Fara í innihald

Fordæmisréttur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Á þessu korti eru lönd með fordæmisréttarkerfi merkt með bleiku litbrigði.

Fordæmisréttur (enska: common law) er réttarkerfi sem upprunnið er á Englandi og byggir á dómafordæmi sem megin réttarheimild þannig að fyrri ákvarðanir dómstóla hafa lagagildi. Þetta kerfi er skilgreint andspænis meginlandsréttinum þar sem vægi dómafordæma er almennt minna.

Í fordæmisréttarkerfi gildir að ef skorið hefur verið úr svipuðu máli með tilteknum hætti áður er dómstóllinn yfirleitt bundinn við þá ákvörðun (þetta nefnist stare decisis). Hins vegar ef málið er talið í eðli sínu frábrugðið eldri málum, og ekki er kveðið á um hvernig eigi að fara með slíkt mál í lögum, hefur dómarinn vald og skyldu til að skera úr málinu. Dómstóllinn leggur frá sér álit þar sem færð eru rök fyrir ákvörðuninni, sem er til þess valdandi að dómararar séu bundnir við það fordæmi í framtíðarmálum. Með þessum hætti er sköpuð venja sem hefur sama vægi og gildi og lög sem lögð eru fram af Löggjafarvaldinu og reglugerðir sem lagðar eru fram af framkvæmdarvaldinu.

Fordæmisréttarkerfið á rætur sínar að rekja til þess að Englandskonungar á miðöldum beittu sér fyrir samræmdri löggjöf og réttarfari á Englandi sem skyldi koma í stað ótal staðbundinna alþýðudómstóla og réttarregla. Með breska heimsveldinu dreifðist fordæmisréttur víðar um heim, en lagakerfi margra landa sem áður voru undir yfirráðum Bretar byggjast á fordæmisrétti ennþá daginn í dag.

Í dag býr um það bil þriðjungur heimsbúa í fordæmisréttarumdæmi, eða umdæmi þar sem notast er við fordæmisrétt í bland við önnur lagakerfi. Á meðal þessara landa eru Antígva og Barbúda, Ástralía, Bahamas, Bandaríkin (nema Louisiana), Bangladess, Barbados, Belís, Botsvana, Bretland (og hjálendur þess eins og Gíbraltar, í Skotlandi er þó notast við blandað kerfi), Dóminíka, Fijieyjar, Filippseyjar, Gana, Grenada, Gvæjana, Hong Kong, Indland, Ísrael, Jamaíka, Kamerún, Kanada (nema Québec), Kenýa, Kýpur, Líbería, Malasía, Malta, Mjanmar, Míkrónesía, Namibía, Nárú, Nýja-Sjáland, Nígería, Pakistan, Palá, Papúa Nýja-Gínea, Simbabve, Singapúr, Síerra Leóne, Suður-Afríka, Srí Lanka og Trínidad og Tóbagó.

  Þessi lögfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy