Content-Length: 128575 | pFad | http://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%A1karl

Hákarl - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Hákarl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hákarl

Ástand stofns
Lítið vitað
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki
Fylking: Seildýr
Flokkur: Brjóskfiskar
Ættbálkur: Squaliformes
Ætt: Somniosidae
Ættkvísl: Somniosus
Tegund:
S. microcephalus

Tvínefni
Somniosus microcephalus
Bloch & Schneider, 1801
Úrbreiðsla Hákarls
Úrbreiðsla Hákarls

Hákarl (fræðiheiti:Somniosus microcephalus) er stór háfiskur, grannvaxinn, sívalur, brjóskfiskur með góða heyrn.

Útlit og lifnaðarhættir

[breyta | breyta frumkóða]

Hákarlinn hefur hvassar tennur í skoltum sínum í víðum kjafti. Augu og tálknop hákarls eru smá. Hákarlinn getur náð allt að 7 metra lengd en þó er algeng lengd hans um 2-5 metrar. Hákarlar lifa á blönduðu fæði. Lítið er vitað um kynæxlun hákarla en þó er vitað til þess að þeir gjóti ungviði sínu sem er u.þ.b. 40 cm. við got og afkvæmin geta verið allt að 10 talsins. Talið er að hann geti náð allt að 150 ára aldri og verði mjög seint kynþroska. Hákarlinn vex mjög hægt og hafa einhverjar rannsóknir leitt í ljós að fullorðin dýr vaxi ekki nema um 1 cm. á ári. Vitað er um tilfelli þess að hákarl sem merktur hafði verið og náð aftur eftir 16 ár, hafði vaxið frá 262 cm. til 270 cm. á þessum 16 árum.

Allt sitt líf dvelur hákarl í köldum heimskautasjó (2-7°C) á miklu dýpi. Hann er eina tegund hákarla í heiminum sem vitað er um að það geri. Á sumrin heldur hákarlinn sig á 180-730 metra dýpi en færir sig nær yfirborðinu á veturna í þeirri von að ná sér í seli. Hákarlinn finnst allt frá Svalbarða, Bjarnareyju og Hvítahafi í norðri, og suður með ströndum Noregs inn í Norðursjó. Hann er einnig að finna við norðanverðar Bretlandseyjar, Færeyjar og Ísland.[1]

Saga og nýting

[breyta | breyta frumkóða]

Erfitt er að finna öruggar heimildir um það hvenær Íslendingar hafi byrjað að veiða hákarl en talið er að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi Íslendingar einungis nýtt þann hákarl sem rak dauðan á fjörur. Veiðarnar virðast þó vera orðnar töluvert miklar á 14. öld en þá var hákarlinn orðinn hluti af matarvenjum Íslendinga. Um hákarl má lesa meðal annars í Snorra Eddu, Grágás og Jónsbók, þ.e. hákarlsreka, og um verkaðan hákarl er skrifað í skrá yfir eignir Hóladómkirkju frá 1374. Veiðarnar færðust svo í vöxt á næstu öldum og tíðkaðist að menn færu á opnum bátum í hákarlalegur. Í slíkar sjóferðir var yfirleitt farið á veturna og gátu þær tekið allt frá 2 dögum, upp í 2 vikur en allt réðst það af aflabrögðum og veðráttu. Ástæða þess að farið var í þessar ferðir að vetri til má rekja til þess að menn þurftu að sinna heyskap og öðrum bústörfum á sumrin til þess að halda lífi í búfénu á veturna. Hákarl var veiddur með Lagnvaði, keflvaði og venjulegum vað og svo hákarlalínu.[2]

Hákarlaveiðar Norðlendinga og Austfirðinga

Hákarlaveiðar á 17. öld voru fremur litlar hér á landi og þá aðallega fyrir tilstilli Dana sem stjórnuðu versluninni, þar sem þeir lækkuðu verð á íslenskum útflutningsvörum en seldu sinn varning á okurverði til Íslendinga. Þessi einokun leiddi til fjárskorts og voru því veiðarfæri landsmanna léleg og framfarir í öllum greinum mjög litlar. Í kringum 1800 fer þó einokunarverslun Dana að hnigna og Íslendingar fóru að stunda hákarlaveiðar í auknari mæli enda var eftirspurn eftir lýsi orðin mikil í borgum Evrópu. Þetta leiddi til þess að Íslendingar fóru að gera út skip sem einungis voru ætluð til hákarlaveiða en áður fyrr hafði hákarlinn aðeins verið veiddur sem viðbót við þorskaflann. Það voru þó breytingar handan við hornið á aðbúnaði manna úti á sjó því þegar að aukin eftirspurn eftir lýsi varð í Evrópu fóru menn að gera út til hákarlaveiða á þilskipum.[3]

Hákarlaveiðar á þilskipum hófust fyrir alvöru í kringum 4. áratug 19. aldar og voru Vestfirðingar manna fyrstir til þess að gera út til hákarlaveiða á þilskipum. Á þessum tíma hafði verð á lýsi hækkað hlutfallslega mikið gagnvart þorski. Þilskipum á Vestfjörðum fjölgaði stöðugt á þessum árum og var svo komið að þorskveiðar virtust hafa verið aukageta skipverja. Þilskipaútgerð Norðlendinga byrjaði þó öllu síðar en fyrir vestan. Þilskipaútgerð Norðlendinga var í höndum bænda og stunduðu þau skip nær eingöngu hákarlaveiðar.[4][5]

Mikil eftirspurn var eftir lýsi í borgum Evrópu allt fram til 1900 en þá fór hún að minnka verulega vegna þess að þá hófu menn að nota olíu til þess að lýsa upp borgirnar í stað lýsis. En eins og sést á myndinni hér að ofan var mikið um að vera þegar að veiðarnar stóðu hvað hæst, en þá veiddu menn í norðlendingafjórðungi það mikinn hákarl að lifrin úr þeim náði í rúmlega 12.000 tunnur. Hnignun veiðanna var þó mjög hröð. Það er enn veitt nokkuð af hákarli í dag en sá hákarl sem veiðist er til að mynda kæstur og borin fram á þorrablótum. Einnig hefur framleiðsla hákarlalýsis til manneldis farið vaxandi að undanförnu.

Hnignun hákarlaveiða

Veiðar í dag

[breyta | breyta frumkóða]

Í dag veiða menn enn hákarl en markmið veiðanna eru allt önnur en þau voru fyrir 150 árum síðan. Enn eru til menn sem fara til hákarlaveiða hér við land en það gera þeir nánast eingöngu til þess að þeir og aðrir geti notið þess að borða hann á Þorranum en einnig hefur framleiðsla á hákarlalýsi til manneldis farið vaxandi. Ætla má að hlutfallið af veiddum hákarli hér við land væri ef til vill enn lægra ef hann veiddist ekki sem meðafli í botnvörpur stærri skipanna en það er þó eitthvað sem erfitt er að koma fyrir.[6]

Veiðar Íslendinga frá 1950-2010, Heimild: Hagstofan

Matreiðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Hákarlinn hefur ekkert þvagkerfi og þegar að hann er drepinn tekur þvagið að brotna niður í eitt af myndunarefnum ammoníaks. Það flæðir um skrokk dýrsins og styrkur þess getur verið svo mikill að ef einhvern neytir kjötsins getur viðkomandi fengið eitrun eða jafnvel dáið. Því er hákarlinn látinn gerjast í moldar- eða malargryfju í 1-3 mánuði áður en að hann er hengdur (svokölluð kæsing) upp til þurrkunar en þetta er gert til þess að losna við eitrunaráhrif ammoníaksins.[7] Fólki þykir þessi „eldunarmáti“ örugglega ekkert ýkja lystugur og að leggja sér til munns gerjaðan hákarl virðist ekkert mjög spennandi.[heimild vantar] Til eru þó tvær leiðir til þess að borða hákarlinn ferskar, en þær felast í því að blóðga skepnuna um leið og hún veiðist og hún síðan kæld. Blóðgunin veldur því að þvagefnaríkt blóð rennur úr dýrinu og minni líkur eru á því að finna þetta svokallaða ammoníak bragð finnist. Hin leiðin er sú að dýrið er blóðgað, skrápurinn og dökka kjötið undir því er fjarlægt. Kjötið er svo skorið í bita, það svo þakið með hveiti og kornmjöli áður en það er sett í kæli í tvo sólarhringa en með þessu móti er hægt að borða það nokkuð ferskt.[8]

Magaskrúð hákarlsins

[breyta | breyta frumkóða]

Hákarlinn er mjög gráðugur. Árni Friðriksson, segir frá því Margt býr í sjónum, að í einum einasta hákarli sem veiddist einu sinni við norðurströnd Íslands, fannst hvorki meira né minna en 14 þorskar og heill selur á stærð við fullorðið naut. Hvað sem líður öllum ýkjum, þá er hákarlinn mjög þekktur fyrir græðgi sína. Hákarlar við Íslandsstrendur hafa t.d. verið staðnir að því að gleypa kóralla, kolkrabba, sæbjúgu, sæsólir, fugla og auk þess hrútshaus, hreindýrshaus, mannslík, kettlinga og hvolpa, eða með öðrum orðum allt, sem á festir og náð verður til, hvort sem það eru dýr sjávarins, eða lík og leifar landdýra, sem í sjónum lenda.[9]

Gælunöfn og feluorð

[breyta | breyta frumkóða]

Hákarl hefur verið nefndur ýmsum nöfnum á íslensku, bæði gælunöfnum og feluorðum. Meðal þeirra eru: axskeri, blágot, blápískur, brettingur, deli, got, grágot, gráni, hafkerling, háskerðingur, hvolpur, raddali, rauðgot, skauli, skerill, skufsi.[10]

Hákarl hefur einnig gengið undir nöfnum eins og: bauni, háki, háksi, láki og sá grái. Einnig fóru nafngiftir hákarls eftir stærð hans og útliti. Deli var haft um stutta digra hákarla, dusi um stóran hákarl, gotungur um feitan hákarl, lopi um miðlungsstóran, níðingur um hákarl sem var styttri en fimm álnir, hundur, raddali, skauli og snókur um lítinn hákarl og ælingi var haft um hákarl sem var á mörkum þess að vera talinn hirðandi

Tilvitnanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jón Már Halldórsson. (2003). Hvað er vitað um grænlandshákarlinn? Sótt 13. október 2012 af http://www.visindavefur.is/svar.php?id=3036
  2. Jón Þ. Þór. (2002). Sjósókn og Sjávarfang, Saga Sjávarútvegs á Íslandi: Árabáta- og Skútuöld, I. Bindi. Akureyri: Bókaútgáfan Hólar
  3. Jóhann Tómasson. (1975). Þróun hákarlaútgerðar við Norðurland. Í Gísli Sigurðsson, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson og Sigurjón Sigtryggson (ritstjórar), Siglfirðingabók: Ársrit Siglufjarðar (bls. 47-70). Siglufjörður: Siglufjarðarprentsmiðja h.f.
  4. Jón Þ. Þór. (2002). Sjósókn og Sjávarfang, Saga Sjávarútvegs á Íslandi: Árabáta- og Skútuöld, I. Bindi. Akureyri: Bókaútgáfan Hólar
  5. Jón Þ. Þór. (1981). Hákarlaveiðar Eyfirðinga á síðari hluta 19. aldar. Í Jónas Blöndal og Már Elíasson (ritstjórar), Ægir: 8 tölublað (418-430). Reykjavík: Ísafoldar prentsmiðja hf.
  6. Hagstofa Íslands. (2012.). Afli eftir veiðarfærum og fisktegundum. Sótt 21. nóvember 2012 af http://hagstofan.is/?PageID=2596&src=/temp/Dialog/varval.asp?ma=SJA09013%26ti=Afli+eftir+vei%F0arf%E6rum+og+fisktegundum+1992%2D2011%26path=../Database/sjavarutvegur/af3Skip/%26lang=3%26units=Tonn
  7. Jón Már Halldórsson. (2003). Hvað er vitað um grænlandshákarlinn? Sótt 13. október 2012 af http://www.visindavefur.is/svar.php?id=3036
  8. Jón Már Halldórsson. „Hákarl sem veiðist við Ísland er sagður vera eitraður sé hann etinn ferskur, en erlendis borða menn hákarl ferskan. Hvernig stendur á þessu?“. Vísindavefurinn. Sótt 9. september 2023.
  9. Morgunblaðið 1965
  10. „Orðabók Gunnars Jónssonar - Hákarl. Sótt 11. febrúar 2008.
  • Sjávarnytjar við Ísland, Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson, Ólafur Karvel Pálmason. Mál og menning, Reykjavík, 1998.
  • Kynning á íslenskum sjávarútvegi: Ekkert slor, í Háskólanum á Akureyri 2000
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: http://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%A1karl

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy