Fara í innihald

Fernando Collor de Mello

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fernando Collor de Mello
Collor de Mello árið 1992.
Forseti Brasilíu
Í embætti
15. mars 1990 – 29. desember 1992
VaraforsetiItamar Franco
ForveriJosé Sarney
EftirmaðurItamar Franco
Persónulegar upplýsingar
Fæddur12. ágúst 1949 (1949-08-12) (75 ára)
Rio de Janeiro, Brasilíu
ÞjóðerniBrasilískur
StjórnmálaflokkurBrasilíski verkamannaflokkurinn (frá 2022)
MakiCeli Elisabete Júlia Monteiro de Carvalho (g. 1975; sk. 1981)
Rosane Malta (g. 1984; sk. 2005)
Caroline Serejo Medeiros (g. 2006)
TrúarbrögðKaþólskur
Börn5
HáskóliHáskólinn í Brasilíu
Undirskrift

Fernando Affonso Collor de Mello (f. 12. ágúst 1949) er brasilískur stjórnmálamaður sem var forseti Brasilíu frá 15. mars 1990 til 29. desember 1992.

Collor de Mello er úr kunnri stjórnmála- og viðskiptafjölskyldu. Hann sat á fulltrúadeild brasilíska þingsins frá 1983 til 1987 og var síðan fylkisstjóri Alagoas. Árið 1989 bauð hann sig fram í forsetakosningum Brasilíu með stuðningi Þjóðlega endurreisnarflokksins (PRN) og vann sigur í annarri umferð á móti Luiz Inácio Lula da Silva, frambjóðanda Verkamannaflokksins. Collor de Mello varð fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Brasilíu eftir endalok herforingjastjórnarinnar í landinu og jafnframt yngsti forsetinn í sögu landsins.

Collor de Mello sagði af sér eftir tæp þrjú ár í embætti til þess að forðast að vera kærður fyrir spillingu af öldungadeild þingsins. Varaforseti hans, Itamar Franco, tók við forsetaembættinu. Eftir afsögn hans var Collor dæmdur sekur og honum bannað að gegna opinberu embætti í átta ár (frá 1992 til 2000). Hann var síðar sýknaður af hæstarétti landsins.

Eftir sýknunina hélt Collor áfram þátttöku í stjórnmálum. Hann var kjörinn öldungadeildarþingmaður fyrir Alagoas árið 2006 og endurkjörinn árið 2015. Hann viðraði hugmyndir um forsetaframboð fyrir Kristilega verkamannaflokkinn árið 2018.

Æska og uppvöxtur

[breyta | breyta frumkóða]

Fernando Collor de Mello er af auðugri ætt viðskipta- og stjórnmálamanna frá Alagoas, fylki í norðausturhluta Brasilíu. Faðir hans, Arnon de Melo (1911-1983), var blaðamaður, lögfræðingur og viðskiptamaður sem var fylkisstjóri Alagoas frá 1951 til 1956 og öldungadeildarþingmaður frá 1963 til 1981. Móðir hans, Leda Collor (1916-1995), var dóttir ráðherra.

Árið 1976, eftir að hafa útskrifast úr hagfræðinámi við Háskólann í Brasilíu, var Fernando Collor kjörinn forseti knattspyrnufélags.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]
Fernando Collor árið 1988.

Árið 1987 var Collor de Mello kjörinn fylkisstjóri Alagoas. Hann lofaði því að láta fækka embættismönnum í fylkisstjórninni, sem hann uppnefndi „Maharajana“. Hann notaði sama slagorð í forsetaframboði sínu árið 1989.

Forseti Brasilíu

[breyta | breyta frumkóða]
Fernando Collor árið 1991.

Fernando Collor tók við af José Sarney sem forseti Brasilíu þann 15. mars 1990 eftir fyrstu lýðræðislegu kosningar landsins í 29 ár. Kosningaherferð Collors hafði mikla fjármuni á bak við sig og nauð jafnframt stuðnings sjónvarpsstöðvarinnar TV Globo. Andstæðingur Collors í forsetakosningunum var verkalýðsforinginn Luiz Inácio Lula da Silva, sem hafði skotið borgarastéttinni skelk í bringu með loforðum sínum um róttækar samfélagsumbætur og fráhvarf frá meðmælum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.[1] Collor var á þessum tíma kvæntur Rosane Collor, sem varð forsetafrú eftir embættistöku hans.

Kosningaherferð Collors var popúlísk og bar fyrirheit um frjálshyggju í efnahagsmálum.[2] Forsetatíð Collors einkenndist af stefnunni pacote, sem var róttækasta hreinsunaraðgerð í sögu Brasilíu. Fyrirtæki voru einkavædd, reglur um kjaraviðræður voru felldar úr gildi, bankainnistæður voru gerðar upptækar tímabundið og framlög til velferðarmála voru skert. Atvinnuleysi jókst á þessum tíma, meðallaun lækkuðu og kreppuástand skapaðist í efnahag landsins.

Árið 1991 sakaði bróðir forsetans, Pedro Collor, hann um að hafa skipulagt kerfi pólitískra mútugreiðslna með aðkomu kosningastjóra síns, Paulo César Farias. Samkvæmt þessu átti forsetinn að hafa hlotið 70 % þeirra greiðslna sem fengust en Paulo César 30 %. Í forsetabústaðnum einum átti um 2,5 milljónum Bandaríkjadala að hafa verið varið í að setja upp tugi gervifossa, stöðuvatn og upphitaða 100 fermetra sundlaug.[1] Eftir að lögreglan og þingið gerðu rannsókn sem leiddi líkur að sekt Collors kaus fulltrúadeild brasilíska þingsins þann 29. október 1992 með 441 atkvæðum gegn 38 að víkja Collor tímabundið úr embætti. Samkvæmt þessu þurfti Collor að víkja úr embætti í 180 daga á meðan varaforseti hans Itamar Franco, var settur í forsetaembætti.

Collor de Mello sagði af sér þann 29. desember 1992, daginn áður en öldungadeild þingsins hugðist halda þingfund til að skera úr um hvort ákæra yrði birt gegn honum. Franco varaforseti tók því við forsetaembætti það sem eftir var af kjörtímabilinu. Öldungadeildin gaf engu að síður út ákæru gegn Collor næsta dag og svipti hann rétti til að gegna opinberu embætti í átta ár vegna spillingar.[3] Árið 1994 sýknaði Hæstiréttur Brasilíu Collor hins vegar og hann hlaut því pólitísk réttindi á ný.[4]

Öldungadeildarþingmaður

[breyta | breyta frumkóða]
Fernando Collor árið 2015.

Árið 2006 var Collor de Mello kjörinn öldungadeildarþingmaður Alagoas. Hann tók við embættinu næsta ár og var endurkjörinn árið 2014. Árið 2016 kaus Collor með tillögu um að víkja Dilmu Rousseff forseta úr embætti.[5]

Collor var ákærður í ágúst árið 2017 fyrir þátttöku í peningaþvætti.[6] Hann var meðal annars sakaður um að hafa tekið við meira en 29 milljóna ríala mútugreiðslum frá Petrobras á tímabilinu 2010 til 2014.[7]

Í febrúar árið 2018 tilkynnti Collor de Mello að hann hygðist gefa kost á sér í forsetakosningum Brasilíu sama ár.[8] Hann hætti við framboðið vegna lítils meðbyrs og studdi framboð Álvaro Dias.[9]

Árið 2022 bauð Collor sig fram til fylkisstjóra Alagoas fyrir Brasilíska verkamannaflokkinn og lenti í þriðja sæti með 14,7 % greiddra atkvæða.[10] Hann studdi Jair Bolsonaro á móti Luiz Inácio Lula da Silva í seinni umferð forsetakosninganna sem haldnar voru í lok október sama ár.[11]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Maurice Lemoine (2015). Les enfants cachés du général Pinochet. Précis de coups d’Etat modernes et autres tentatives de déstabilisation (franska). Don Quichotte. bls. 169–170.
  2. Luiz Carlos Bresser Pereira (2003). Desenvolvimento e crise no Brasil: história, economia e política de Getúlio Vargas a Lula (brasílísk portúgalska). Editora 34. ISBN 978-85-7326-279-7.
  3. „Collor fær ekki að gegna opinberu embætti í átta ár“. Morgunblaðið. 31. desember 1992. bls. 11.
  4. „Collor sýkn saka“. Morgunblaðið. 13. desember 1994. bls. 1.
  5. Global Media Group. „O voto dos senadores e o "sim" de Collor de Mello“. TSF Rádio Notícias. Sótt 10. nóvember 2022.
  6. „Petrobras : l'ancien président brésilien Fernando Collor de Mello mis en examen“. Le Monde. 23. ágúst 2017. Sótt 10. nóvember 2022.
  7. „Expresidente brasileño es imputado por corrupción“. TeleSur. 23. ágúst 2017.
  8. „Après sa condamnation, Lula peine à unir la gauche brésilienne“. Courrier international. Sótt 10. nóvember 2022.
  9. Ricardo Balthazar (15-04-2018). „Prisão enfraquece Lula e põe Marina perto de Bolsonaro, diz Datafolha“. com.br (portúgalska). Folha de S.Paulo. Sótt 10. nóvember 2022.
  10. https://valor.globo.com/politica/eleicoes-2022/noticia/2022/10/02/parcialalagoas-com-3562percent-das-secoes-apuradas-paulo-dantas-tem-4670percent-e-rodrigo-cunha-2604percent.ghtml. {{cite web}}: |title= vantar (hjálp)
  11. „Collor reafirma apoio a Bolsonaro no segundo turno“. g1.globo.com (brasílísk portúgalska). G!. 5. október 2022. Sótt 10. nóvember 2022.


Fyrirrennari:
José Sarney
Forseti Brasilíu
(15. mars 199029. desember 1992)
Eftirmaður:
Itamar Franco


pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy