Content-Length: 330617 | pFad | http://is.wikipedia.org/wiki/Serb%C3%ADa

Serbía - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Serbía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lýðveldið Serbía
Република Србија
Republika Srbija
Fáni Serbíu Skjaldarmerki Serbíu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Bože Pravde
Staðsetning Serbíu
Höfuðborg Belgrad
Opinbert tungumál Serbneska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Aleksandar Vučić (Александар Вучић)
Forsætisráðherra Miloš Vučević (Милош Вучевић)
Sjálfstæði
 • frá Tyrkjaveldi 13. júlí 1878 
 • Konungdæmi Serba, Króata og Slóvena 1. desember 1918 
 • Upplausn Serbíu og Svartfjallalands 5. júní 2006 
Flatarmál
 • Samtals
111. sæti
88.499 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (2022)
 • Þéttleiki byggðar
107. sæti
6.647.003
85,8/km²
VLF (KMJ) áætl. 2023
 • Samtals 164,8 millj. dala (80. sæti)
 • Á mann 23.534 dalir (80. sæti)
VÞL (2021) 0.802 (63. sæti)
Gjaldmiðill dínar
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .rs
Landsnúmer +381

Serbía (serbneska: Србија / Srbija), opinbert heiti Lýðveldið Serbía (serbneska: Република Србија / Republika Srbija) er landlukt land á Balkanskaga á mótum Mið- og Suðaustur-Evrópu. Serbía á landamæri að Ungverjalandi í norðri, Rúmeníu og Búlgaríu í austri, Makedóníu, Svartfjallalandi, Bosníu og Hersegóvínu og Króatíu í vestri og gerir tilkall til landamæra að Albaníu þar eð Serbía viðurkennir ekki landsréttindi Kósóvó í suðri. Íbúar Serbíu eru um 7 milljónir. Höfuðborgin, Belgrad, er með elstu og stærstu borgum Suðaustur-Evrópu.

Eftir að Slavar fluttust til Balkanskagans á 6. öld stofnuðu Serbar nokkur ríki þar á ármiðöldum. Róm og Austrómverska ríkið viðurkenndu konungsríki Serba árið 1217. Það náði hátindi sínum með skammlífu Keisaraveldi Serba árið 1346. Um miðja 16. öld hafði Tyrkjaveldi hernumið allt það landsvæði sem í dag er Serbía. Serbía var vettvangur átaka milli Tyrkjaveldis og Habsborgaraveldisins sem skömmu síðar hóf að þenjast út til suðurs. Snemma á 19. öld var Furstadæmið Serbía stofnað í Serbnesku byltingunni og hóf röð landvinninga. Eftir mikið mannfall í fyrri heimsstyrjöld og sameiningu við Vojvodina sem áður tilheyrði Habsborgurum, tók Serbía þátt í stofnun Júgóslavíu ásamt öðrum suðurslavneskum þjóðum á Balkanskaga. Júgóslavía leystist upp á 10. áratug 20. aldar vegna borgarastyrjaldarinnar í Júgóslavíu. Eftir að styrjöldinni lauk voru aðeins Serbía og Svartfjallaland eftir í laustengdu ríkjasambandi sem leystist upp árið 2006. Syðsta hérað Serbíu, Kosóvó, sem hafði verið undir stjórn Sameinuðu þjóðanna frá lokum Kosóvóstríðsins 1998-1999, lýsti einhliða yfir sjálfstæði árið 2008 og síðan hafa mörg ríki viðurkennt sjálfstæði þess. Serbía gerir enn tilkall til héraðsins.

Serbía er aðili að fjölda alþjóðasamtaka eins og Sameinuðu þjóðunum, Evrópuráðinu, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Samstarfi í þágu friðar, Efnahagssamstarfi Svartahafsríkja og Fríverslunarsamtökum Mið-Evrópuríkja. Serbía sótti formlega um aðild að Evrópusambandinu 2012 og á í aðildarviðræðum við Alþjóðaviðskiptastofnunina. Serbía er miðtekjuland sem situr ofarlega á ýmsum vísitölulistum eins og vísitölu um þróun lífsgæða, vísitölu um samfélagsþróun og friðarvísitölunni. Stærsti geiri efnahagslífsins er þjónustugeirinn. Þar á eftir koma iðnaður og landbúnaður.

Uppruni og merking heitisins „Serbía“ eru nokkuð óljós. Heimildir minnast á Serba (Srbi / Срби) og Sorba í austurhluta Þýskalands (hásorbíska: Serbja; lágsorbíska: Serby), en skrifa heitið á ýmsan hátt, eins og Cervetiis eða Servetiis, gentis (S)urbiorum, Suurbi, Sorabi, Soraborum, Sorabos, Surpe o.s.frv.[1][2] Þessi heiti vísa til bæði Serba og Sorba á þeim svæðum þar sem vitað er að þeir bjuggu, en svipuð heiti koma líka fyrir annars staðar (til dæmis í Sarmatíu í Kákasus).

Helstu kenningar um uppruna þjóðarheitisins eru tvær: Annars vegar að orðið *Sŕbъ (ft. *Sŕby) komi úr frumslavnesku máli og merki „ættartengsl“ eða „bandalag“, og hins vegar að orðið komi úr skýþískum málum þar sem það gæti hafa haft ýmsar merkingar.[1][3] Konstantínus 7. Porfýrógenítus ritaði á 10. öld að Serbar hafi komið frá Hvítu Serbíu í nágrenni við Frankíu. Samkvæmt honum klofnuðu Hvítir Serbar í tvo hópa, og annar hópurinn settist að í löndum Austrómverska ríkisins.

Frá 1815 til 1882 var opinbert heiti Serbíu Furstadæmið Serbía. Frá 1882 til 1918 var landið nefnt Konungsríkið Serbía. Eftir 1945 var landið nefnt Alþýðulýðveldið Serbía og seinna Sósíalíska lýðveldið Serbía frá 1963. Frá 1990 hefur opinbert heiti landsins verið Lýðveldið Serbía.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Hæðakort af Serbíu, með Kósovó.

Serbía er landlukt land á mörkum Mið-[4][5] og Suðaustur-Evrópu. Serbía er á Balkanskaga, á Pannóníusléttunni á milli 41. og 47. breiddargráðu norður og 18. og 23. lengdargráðu austur. Landið er 88.499 km² að stærð með Kósovó. Án Kósovó er Serbía 77.474 km² að stærð.[6][7] Serbía á landamæri að Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Búlgaríu, K;róatíu, Ungverjalandi, Norður-Makedóníu, Svartfjallalandi og Rúmeníu.[6] Landamæri Kósovó eru þó undir stjórn landamæralögreglu Kósovó.[8] Serbía lítur á landamærin að Kósovó sem mörk héraða innan Serbíu. Þau eru undir sameiginlegri stjórn serbnesku lögreglunnar og landamæralögreglu Kósovó.[9] Nyrsti þriðjungur landsins (Vojvodina og Mačva) eru á Pannóníusléttunni,[10] en austasti hlutinn nær inn á Vallakíusléttuna. Miðhluti landsins, í kringum héraðið Šumadija, er hæðóttur með mörgum ám. Suðurhlutinn er fjalllendur. Dínarísku Alparnir fylgja árfarvegum ánna Drínu og Íbar í vestri og suðvestri. Karpatafjöll og Balkanfjöll liggja í norður-suður eftir austurhluta landsins.[11]

Í suðausturhluta landsins eru gömul fjöll sem tilheyra Hródópufjöllum. Hæsta fjall Serbíu er Midžor í Balkanfjöllum, 2.169 metrar á hæð, en lægsti punktur landsins er Prahovo við Dóná, 17 metrar yfir sjávarmáli.[12] Đerdap-vatn er stærsta stöðuvatn Serbíu, 163 km² á stærð, og Dóná er lengsta áin sem rennur um landið (587,35 km). Morava er önnur stór á sem rennur um Serbíu og er ein af þverám Dónár.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Serbía er einingarríki[13] sem skiptist í 145 sveitarfélög (opštine) og 29 borgir (gradovi), að Belgrad meðtaldri.[14] Að auki er landinu skipt í 29 umdæmi (okruzi), auk borgarinnar Belgrad sem hefur sams konar stöðu og umdæmi, þrátt fyrir að vera borg. Umdæmin hafa engin sjálfstæð völd og eru aðeins stjórnsýslutæki.[14] Í stjórnarskrá Serbíu er kveðið á um tvö sjálfstjórnarhéruð, Vojvodina í norðri og umdeilda héraðið Kósovó og Metohija í suðri.[14] Eftir Kósovóstríðið tók friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna yfir stjórn Kósovó og Metohija. Ríkisstjórn Serbíu viðurkennir ekki sjálfstæði Kósovó sem lýst var yfir í febrúar 2008 og telur yfirlýsinguna bæði ólöglega og ólögmæta.[15]

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]
Höfuðstöðvar orkufyrirtækisins NIS í Novi Sad.

Serbía er nýmarkaðsland með efri-millitekjur.[16] Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var verg landsframleiðsla árið 2022 65,697 milljarðar dala að nafnvirði, eða 9.561 dalir á mann, en 153,076 milljarðar kaupmáttarjafnað, eða 22.278 dalir á mann.[17] Þjónustugeirinn er langstærstur og stendur undir 67,9% af landsframleiðslu.[18] Opinber gjaldmiðill Serbíu er serbneskur dínar (ISO 4217-kóði: RSD) og Landsbanki Serbíu er seðlabanki landsins. Kauphöllin í Belgrad er eina kauphöll landsins, með skráð hlutabréf upp á 8,65 milljarða og hlutabréfavísitöluna BELEX15 sem nær yfir 15 helstu handbæru eignarhlutina.[19] Landið er í 52. sæti á vísitölu um félagsþróun[20] og í 51. sæti friðarvísitölunnar.[21]

Alþjóðlega fjármálakreppan hafði mikil áhrif á efnahagslíf Serbíu. Eftir nær áratug af miklum hagvexti (4,45% meðalársvexti) varð 3% samdráttur 2009 og aftur 2012 og 2014.[22] Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að takast á við kreppuna hafa tvöfaldað ríkisskuldir: frá 30% af landsframleiðslu í 70% (en hafa nýlega lækkað í um 50%).[23][24] Fjöldi á vinnumarkaði er 3,2 milljónir. Þar af starfa 56% í þjónustugeiranum, 28,1% í iðnaði og 15,9% í landbúnaði.[25] Meðallaunin voru 47.575 dínarar eða 525 bandaríkjadalir í maí 2019.[26] Atvinnuleysi var 12,7% árið 2018.[25]

Frá árinu 2000 hefur Serbía fengið yfir 40 milljarða dala í beinar erlendar fjárfestingar.[27] Traust fyrirtæki sem hafa fjárfest í landinu eru meðal annars Fiat Chrysler Automobiles, Siemens, Bosch, Philip Morris, Michelin, Coca-Cola, Carlsberg og fleiri.[28] Rússnesku orkurisarnir Gazprom og Lukoil hafa komið inn með stórar fjárfestingar[29] og kínversku stál- og koparfyrirtækin Hesteel og Zijin Mining hafa keypt lykilstarfsemi í landinu.[30]

Serbía býr við óhagstæðan viðskiptajöfnuð þar sem innflutningur er 25% umfram útflutning. Útflutningur frá Serbíu hefur hins vegar vaxið stöðugt síðustu ár og náði 19,2 milljörðum dala árið 2018.[31] Serbía er með fríverslunarsamning við EFTA og CEFTA, og nýtur viðskiptafríðinda hjá Evrópusambandinu og tollívilnana hjá Bandaríkjunum. Auk þess er landið með fríverslunarsamninga við Rússland, Belarús, Kasakstan og Tyrkland.[32]

Trúarbrögð

[breyta | breyta frumkóða]

Serbía er veraldlegt ríki samkvæmt stjórnarskrá landsins sem kveður á um trúfrelsi. 84,5% íbúa tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni sem er stærsta og elsta kirkjudeild landsins. Innan hennar eru aðallega Serbar. Aðrar rétttrúnaðarkirkjur þjónusta minnihlutahópa í landinu eins og Makedóna, Vallaka og Búlgara. Um 6% íbúa aðhyllast rómversk-kaþólska trú, aðallega í Vojvodina þar sem stórir hópar Ungverja búa. Um 1% íbúa aðhyllist mótmælendatrú, aðallega Slóvakar og Ungverjar í Vojvodina. Rútenar í Vojvodina eru í grísku rétttrúnaðarkirkjunni.

Í suðurhéruðum Serbíu eru margir múslimar, um 3% íbúa landsins. Bosníumenn og hluti Rómafólks eru múslimar. Aðeins 578 íbúar eru Gyðingar.

Rétt rúmlega 1% íbúa telur sig trúlausan eða guðlausan.

Opinbert tungumál Serbíu er serbneska sem 88% íbúa á að móðurmáli. Serbneska er eina evrópska tungumálið sem er ritað til jafns með tveimur ólíkum stafrófum; kýrillísku og latnesku stafrófi. Serbneska kýrillíska stafrófið er opinber ritháttur en latneska stafrófið er í opinberri notkun. Vuk Karadžić.smíðaði kýrillíska stafrófið árið 1814. Könnun frá 2014 sýndi að 47% íbúa vildu heldur nota latneska stafrófið en 36% það kýrillíska en 17% var sama.

Viðurkennd minnihlutamál eru ungverska, bosníska, króatíska, albanska, rúmenska, búlgarska og rútenska. Öll þessi mál eru notuð sem opinber mál í sveitarfélögum þar sem viðkomandi þjóðarbrot er yfir 15% íbúa. Í sjálfstjórnarhéraðinu Vojvodina notar héraðsstjórnin fimm mál auk serbnesku (ungversku, slóvakísku, króatísku, rúmensku og rútensku).

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Łuczyński, Michal (2017). "Geograf Bawarski" — nowe odczytania“ ["Bavarian Geographer" — New readings]. Polonica (pólska). XXXVII (37): 71. doi:10.17651/POLON.37.9. Sótt 4. ágúst 2020.
  2. Schuster-Šewc, Heinz. „Порекло и историја етнонима Serb "Лужички Србин". rastko.rs (serbneska). Þýðing eftir Petrović, Tanja. Пројекат Растко – Будишин.
  3. Rudnicki, Mikołaj (1959). Prasłowiańszczyzna, Lechia-Polska (pólska). Państwowe wydawn. naukowe, Oddzia ︢w Poznaniu. bls. 182.
  4. „Serbia: On the Way to EU Accession“. World Bank Group. Sótt 21. október 2014.
  5. „Serbia: Introduction“. Michigan State University. Sótt 3. október 2014.
  6. 6,0 6,1 „The World Factbook: Serbia“. Central Intelligence Agency. 20. júní 2014. Sótt 18. desember 2014.
  7. Kovačević, Miladin (2021). „Statistical Yearbook of Serbia 2021“ (PDF). Statistical Yearbook of Serbia. Belgrade: Statistical Office of the Republic of Serbia.
  8. „Border Police Department“. Kosovo Police. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. janúar 2015. Sótt 8. janúar 2015.
  9. „Uredba o kontroli prelaska administrativne linije prema Autonomnoj pokrajini Kosovo i Metohija“ (serbneska). Official gazette of the Republic of Serbia. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. janúar 2015. Sótt 8. janúar 2015.
  10. Carevic, Ivana; Jovanovic, Velimir. STRATIGRAPHIC-STRUCTURAL CHARACTERISTICS OF MAČVA BASIN (PDF) (Report). bls. 1. UDC 911.2:551.7(497.11). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 30. ágúst 2016.
  11. „About the Carpathians – Carpathian Heritage Society“. Carpathian Heritage Society. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. apríl 2010. Sótt 28. apríl 2010.
  12. „O Srbiji“. Turistickimagazin.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. mars 2012.
  13. „CCRE: Serbia“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júní 2012.
  14. 14,0 14,1 14,2 „Law on Territorial Organization“ (serbneska). National Assembly of the Republic of Serbia. 29. desember 2007. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. október 2013. Sótt 6. október 2013.
  15. Decision on the annulment of the illegitimate acts of the provisional institutions of self-government in Kosovo and Metohija on their declaration of unilateral independence Government of Serbia, 2008
  16. „Upper-middle-income economies“. The World Bank.
  17. „World Economic Outlook Database – Serbia“. International Monetary Fund. apríl 2021. Sótt 9. maí 2022.
  18. „Gross Domestic Product (GDP) 2005–2017 – Revised Data Series“ (PDF). Statistical Office of the Republic of Serbia. 10. janúar 2018. Sótt 1. nóvember 2021.
  19. „Belgrade Stock Exchange jsc, Belgrade“. belex.rs. Sótt 5. ágúst 2014.
  20. „Global Index: Results“.
  21. „Global Peace Index 2020: Measuring Peace in a Complex World“ (PDF). Institute for Economics and Peace. júní 2020. Sótt 1. nóvember 2021.
  22. „Report for Selected Countries and Subjects: Serbia GDP growth rate“. imf.org. Sótt 5. ágúst 2014.
  23. „Kako je Srbija došla do javnog duga od 24,8 milijardi evra“. 21. febrúar 2016.
  24. „Public Debt Administration – Public Debt Stock and Structure“. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. október 2019. Sótt 26. júlí 2019.
  25. 25,0 25,1 „Bulletin: Labour Force Survey in The Republic of Serbia, 2018“ (PDF). Bilten. Belgrade: Statistical Office of The Republic of Serbia. 2019. ISSN 0354-3641.
  26. „Average salaries and wages per employee, May 2019“. Statistical Office of the Republic of Serbia.
  27. „Europe :: Serbia — the World Factbook – Central Intelligence Agency“. 26. október 2021.
  28. „US embassy: private sector investments“. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. maí 2010.
  29. „Ministry of economic relations, Russian Federation“.
  30. „Mining, a new "ace up the sleeve" for Serbia?“.
  31. „Statistical Release: Statistics of external trade“ (PDF). Labour Force Survey. Statistical Office of the Republic of Serbia (198). 16. júlí 2019. ISSN 0353-9555.
  32. „LIBERALIZED TRADE“. siepa.gov.rs. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. apríl 2012. Sótt 3. ágúst 2014.








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: http://is.wikipedia.org/wiki/Serb%C3%ADa

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy