Luigi Di Maio
Luigi Di Maio | |
---|---|
Utanríkisráðherra Ítalíu | |
Í embætti 5. september 2019 – 22. október 2022 | |
Atvinnuráðherra og varaforsætisráðherra Ítalíu | |
Í embætti 1. júlí 2018 – 5. september 2019 | |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 6. júlí 1986 Avellino, Ítalíu |
Þjóðerni | Ítalskur |
Stjórnmálaflokkur | Fimmstjörnuhreyfingin (2009–2022) |
Undirskrift |
Luigi Di Maio (f. 6. júlí 1986 í Avellino) er ítalskur stjórnmálamaður og fyrrum leiðtogi Fimmstjörnuhreyfingarinnar á Ítalíu. Hann er jafnframt fyrrverandi utanríkisráðherra Ítalíu og er yngsti maðurinn sem hefur gegnt því embætti.
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Di Maio er elstur þriggja bræðra. Móðir hans kennir ítölsku og latínu en faðir er kaupsýslumaður í byggingariðnaði. Hann hóf nám í verkfræði en skipti frá því til lögfræði en hvarf frá því án þess að ljúka prófi. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður, vefhönnuður og sem gæslumaður á íþróttaleikvangi.
Eftir kosningasigur Fimmstjörnuhreyfingarinnar árið 2018 stofnaði Fimmstjörnuhreyfingin ríkisstjórn ásamt Norðursambandinu með Giuseppe Conte sem forsætisráðherra. Di Maio var atvinnuráðherra, ráðherra fjárhagsþróunar og varaforsætisráðherra í stjórninni og var jafnan talinn hinn eiginlegi valdsmaður hennar ásamt Matteo Salvini, formanni Norðursambandsins.
Þann 30. september 2018 kynnti Di Maio fyrstu fjárlög ríkisstjórnarinnar og lýsti því yfir að þau myndu „útrýma fátækt“ á Ítalíu.[1] Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafnaði hins vegar þessum fjárlögum þann 23. september með þeim röksemdum að fjárlögin færu á svig við viðmiðin sem sambandið setur aðildarríkjum sínum. Þetta var í fyrsta sinn sem framkvæmdastjórnin skipaði aðildarríki að endurskoða fjárlagafrumvarp sitt.[2] Di Maio sagði viðbrögð Evrópusambandsins ekki koma á óvart því fjárlögin væru „fyrstu fjárlög Ítalíu sem hafi verið skrifuð í Róm, en ekki í Brussel.“[3] Ríkisstjórnin neyddist síðar til að gera breytingar á fjárlögunum og draga úr fjárhallanum til þess að koma í veg að þurfa að sæta sektargreiðslum af hálfu Evrópusambandsins.[4]
Þann 8. ágúst lýsti Salvini því yfir að hann hygðist slíta ríkisstjórnarsamstarfi Norðursambandsins við Fimmstjörnuhreyfinguna.[5] Í kjölfarið kusu meðlimir Fimmstjörnuhreyfingarinnar að stofna nýja ríkisstjórn í samstarfi við ítalska Lýðræðisflokkin. Di Maio tók við embætti utanríkisráðherra í nýju ríkisstjórninni.[6]
Di Maio sagði sig úr Fimmstjörnuhreyfingunni í júní 2022 vegna ágreinings við Giuseppe Conte um vopnasendingar til Úkraínu.[7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Jónas Atli Gunnarsson (30. september 2018). „„Fátæktinni útrýmt" með nýjum fjárlögum“. Kjarninn. Sótt 1. október 2018.
- ↑ „ESB gerir ítölsku stjórnina afturreka“. RÚV. 23. október 2018. Sótt 23. október 2018.
- ↑ „ESB hafnar fjárlögum Ítala“. mbl.is. 23. október 2018. Sótt 23. október 2018.
- ↑ „Ítalir lúffa í fjárlagadeilu sinni við ESB“. Vísir. 12. desember 2018. Sótt 12. desember 2018.
- ↑ „Ríkisstjórn Ítalíu fallin“. RÚV. 8. ágúst 2019. Sótt 27. ágúst 2019.
- ↑ „Di Maio yngsti utanríkisráðherra Ítalíu“. RÚV. 4. september 2019. Sótt 4. september 2019.
- ↑ Ellen Geirsdóttir Håkansson (15. júlí 2022). „Ólga á Ítalíu“. Vísir. Sótt 23. október 2022.