Content-Length: 141588 | pFad | http://is.wikipedia.org/wiki/Franz_Beckenbauer

Franz Beckenbauer - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Franz Beckenbauer

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Franz Beckenbauer

Franz Beckenbauer fæddur (11. september 1945 – 7. janúar 2024) var þýskur knattspyrnumaður, forseti Bayern München til margra ára og einn af forsetum þýska knattspyrnusambandsins. Sem leikmaður var hann kallaður Keisarinn (Der Kaiser) og var meðal virtustu knattspurnumanna heims. Beckenbauer er einn fárra manna í heiminum sem hefur orðið heimsmeistari bæði sem leikmaður (1974) og sem þjálfari (1990).

Leik- og starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]
Beckenbauer á HM í Þýskalandi 1974

Franz Anton Beckenbauer byrjaði snemma að æfa og leika með félaginu SC 1906 München. Þegar hann var 13 ára ráðgerði hann að skipta yfir í 1860 München, sem þá var aðalknattspyrnufélagið í borginni. En þegar hann lék eitt sinn á móti félaginu, lenti hann saman við einn leikmanna 1860 München, sem gaf honum einn utanundir. Beckenbauer sármóðgaðist við það og gekk þess í stað í raðir Bayern München. Með því félagi lék hann unglingsárin sín og fékk í fyrsta sinn að leika með aðalliðinu 1964 (sem þá lék í 2. deild) gegn FC St. Pauli frá Hamborg. Leikurinn endaði 4-0 fyrir bæjara og skoraði Beckenbauer eitt markanna. Sama ár lék hann sinn fyrsta unglingalandsleik. Beckenbauer lék með Bayern München allar götur til 1977 og var yfirleitt miðjumaður. Á þeim tíma varð hann fjórum sinnum þýskur meistari, en það var jafnframt í fyrsta sinn sem Bayern München varð meistari síðan 1932. 1965 lék Beckenbauer sinn fyrsta A-landsleik gegn Hollandi (1-1), er hann kom inná sem varamaður fyrir Günter Netzer. Með landsliðinu tók hann þátt í nokkrum stórmótum. Hápunkturinn á ferlinum var án efa 1974, en þá varð hann heimsmeistari í HM í Þýskalandi. Úrslitaleikurinn gegn Hollandi vannst 2-1. Beckenbauer lék þá ekki lengur sem miðjumaður, heldur hreyfanlegur varnarmaður (Libero). Alls lék Beckenbauer 103 landsleiki og skoraði í þeim 14 mörk. 1977 flutti Beckenbauer til Bandaríkjanna og lék með New York Cosmos. Þetta batt enda á leikferil hans með landsliðinu, en á þeim tíma var hann leikjahæsti knattspyrnumaður Þýskalands í landsliðinu. Með endurkomu í þýska fótboltann lék Beckenbauer með HSV í Hamborg (1980-82). Með því liði varð hann þýskur meistari í fimmta sinn. Leikferilinn endaði hann svo með New York Cosmos 1983 og lagði svo skóna á hilluna.

Ári eftir að Beckenbauer lagði skóna á hilluna tók hann að sér að þjálfa þýska landsliðið. Fyrsti leikurinn (gegn Argentínu) tapaðist 1:3 og var það í fyrsta sinn sem nýr þjálfari landsliðsins tapar sínum fyrsta leik. Eftir sem áður náði Beckenbauer góðum árangri með liðið. Á HM 1986 í Mexíkó komst liðið í úrslit, en töpuðu þar fyrir Argentínu 2-3. Á HM 1990 komst liðið aftur í úrslit og náði að þessu sinni að sigra Holland 2-1. Þar með varð Beckenbauer annar knattspyrnumaður heims að verða heimsmeistari bæði sem leikmaður og sem þjálfari. Áður hafði Mario Zagallo náð þessu afreki með landsliði Brasilíu. Hafa ber í huga að Beckenbauer hefur aldrei tekið þjálfarapróf og var strangt til tekið ekki með starfsheitið ‘þjálfari’. En eftir að liðið varð heimsmeistari léði þýska knattspyrnusambandið honum heiðursþjálfaratitil. Eftir keppnina hætti Beckenbauer með þýska landsliðið og fór til Frakklands. Þar þjálfaði hann Olympique Marseille í eitt keppnistímabil. Með því liði náði hann að komast í úrslitaleik Evrópukeppninnar, en tapaði fyrir Rauðu stjörnunni frá Belgrad í vítaspyrnukeppni.

Knattspyrnufrömuður

[breyta | breyta frumkóða]

1991 varð Beckenbauer varaforseti Bayern München og aðalforseti 1994. Þetta embætti hélt hann til 2009, er hann settist í helgan stein. Tvisvar á þessum árum tók hann við þjálfarastöðu Bayern München eftir að þjálfari liðsins hafði verið rekinn. Í fyrra sinnið tók hann við af Erich Ribbeck 1994 og náði þá að verða þýskur meistari í fyrsta og eina sinn sem þjálfari. Í seinna sinn tók hann við af Otto Rehhagel 1996. Samfara starfi sínu fyrir Bayern München hefur Beckenbauer einnig verið varaforseti þýska knattspyrnusambandsins. Árið 2006 var Beckenbauer formaður knattspyrnunefndarinnar sem sótti um HM í Þýskalandi 2006. Þegar Þýskaland varð fyrir valinu, varð Beckenbauer auk þess formaður skipulagsnefndarinnar. Árið 2007 tilkynnti Beckenbauer að hann myndi bjóða sig fram sem forseti UEFA, en hætti við á síðustu stundu, þar sem hann vildi ekki bjóða sig fram gegn Svíanum Lennart Johannsson. Johannsson tapaði svo í formannsslagnum gegn Frakkanum Michel Platini. Franz Beckenbauer settist í helgan stein árið 2009 er Uli Hoeness tók við af honum sem forseti Bayern München.

Tölfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Félög Beckenbauers

[breyta | breyta frumkóða]
Félag sem leikmaður Ár Leikir Mörk Meistaratitlar
Bayern München 1964-1977 427 60 4
New York Cosmos 1977-1980 105 19 3
Hamburger SV 1980-1981 28 0 1
New York Cosmos 1983 27 2 0
Félag sem þjálfari Ár
Þýska landsliðið 1984-1990
Olympique Marseille 1990-1991
Bayern München 1994
Bayern München 1996
Mót sem leikmaður Staður Árangur Ath.
HM 1966 England 2. sæti Skoraði 4 mörk
HM 1970 Mexíkó 3. sæti
EM 1972 Belgía Meistari Fyrirliði
HM 1974 Þýskaland Meistari
EM 1976 Júgóslavía 2. sæti Fyrirliði
Mót sem þjálfari Staður Árangur
HM 1986 Mexíkó 2. sæti
EM 1988 Þýskaland 8. liða úrslit
HM 1990 Ítalía Meistari

Annað markvert

[breyta | breyta frumkóða]
  • Franz Beckenbauer var þríkvæntur. Fyrstu tvö hjónaböndin enduðu í skilnaði, enda var Beckenbauer oft í tygjum við aðrar konur. Hann á samtals fimm börn með fjórum konum.
  • Beckenbauer var fjórum sinnum kjörinn knattspyrnumaður Þýskalands: 1966, 1968, 1974 og 1976.
  • Beckenbauer skoraði alls fjögur sjálfsmörk í þýsku bundesligunni og er enn þriðji sjálfsmarkahæsti leikmaðurinn í þeirri deild.








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: http://is.wikipedia.org/wiki/Franz_Beckenbauer

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy