Content-Length: 262975 | pFad | http://is.wikipedia.org/wiki/B%C3%BArma

Mjanmar - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Mjanmar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Búrma)
Mjanmar­samband­ið

Pyidaunzu Thanmăda Myăma Nainngandaw
Fáni Mjanmar Skjaldarmerki Mjanmar
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Kaba Ma Kiey
Staðsetning Mjanmar
Höfuðborg Naypyidaw
Opinbert tungumál búrmíska
Stjórnarfar Þingóháð lýðveldi; herforingjastjórn

Forseti Myint Swe (starfandi)
Forsætisráðherra Min Aung Hlaing
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 4. janúar, 1948 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
39. sæti
676.578 km²
3,06%
Mannfjöldi
 • Samtals (2017)
 • Þéttleiki byggðar
26. sæti
53.582.855
76/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 355 millj. dala (51. sæti)
 • Á mann 6.707 dalir (128. sæti)
VÞL (2019) 0.583 (147. sæti)
Gjaldmiðill kjat (MMK)
Tímabelti UTC+6:30
Þjóðarlén .mm
Landsnúmer +95

Mjanmar (búrmíska: မြန်မာ), einnig þekkt sem Búrma, er land í Suðaustur-Asíu. Það á landamæriAlþýðulýðveldinu Kína í norðri, Laos í austri, Taílandi í suðaustri, Bangladess í vestri og Indlandi í norðvestri. Það liggur að Andamanhafi í suðri og Bengalflóa í vestri. Mjanmar er stærsta landið á meginlandshluta Suðaustur-Asíu og það 10. stærsta í Asíu. Árið 2017 voru íbúar um 54 milljónir. Höfuðborg landsins er Naypyidaw en Jangún (Rangún) er stærsta borgin.

Meðal menningarsamfélaga sem hafa risið í Mjanmar eru Pyu-borgríkin í norðri þar sem íbúar töluðu tíbetóbúrmísk mál, og Mon-ríkin í Neðra-Búrma. Á 9. öld fluttust Bamarar í árdal Irrawaddy, og eftir stofnun Pagan-ríkisins á 11. öld varð búrmíska ásamt Theravada-búddisma smám saman ríkjandi í landinu. Pagan-ríkið féll við innrásir Mongóla og nokkur smærri ríki urðu til. Á 16. öld sameinaði Taungoo-veldið þessi ríki og landið varð um stutt skeið stærsta keisaraveldið í sögu Suðaustur-Asíu. Snemma á 19. öld ríkti Konbaung-veldið yfir því landsvæði sem síðar varð þekkt sem Búrma, auk Assam og Manipúr. Breska Austur-Indíafélagið náði völdum í Mjanmar eftir þrjú stríð Bretlands og Búrma á 19. öld og landið varð bresk nýlenda. Landið fékk sjálfstæði árið 1948. Eftir valdaránið í Búrma 1962 tók við herforingjastjórn Sósíalistaflokks Búrma.

Lengst af eftir að landið fékk sjálfstæði hafa hin fjölmörgu þjóðarbrot sem byggja landið átt í langvinnum átökum sín á milli. Á sama tíma hafa Sameinuðu þjóðirnar og fleiri alþjóðlegir eftirlitsaðilar bent á margvísleg kerfisbundin mannréttindabrot í landinu. Árið 2011 var herforingjastjórnin formlega leyst upp í kjölfar þingkosninga 2010 og borgaraleg stjórn tók við völdum. Á sama tíma var pólitískum föngum, eins og stjórnarandstöðuleiðtoganum Aung San Suu Kyi, sleppt úr haldi. Þetta varð til þess að bæta samskipti Mjanmar við önnur ríki og dró úr viðskiptaþvingunum. Stjórn Mjanmar og herinn hafa hins vegar verið gagnrýnd fyrir ofsóknir gegn minnihlutahópum í landinu og hörð viðbrögð við mótmælum og átökum trúarhópa. Í kosningunum 2015 vann flokkur Suu Kyi meirihluta í báðum deildum. Her Mjanmar hélt þó miklum völdum í landinu og árið 2021 framdi hann valdarán gegn borgaralegri stjórn Aung San Suu Kyi.

Mjanmar er aðili að Leiðtogafundi Austur-Asíuríkja, Samtökum hlutlausra ríkja, ASEAN og BIMSTEC, en er ekki hluti af Breska samveldinu. Landið er auðugt af jaði og eðalsteinum, olíu, jarðgasi og öðrum jarðefnum. Mjanmar býr líka yfir miklum endurnýjanlegum orkulindum; landið á mestu möguleika til framleiðslu sólarorku af öllum ríkjum á Stór-Mekongsvæðinu. Árið 2013 var landsframleiðsla að nafnvirði 56,7 milljarðar dala. Tekjubilið í Mjanmar er með því mesta sem gerist í heiminum, þar sem stórir hlutar efnahagslífsins eru undir stjórn stuðningsmanna herforingjastjórnarinnar. Samkvæmt Vísitölu um þróun lífsgæða árið 2019 var Mjanmar í 147. sæti af 189.

Nafn landsins hefur verið umdeilt, sérstaklega í upphafi 21. aldar, vegna ósættis um pólitískt lögmæti þess að taka Mjanmar fram yfir Búrma.[1][2] Bæði heitin eru dregin af sama orðinu, gamla búrmíska heitinu Myanma eða Myamma, sem vísar til Bamara, stærsta þjóðarbrotsins í landinu. Uppruni heitisins er óviss.[3] Algeng alþýðuskýring er að það sé dregið af Brahma Desha eftir hindúaguðinum Brama.[4]

Árið 1989 ákvað herforingjastjórnin að breyta opinberlega mörgum enskum útgáfum á nöfnum sem mátti rekja til nýlendutímans eða fyrr, þar á meðal nafn landsins sjálfs: Búrma varð Mjanmar. Nafnabreytingin var og er umdeild.[5] Margir stjórnarandstöðuhópar og minnihlutahópar nota heitið Búrma áfram vegna andstöðu við herforingjastjórnina og lögmæti nafnabreytingarinnar.[6]

Skömmu eftir að hún tók við völdum í apríl 2016, sagði Aung San Suu Kyi um nafnabreytinguna: „þið ráðið því, því það er ekkert í stjórnarskrá landsins sem skyldar fólk til að nota eitt heiti umfram annað“. Hún hélt áfram, „ég nota oft Búrma því ég er vön því, en það þýðir ekki að ég krefjist þess að aðrir noti það. Og ég mun leggja mig fram um að segja Mjanmar við og við svo öllum líði vel.“[7]

Opinbert fullt heiti landsins er „lýðveldi bandalags Mjanmar“ (ပြည်ထောင်စုသမ္မတ မြန်မာနိုင်ငံတော်, Pyihtaungsu Thamada Myanma Naingngantaw, [pjìdàʊɴzṵ θàɴməda̰ mjəmà nàɪɴŋàɴdɔ̀]). Lönd sem viðurkenna ekki opinbera heitið notast við „bandalag Búrma“ í staðinn.[8] Á ensku er landið ýmist kallað Burma eða Myanmar. Heitið Burma hefur verið notað í ensku frá því á 18. öld, en nú er algengara að enskumælandi fjölmiðlar notist við Myanmar. Í öðrum málum er misjafnt hvort heitið er notað.

Á fimmtu öld fyrir Krist var stofnað konungsríki í þorpinu Tagaung sem er við efri hluta Irawadi-fljóts, um 160 km norðan núverandi Mandalay. Þar ríktu fimmtíu konungar af sömu ætt þar til Tatarar réðust inn í landið úr norðri og lögðu það undir sig. Þá flúði afkomandi síðasta konungsins suður til Sri Khettara og stofnaði nýtt konungsríki meðal Pyu-ættbálksins. Á svipuðum tíma kom fólk af þjóðflokki Mon-Kmera (annaðhvort kallað Mon eða Talaing (hindí: Telegana)) frá Indlandi og settist að í óshólmum Irawadi. Þetta fólk flutti með sér búddatrú.

Á fyrstu öld fyrir Krist komst konungsríki Pyu undir stjórn Mon. Frændi 27. Pyu-konungsins safnaði saman fólki af Pye ættbálki og leiddi í tólf ára göngu til Pagan, þar sem annað fólk af ættbálki Pyu hafði sest að. Þar varð hin fræga Paganhöfðingjaætt til, en mestur konunga hennar var hinn 42. (Anawrahta) sem var við völd á blómaskeiði ríkisins á 11. öld.

Paganríkið leið undir lok á 13. öld við innrás Mongóla. Eftir innrás Mongóla skiptist ríkið upp í lítil furstadæmi. Höfðingjaætt Ava sameinaði ríkið á ný og ríkti í Ava (nærri núverandi Mandalay) árin 1364-1555. Höfðingjaætt Toungoo ríkti árin 1486-1752. Þekktastur konunga hennar var Bayinnaung sem ríkti árin 1651-1681. Undir hans stjórn varð Búrma að öflugasta og virtasta ríki Suðaustur-Asíu. Árið 1767 kom til styrjaldar við nágrannaríkið Tæland.

Toungoo-ættin missti völd sín aftur til Mon-höfðingjaættarinnar sem endurreist hafði ríki sitt í Pegu. Mon-ættin lagði meðal annars undir sig Arakan (1785) og Manipur og Assam (1819). Mjanmarar háðu þrjár styrjaldir við Breta, 1824-26, 1852 og 1885 en þær enduðu með ósigri Mjanmara og innlimun landsins í breska heimsveldið. Árið 1886 fluttu Bretar síðasta konung Mon-ættarinnar, Thibaw (1878-1885), til Indlands og gerðu Mjanmar að indversku héraði.

Mjanmar fékk eigin stjórnarskrá árið 1937 og var aðskilið frá Indlandi. Fimm árum síðar fóru Bretar brott, skömmu áður en Japanir gerðu innrás í landið. Japanska hernámið stóð í fjögur ár. Bretar hröktu Japani á brott 1945 og leiðtogi Mjanmara, Bogyoke Aung San forseti, hóf baráttu fyrir sjálfstæði landsins. Hann var myrtur skömmu áður en Mjanmar lýsti yfir sjálfstæði.

Hinn 2. maí 1962 stýrði Ne Win hershöfðingi valdatöku hersins til að koma í veg fyrir skiptingu ríksins og settist að völdum. Stjórn hans þjóðnýtti alla mikilvægustu atvinnuvegi og leyfði aðeins einn stjórnmálaflokk. Herforingjastjórn stýrði landinu að meira eða minna leyti frá árinu 1962 þar til árið 2011. Árið 1988 urðu mikil mótmæli gegn herforingjastjórninni sem voru brotin á bak aftur. Herinn gaf að lokum upp völd sín og þingkosningar voru fyrst haldnar árið 2010. Í kosningunum árið 2015 komst lýðræðisflokkur Aung San Suu Kyi til valda en hún hafði setið í stofufangelsi eftir mótmælin 1988.

Frá árinu 2016 hafa hrakningar Róhingja-fólks komist í hámæli og talað hefur verið um að gagnvart því hafi herinn stundað þjóðernishreinsanir á þeim.

Herinn hrifsaði völdin á ný í byrjun árs 2021 en flokkur Aung San Suu Kyi vann stórsigur. Flokkurinn USDP galt afhroð en hann er tengdur hernum. Hófst mótmælaalda gegn valdaráninu og herinn skaut og drap mótmælendur þar á meðal börn.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Irrawaddy-fljót.

Mjanmar er um 680.000 ferkílómetrar að stærð. Landið liggur milli 9. og 29. gráðu norðlægrar breiddar, og 92. og 102. gráðu austlægrar lengdar. Landið á landamæri í norðvestri að Chittagong-umdæmi í Bangladess, og indversku fylkjunum Mizoram, Manipur, Nagalandi og Arunachal Pradesh. Norður- og norðausturlandamæri Mjanmar liggja að sjálfstjórnarhéraðinu Tíbet og Júnnan í Kína. Í suðri og suðaustri á það landamæri að Taílandi og Laos. Í vestri á Mjanmar yfir 1900 km langa strandlengju að Andamanhafi og Bengalflóa.

Í norðri marka Hengduan-fjöll landamærin að Kína. Fjallið Hkakabo Razi í Kachin-fylki er hæsti tindur Mjanmar, í 5.881 metra hæð. Í Mjanmar eru margir fjallgarðar, eins og Rakhine Yoma, Bago Yoma, Shan-hæðir og Tenasserim-hæðir. Allir þessir fjallgarðar liggja í suður frá Himalajafjöllum og afmarka árdali þriggja helstu vatnsfalla Mjanmar, Irrawaddy, Salween og Sittaung. Lengsta áin er Irrawaddy sem rennur 2.170 km út í Martabanflóa. Í dölunum milli fjallgarðanna eru frjósamar sléttur. Meirihluti íbúa Mjanmar býr í árdal Irrawaddy-fljóts, milli Rakhine Yoma og Shan-hæða.

Loftslagsbelti í Mjanmar.

Stór hluti af Mjanmar liggur á milli nyrðri hvarfbaugs og miðbaugs. Það er innan monsúnbeltisins í Asíu. Á strandsvæðunum er úrkoma yfir 5.000 mm á ári. Við árósana er úrkoma um 2.500 mm á ári, meðan ársúrkoma á þurrlendinu í miðju landsins er innan við 1.000 mm. Norðurhéruð Mjanmar eru svölustu landsvæðin þar sem meðalhiti er um 21 ˚C. Við strendurnar er meðalhiti 32 ˚C.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Fylki og héruð Mjanmar.

Mjanmar skiptist í sjö fylki (ပြည်နယ်) og sjö héruð (တိုင်းဒေသကြီး), sem áður voru kölluð umdæmi. Héruðin eru svæði þar sem Bamarar, stærsta þjóðarbrot landsins, eru ríkjandi, en fylkin svæði þar sem önnur þjóðarbrot eru í meirihluta. Fylkin og héruðin skiptast í umdæmi sem aftur skiptast í bæjarfélög, hverfi og þorp.

Taflan miðast við skiptinguna eins og hún var árið 2001:

Nr. Fylki/hérað Umdæmi Bæjarfélög Borgir/
bæir
Hverfi Þorps-
hópar
Þorp
1 Kachin-fylki 4 18 20 116 606 2630
2 Kayah-fylki 2 7 7 29 79 624
3 Kayin-fylki 3 7 10 46 376 2092
4 Chin-fylki 2 9 9 29 475 1355
5 Sagaing-hérað 8 37 37 171 1769 6095
6 Tanintharyi-hérað 3 10 10 63 265 1255
7 Bago-hérað 4 28 33 246 1424 6498
8 Magway-hérað 5 25 26 160 1543 4774
9 Mandalay-hérað 7 31 29 259 1611 5472
10 Mon-fylki 2 10 11 69 381 1199
11 Rakhine-fylki 4 17 17 120 1041 3871
12 Jangúnhérað 4 45 20 685 634 2119
13 Shan-fylki 11 54 54 336 1626 15513
14 Ayeyarwady-hérað 6 26 29 219 1912 11651
Alls 63 324 312 2548 13742 65148

Rangoon (Yangon) var höfuðstaður landsins þar til 2005, en í dag er það borgin Naypyidaw. Rangoon er stærsta borgin með um 5 milljónir íbúa. Aðrar helstu borgir eru Mandalay, Mawlamyine og Bago. Landinu er skipt niður í sjö fylki og sjö héruð. Fylkin fylgja nokkurn veginn þjóðernislínum í landinu. Landið er eitt það fátækasta í heiminum og starfa 2/3 vinnuafls í landbúnaði. Helstu þjóðernishópar eru: Búrmíar, Shan, Karen og Rakhine.

Theravada-búddismi er helstu trúarbrögðin, sem um 90% mannfjöldans aðhyllast. Minnihlutar múslima og kristinna koma þar á eftir.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „What's in a Name: Burma or Myanmar?“. United States Institute of Peace (enska). Sótt 27. apríl 2020.
  2. „Should it be Burma or Myanmar?“ (bresk enska). 26. september 2007. Sótt 27. apríl 2020.
  3. Hall, DGE (1960). „Pre-Pagan Burma“. Burma (3. útgáfa). bls. 13.
  4. Houtman, Gustaaf (1999). Mental Culture in Burmese Crisis Politics: Aung San Suu Kyi and the National League for Democracy. ILCAA. bls. 352. ISBN 9784872977486.
  5. Houtman, Gustaaf (1999). Mental culture in Burmese crisis politics. ILCAA Study of Languages and Cultures of Asia and Africa Monograph Series No. 33. Institute for the Study of Languages and Cultures of Asia and Africa. bls. 43–54. ISBN 978-4-87297-748-6.
  6. Steinberg, David I. (2002). Burma: The State of Myanmar. Georgetown University Press. bls. xi. ISBN 978-1-58901-285-1.
  7. South China Morning Post, "What's in a name? Not much, according to Aung San Suu Kyi, who tells diplomats they can use Myanmar or Burma", 23. apríl 2016
  8. „NCGUB“. National Coalition Government of the Union of Burma. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. september 2015. Sótt 3. maí 2012.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: http://is.wikipedia.org/wiki/B%C3%BArma

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy