Content-Length: 76110 | pFad | http://is.wikipedia.org/wiki/Fr%C3%BAarkirkjan_%C3%AD_Halle

Frúarkirkjan í Halle - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Frúarkirkjan í Halle

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Frúarkirkjan séð að austan. Turnbrúin sést vel á myndinni.

Frúarkirkjan í Halle er fjögurra turna kirkja í miðborg þýsku borgarinnar Halle. Hún var reist á 16. öld og hófust siðaskiptin í Halle í henni. Hún er óvenjuleg að því leyti að í kirkjunni er engin kór, heldur tvær turnhliðar, ein að framan og ein að aftan. Lík Lúthers var geymt til skamms tíma í þessari kirkju 1546. Á 18. öld spiluðu Bach-feðgarnir á orgel kirkjunnar.

Byggingarsaga

[breyta | breyta frumkóða]
Albrecht frá Brandenborg lét reisa kirkjuna.

Snemma á 16. öld varð Albrecht von Brandenburg ríkjandi biskup í borginni. Honum fannst að Halle ætti að skarta glæsibyggingum og því afréð hann að reisa Frúarkirkjuna. Til þess urðu tvær aðrar kirkjur, sem stóðu hlið við hlið, að víkja, þ.e. Maríukirkjan og Geirþrúðarkirkjan. Gömlu kirkjurnar voru farnar að taka við lúterstrú og því þótti biskupi ráð að fjarlægja þær fyrir nýja glæsikirkju. Aðeins turnar gömlu kirknanna fengu að standa. Frúarkirkjan var síðan reist á grunni þessara tveggja kirkna 1529-1554. Gömlu turnarnir eru sem sé turnar núverandi kirkju. Sökum þessa fékk nýja kirkjan engan kór. Skipið var reist milli gömlu turnanna og því eru framturnarnir allt öðruvísi en afturturnarnir. Afturturnarnir voru tengdir með brú. Hún gerði vaktmanninum þar kleift að fara turna á milli til að vara borgarbúa við eldsvoða og aðra óáran. Kirkjan sjálf er 88 metra löng.

Saga kirkjunnar

[breyta | breyta frumkóða]
Skírnarskráning Georgs Friedrichs Händel í kirkjuþjónustubók Frúarkirkjunnar árið 1685.

Þrátt fyrir að vera höfuðkirkja biskupsins í Halle, fór fljótlega að bera á nýja siðnum í predikunum prestanna. Fljótlega eftir að áhrifa Marteins Lúthers fór að gæta í Halle fór Justus Jonas að predika lúterstrú og var honum vel tekið af borgarbúum. Kirkjan var þá enn í byggingu og varð söfnuðurinn að sitja að hluta til undir berum himni. 1541 kom það í hlut Jonasar að tilkynna formlega viðtöku lúterstrúar í borginni. Albrecht biskup, sem þá var orðinn nokkuð fullorðinn, lét þar við sitja og yfirgaf Halle fyrir fullt og allt. Reyndar lét hann taka alla dýrgripi og listaverk úr kirkjunni og hafði hann það á brott með sér. Lúther sjálfur predikaði í kirkjunni þrisvar eftir þetta, árin 1545 og 1546. Á síðarnefna árinu lést Marteinn Lúther í borginni Eisleben. Lík hans var flutt til Wittenberg, en meðan líkfylgdin kom við í Halle var lík hans geymt í frúarkirkjunni. 24. febrúar 1685 var Georg Friedrich Händel skírður í þessari kirkju, en hann er þekktasta barn borgarinnar. Árið 2006 var lítið Lúthersafn opnað í kirkjunni. Þar er m.a. að sjá dauðagrímu hans og afþrykki af höndum hans. Á brúnni milli framturnanna eru haldnir lúðratónleikar í dag, sérstaklega um jólin.

Orgelið í kirkjunni var smíðað 1663-64 og er meðal elstu orgelum í Mið-Þýskalandi. Það kostaði á sínum tíma 200 ríkisdali. Meðan Georg Friedrich Händel var enn kornungur fékk hann að æfa sig á orgelinu. 1746-1764 var Wilhelm Friedemann Bach organisti í kirkjunni, en hann var sonur meistarans Johanns Sebastians Bach. Bach yngri er oft kallaður Hallescher Bach til aðgreiningar frá föður sínum. Reyndar fékk Bach eldri einnig að spila á orgel í kirkjunni, en það var nýrra orgel frá 1716. Það orgel var viðgert 1984 og er í dag með 4.170 pípur. Sú stærsta er fimm metra há, en sú minnsta aðeins sex millimetra.

Mýmörg málverk hanga í kirkjunni, aðallega frá 15. og 16. öld. Altaristaflan er frá 1529. Hún sýnir Maríu mey með ungbarn, sitjandi á hálfmána. Sitthvoru megin eru hliðartöflur sem hægt er að loka. Altarið sjálft er fengið frá annarri hvorri fyrirrennarakirkjunni og er frá 1430. Predikunarstóllinn er mikilfenglegur. Hann er úr sandsteini og var smíðaður 1541. Þak hans er frá 1596.

Fyrirmynd greinarinnar var „Marktkirche Unser Lieben Frauen“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júlí 2010.









ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: http://is.wikipedia.org/wiki/Fr%C3%BAarkirkjan_%C3%AD_Halle

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy