Fara í innihald

Haugfé

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Haugfé á við gripi, sem grafnir voru með mönnum í heiðnum sið á Norðurlöndum; oftast hversdagslegir munir eins og hnífar, nælur, brýni og spjót.

Í heiðni trúðu menn á líf eftir dauðan þ.e. framhaldslíf. Þeir trúðu því að erfitt líf biði þeirra sem yrðu sóttdauðir og að gaman og leikur biði þeirra sem ekki yrðu sóttdauðir. Sá sem er grafinn í haugnum lifði áfram þar. Þess vegna fannst þeim ekkert eðlilegra en að grafa með þeim látna þá hluti sem hann þurfti að taka með sér í framhaldslífið. Höfðingjar og stórbændur voru grafnir í haug með sínum uppáhalds vopnum, klæddir í skartklæði og oft með þeim hlutum sem þeir höfðu notað mest á í sínu lífsskeiði. Einnig eru til dæmi um það að eftirlætis dýr og jafnvel þrælar væru grafnir með þeim látna. Haugfé er eitt helsta kennimark heiðins kumls. Eitt af aðalkennimerkjum þess hvort kuml sé frá heiðni er haugféð. Ef að bein hesta og hunda, vopn, skartgripir, búsáhöld o.fl. þess háttar finnast með mannabeinum er það nefnt haugfé.[1]

Haugfé í íslenskum kumlum

[breyta | breyta frumkóða]

Það er mjög algengt að íslenskt haugfé sé með 10. aldar stíl. Liststílar og smíðatækni sýna fram á það að mikill meirihluti gripanna sem finnast í íslenskum kumlum séu af norskum uppruna eða gerðir af norskri fyrirmynd.[2] Flestir hlutir úr daglegu lífi voru nothæfir sem haugfé svo lengi sem þeir gátu komist fyrir í kumlinu. Sumar tegundir hluta eru þó greinilega algengari en aðrar í íslenskum kumlum.[3]

  • Nælur — Nælur í kumlum eru af ýmsum gerðum. Þær voru flestar úr bronsi og steyptar í leirmótum. Algengustu og stærstu nælurnar voru kúptar nælur.
  • Klæði — Ekki mikið er hægt að segja frá klæðnaði fornmanna af þeim minjum sem varðveist hafa. Klæðabútarnir sem hafa varðveist eru fáir og smáir. Það sem varðveist hefur virðist vera einskeftuvaðmál eða léreft.
  • Prjónar — Því er haldið fram að karlar og konur hafi klæðst kyrtlum og notað langa og granna bronsprjóna með hring í gegnum haus, sem nefnist hringprjónn, til að halda kyrtlinum saman. Prjónarnir eru flokkaðir niður í tegundir eftir lagi og skrauti á hausum og hringum.
  • Beltishringjur og sprotar — Talið er að karlar og konur hafi haldið klæðum að sér með belti um mittið. Á öðrum enda beltisins er talin hafa verið hringja, en á hinum tunga sem var oftast úr bronsi og kallast hún sproti.
  • Skartgripir — Skartgripirnir sem fundist hafa í íslenskum kumlum eru kingur, sörvistölur, silfurpeningar, bjöllur, armbaugar og fingurhringir.
  • Kambar — Kambar eru gripir sem bæði karlar og konur notuðu við daglega umhirðu. Kambar voru greiður þess tíma. Sumir kambarnir eru taldir vera skrautkambar.
  • Bátar — Það hafa ekki fundist nein víkingaskip á Íslandi en það hafa fundist leifar báta í fimm kumlum.
  • Vopn og verjur — Vopn eru meðal helstu gripa í kumlum karla. Sverð eru greind í tegundir eftir laginu á hjöltunum, skreytingu og hvort það eineggja eða tvíeggja. Íslensku sverðin eru öll með tveimur eggjum og flest af tegundum sem voru algengar í Noregi á 10. öld. Spjótin voru úr járni og stáli eins og önnur vopn og voru yfirleitt óskreytt. Skjaldarbólurnar eru allar af 10. aldar gerðum. Þær eru úr járni og voru á miðjum skyldinum. Axir eru einnig af 10. aldar tegundum. Hnífar eru mjög algengt haugfé enda hægt að nota þá til að gera margt.
  • Tóvinna — Hægt er að tengja nokkra gripi við ullarvinnu. Skæri og klippur hafa fundist í nokkrum kumlum, snældusnúðar, hugsanlegar vefjaskeiðar, ullarkambar, metaskál og met.
  • Mataráhöld og innanstokksmunir — Leifar af járnkötlum og steinkötlum hafa fundist í níu kumlum. Steikarteinar hafa einnig fundist, skeljar sem talið er að hafi verið notaðar sem diskar eða skeiðar og einnig hafa fundist lyklar sem benda til þess að í þeim hafi verið kistlar.
  • Verkfæri — Í kumlum á Íslandi hafa fundist sigðir sem eru taldar tengjast kornyrkju. Leifar gripa sem taldir eru vera smíðaáhöld hafa fundist í þremur kumlum. Lítið hefur varðveist af veiðarfærum. Brýni eru meðal algengustu funda við fornleifarannsóknir hér á landi.
  • Tómstundagripir — Í þremur kumlum hefur fundist töflur úr hnefatafli einnig hefur fundist teningur.
  • Dýraleifar — Hestar eru algengasta haugféð í íslenskum kumlum og þar á eftir koma hundabein.
  • Reiðver — Í kumlum hafa varðveist hlutar af beislum. Gjarðarhringir og smáhlutir finnast oft í hestakumlum.[4]

Tölfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Listinn hér fyrir neðan er úr annarri útgáfu af Kuml og haugfé eftir Kristján Eldjárn.[5]

Tegund haugfjár Kumlafjöldi
Hestar 113
Hundar 20
Beisli 23
Gjarðarhringjur, söðlar 40
Ísbroddar 1
Hestfjötrar 1
Klæði (lítilfjörlegar leifar) 17
Sverð 16
Döggskór 1
Spjót 56
Axir 24
Örvaroddar 2
Skjaldbólur 13
Hnífar 53
Brýni 29
Hverfisteinar 1
Kúptar nælur 23
Þríblaðanælur 6
Kringlóttar nælur 8
Tungunælur 2
Hringnælur 2
Hringprjónar 8
Beinprjónar 2
Kingur 3
Sörvistölur 42
Bjöllur 3
Armbaugar 4
Fingurhringar 3
Skrauthnappar 1
Beltishringjur og sprotar 2
Kambar 17
Skæri 8
Snældusnúðar 4
Vefjaskeiðar 2
Kistlar og lyklar 7
Katlar og grýtur 9
Steikarteinar 2
Eldfæri 14
Sigðir/ljáir 4
Smíðatól 3
Önglar og sökkur 3
Mannbroddar 1
Metaskálar og met 21
Hnefatafl 3

Kyngreining

[breyta | breyta frumkóða]

Hægt er að sjá á sumum haugfjártegundum hvort þær tilheyri karli eða konu. Síðan eru hlutir sem gætu bæði tilheyrt körlum og konum. Í kumlatalinu í 2. Útgáfu af Kuml og haugfé eftir Kristján Eldjárn eru 165 kuml sem kyngreind verða ýmist af haugfé eða beinarannsókn. Af þessum kumlum eru 100 karlkuml og 65 kvennkuml.[6] Vopn eru talin tilheyra karlkumlum og flestir skartgripir eru taldir tilheyra kvennkumlum. Svona er hægt að nota haugfé til þess að kyngreina kuml en það verður samt að hafa varan á því ekki er hægt að útiloka það að vopn finnist í kvennkumli og skartgripir eða snældusnúður finnist í karlkumli.[7]

Staðsetning haugfjárs

[breyta | breyta frumkóða]

Vopn voru yfirleitt lögð við hlið þess látna. Á spjótunum var mjög líklega skaft og oddurinn finnst oftast við fætur líksins. Hnífur finnst oft í beltisstað og annað smádót líka. Sörvistölur eru nær hálsi og skartgripir kvenna á brjótsti. Þetta sýnir að hinn látni hefur verið grafin með hversdagsgripum sínum og mjög líklega venjulegum klæðum. Ef skjöldur finnst í kumli hefur hann oftast verið lagður yfir höfuð líksins.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Bruun (1987): 138.
  2. Kristján (2000): 41.
  3. Kristín Huld (2004): 65.
  4. Kristín Huld (2004): 65-75.
  5. Kristján (2000): 301.
  6. Kristján (2000): 303.
  7. Maher (2004): 156.
  • Bruun, Daniel (1987). Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. (Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.).
  • Kristín Huld Sigurðardóttir (2004). „Haugfé gripir úr heiðnum gröfum“. Hlutavelta tímans menningararfur á þjóðminjasafni, bls 65-75
  • Kristján Eldjárn (2000). Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi. (Mál og menning).
  • Maher, Ruth (2004-2005). „Kuml, kyn og kyngervi“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags, bls 151-168.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy