spænskir fræðimenn yfir áhyggjum af mögulegum verðlagsáhrifum gullinnflutnings frá Ameríku, þar helst Martín de Azpilcueta, sem var einn að hugsuðunum á bak við peningamagnskenninguna. Af öðrum mikilvægum spænskum hagfræðingum þessa tíma má nefna Pedro Rodríguez de Campomanes.

Kaupauðgisstefnan breiddist hratt út á meginlandi Evrópu, en talið er að England hafi verið fyrsta ríkið til þess að tileinka sér kaupauðgisstefnu að fullu í valdatíð Elísabetar 1. frá árinu 1558. Talið er að rík áhersla ensku krúnunnar á kaupauðgisstefnu hafi stafað af því að engar námur góðmálma fundust í Bretlandi og var því myntsláttur krúnunnar háður viðskiptajöfnuði og gullforða.[6] Stjórnartíð Elísabetar 1. einkenndist af tilraunum krúnunnar að skapa stóran skipaflota og auka magn góðmálma innanlands, ásamt því að keppa við spænska konungsveldið, sem þá var leiðandi í heimsviðskiptum. Einnig voru stríð Englands og Hollands á 17. og 18. öld háð vegna baráttu um yfirburði í milliríkjaviðskiptum.

Breska Austur-Indíafélagið var stofnað í lok árs 1600, þremur árum fyrir andlát Elísabetar 1., með það að meginmarkmiði að stunda einokunarviðskipti fyrir hönd krúnunnar í nýlendum í Indlandshafi. Einn af stofnendum og stjórnendum Austur-Indíafélagsins, Thomas Mun, var einn af helstu talsmönnum merkantílismans í Englandi við upphaf nýlendustefnu krúnunnar eftir aldamótin 1600. Thomas Mun var meðal annars gagnrýndur fyrir það að England flutti inn meira frá Indlandi en það flutti til Indlands og að viðskiptahallinn var greiddur með góðmálmum. Árið 1621 svaraði hann gagnrýninni með útgáfu bókarinnar A Discourse of Trade from England Unto the East Indies sem fékk töluverða athygli og er talin eitt af höfuðritum enskra merkantílista.[5] Árið 1757, 156 árum eftir stofnun félagsins, tók félagið formlega yfir stjórn Indlands.[7] Austur-Indíafélagið er oft álitið táknmynd merkantílismans í Englandi, þar sem félagið leiddi þenslu breska heimsveldisins með stofnun selstöðuverslana víða um heim.

Meðal annarra mikilvægra enskra hagfræðinga merkantílismans má nefna Bernard Mandeville.

Helsta táknmynd kaupauðgisstefnunnar í Frakklandi var Jean-Baptiste Colbert og er stefnan þar oft nefnd Colbertismi fyrir vikið. Colbert var efnahagsráðgjafi Loðvíks 14.. Fljótlega eftir valdatöku hans kynnti hann til sögunnar ítarlegt kerfi tolla og endurskipulagði skattkerfi Frakklands frá grunni.[8] Stefna hans byggðist á beitingu verndartolla gegn erlendum innflutningi ásamt fjárfestingu í innlendum almannagæðum til að bæta viðskiptajöfnuð. Einnig var stofnaður franskur kaupskipafloti að fyrirskipan Colberts. Fljótlega fór innlend framleiðsla á skrið og Frakkland varð efnahagslegt stórveldi. Honum tókst þó aldrei að gera Frakkland leiðandi í heimsviðskiptum. Talið er að það sé vegna þess að enskir og hollenskir kaupmenn stóðu Frökkum framar í nýlendustofnun.[9]

Búauðgisstefnan, sem á rætur sínar að rekja til Frakklands, var fyrsta kenningin sem hafnaði kaupauðgisstefnunni á 18. öld. Búauðgismenn voru þekktir fyrir hugtakið laissez-faire („lát vera“), sem er meint svar til Colberts þegar hann spurði innlenda kaupmenn hvernig hann gæti bætt hag þeirra.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „mercantilism | Definition & Examples“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 3. september 2021.
  2. Volckart, Oliver (1997). „Early beginnings of the quantity theory of money and their context in Polish and Prussian monetary policies, c. 1520–1550“. The Economic History Review (enska). 50 (3): 430–449. doi:10.1111/1468-0289.00063. ISSN 1468-0289.
  3. Friedrich List, Joseph Shield Nicholson (1916). The National System of Political Economy (enska). Harvard University. Longmans, Green.
  4. „Arbitrista“, Wikipedia (enska), 6. apríl 2020, sótt 3. september 2021
  5. 5,0 5,1 Schefold, Bertram (12. febrúar 2016), „History of economic thought and economic history“, Economic Thought and History, Routledge, bls. 48–65, doi:10.4324/9781315656991-2
  6. „The Metal in Britain's Coins – Where did it come from and how did it get here?“. http (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 3. ágúst 2021. Sótt 3. september 2021.
  7. „Company rule in India“, Wikipedia (enska), 2. ágúst 2021, sótt 3. september 2021
  8. „Mercantilism Definition | Characteristics, Examples, Criticisms | BoyceWire“. boycewire.com. Sótt 3. september 2021.
  9. Williams, E. N. (1999). The Ancien Regime in Europe : government and society in the major states 1648-1789. London: Pimlico. ISBN 0-7126-5934-X. OCLC 43225969.
  10. Boudet, Antoine; Book, Start this, Français : Journal oeconomique ou Memoires, notes et avis sur l'Agriculture, les Arts, le Commerce et tout ce qui peut y avoir rapport, ainsi qu'à la conservation et à l'augmentation des Biens des Familles, etc., sótt 3. september 2021








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: https://is.wikipedia.org/wiki/Merkant%C3%ADlismi

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy