Fara í innihald

Jarisleifur Valdimarsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Rúriksætt Stórfursti af Kænugarði
Rúriksætt
Jarisleifur Valdimarsson
Jarisleifur Valdimarsson
Ríkisár 1019–1054 (í Kænugarði)
978–1010 (í Rostov)
1010–1019 (í Hólmgarði)
SkírnarnafnGjurĭgì (Гюрьгi)
FæddurÍ kringum 978
Dáinn20. febrúar 1054
 Vysjhorod, Garðaríki (nú Úkraínu)
GröfDómkirkja heilagrar Soffíu, Kænugarði
Konungsfjölskyldan
Faðir Valdimar gamli
Móðir Ragnheiður af Polotsk
EiginkonaIngigerður Ólafsdóttir af Svíþjóð
BörnEllisif, Anastasía, Anna, Agata (hugsanlega), Ilja, Vladímír, Izjaslav 1., Svjatoslav 2., Vissivaldur 1., Ígor Jaroslavítsj, Vjatsjeslav Jaroslavítsj

Jarisleifur Valdimarsson eða Jaroslav Volodymyrovytsj (fornausturslavneska: Ꙗрославъ Володимѣровичъ Мѫдрꙑи; úkraínska: Ярослав Мудрий; rússneska: Ярослав Мудрый) var stórfursti (einnig kallaður konungur eða knjas) í Kænugarði í því sem norrænir menn kölluðu Garðaríki á 11. öld. Hann gekk undir viðurnefninu „hinn vitri“ eða „hinn spaki.“

Jarisleifur var sonur Valdimars gamla, sem kristnaði Rús-þjóðir Garðaríkis á 10. öld. Á valdatíð Jarisleifs náði máttur Kænugarðsríkisins í Garðaríki hátindi sínum. Jarisleifur er því mjög virtur í Úkraínu og í Rússlandi nútímans, sem rekja bæði uppruna sinn til veldis hans í Garðaríki.

Jarisleifur var mægður ýmsum norrænum konungum og því bregður honum oft fyrir í íslenskum konungasögum. Hann var kvæntur Ingigerði, dóttur Ólafs skotkonungs frá Svíþjóð. Dóttir Jarisleifs, Ellisif af Kænugarði, varð eiginkona Haralds harðráða Noregskonungs, sem dvaldi um skeið með Jarisleifi á leið sinni um austurveg til Miklagarðs.

Jarisleifur fæddist í kringum árið 978. Hann hlaut þjálfun í vopnaburði hjá frænda sínum, herforingjanum Dobrynja (bróður föðurömmu Jarisleifs, Malúsju) og varð síðan fursti yfir Hólmgarði. Árið 1014 kom til illdelna milli Jarisleifs og föður hans, Valdimars gamla, fursta í Kænugarði, þegar Jarisleifur hætti að greiða föður sínum skatt. Valdimar hugðist fara með her til Hólmgarðs til að knýja Jarisleif til hlýðni. Jarisleifur sendi boð eftir málaliðum úr röðum væringja til að verjast yfirvofandi árás föður síns, en Valdimar veiktist og lést árið 1015, áður en til þess kom.[1]

Eftir dauða Valdimars varð Jarisleifur að heyja valdabaráttu við hálfbróður sinn, Svjatopolk 1., sem hafði drepið nokkra aðra bræður þeirra til að tryggja sér völd yfir Kænugarði. Svjatopolk naut stuðnings Pólverja en Jarisleifi tókst að sigra hann eftir stutta borgarastyrjöld með stuðningi Hólmgerðinga og her væringja. Jarisleifur vann fullnaðarsigur árið 1036 og náði öllu Kænugarðsríkinu undir sína stjórn.[2]

Árið 1024 gerði bróðir Jarisleifs, Mstislav af Tsjernigov, uppreisn gegn honum. Jarisleifur neyddist til að hörfa til Hólmgarðs en árið 1026 tókst honum að sættast við Mstislav. Bræðurnir sömdu um að skipta með sér völdum í Garðaríki eftir Dnjeprfljóti svo að Jarisleifur fékk völd yfir vesturbakkanum en Mstislav fékk hinn eystri.[3] Tvíveldi bræðranna stóð til ársins 1036, en þá lést Mstislav í veiðiferð. Eftir það var Jarisleifur einvaldur í Garðaríki.[4]

Árið 1036 unnu hersveitir Jarisleifs stórsigur gegn Petsjenegum, tyrknesku þjóðarbroti sem hafði lengi átt í hernaðardeilum gegn Rús-þjóðunum í Garðaríki. Tveimur árum síðar fór Jarisleifur í herfarir í norðurátt að bökkum Narew-fljóts og réðst árið 1040 inn í Litháen. Aftur á móti misheppnaðist herför elsta sonar Jarisleifs, Valdimars, gegn Býsansríkinu árið 1043 herfilega. Árið 1047 réðst Jarisleifur gegn Masóvíu, drap þar furstann Miecław og setti héraðið aftur undir stjórn Kasimírs 1. af Póllandi.

Soffíukirkjan í Kænugarði sem Valdimar gamli hafði byrjað að byggja var vígð árið 1039. Jarisleifur var kunnur löggjafi og varð fyrstur til að skrásetja lög Rús-þjóðanna með skipulegum hætti. Lögin sem skrásett voru á tíð hans voru samsetningur af lögum Býsansríkisins og slavneskum hefðarrétti. Valdatíð Jarisleifs var jafnframt gullöld í byggingarlist og menningu Garðaríkis, sem voru undir miklum austrómverskum áhrifum.[2]

Jarisleifur gifti þrjár dætur sínar vestur-evrópskum konungum. Dóttirin Ellisif giftist Haraldi harðráða Noregskonungi, dóttirin Anastasía giftist Andrési 1. Ungverjalandskonungi og Anna giftist Hinriki 1. Frakkakonungi.[5]

Þegar Jarisleifur lést þann 20. febrúar 1054 var veldi hans skipt milli sex eftirlifandi sona hans. Þrír þeirra áttu eftir að bera titil stórfursta í Kænugarði.[6] Erfðadeilur eftir andlát Jarisleifs leiddu til bræðravígja innan Rúriksættarinnar sem varði í nokkra áratugi og settu mark sitt á margar kynslóðir fursta í Garðaríki. Gjarnan er litið svo á að gullöld Garðaríkis hafi liðið undir lok eftir dag Jarisleifs og að rósturtíminn sem við tók hafi greitt götu tyrkneskra þjóða austan við ríki Rús-þjóðanna.[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Rússa sögur og Igorskviða. Þýðing eftir Árna Bergmann. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. 2009. bls. 155. ISBN 978-9979-66-238-9.
  2. 2,0 2,1 Klaus Berndl; Markus Hattstein; Arthur Knebel; Hermann-Josef Udelhoven (2008). Illugi Jökulsson (ritstjóri). Saga mannsins: Frá örófi fram á þennan dag. Þýðing eftir Ásdísi Guðnadóttur, Ásmund Helgason, Hannes Rúnar Hannesson, Hauk Ingason, Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur, Hrefnu Maríu Ragnarsdóttur, Nönnu Maríu Cortes, Pétur Ólafsson og Snorra G. Bergsson. Reykjavík: Skuggi – forlag. bls. 206. ISBN 978-9979-9810-7-7.
  3. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 183.
  4. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 186.
  5. Illugi Jökulsson (29. janúar 2022). „Saga Úkraínu: Höfnuðu íslam vegna áfengisbanns“. Stundin. Sótt 23. apríl 2022.
  6. Joseph Fr. Michaud; Louis Gabriel Michaud (1840). Biographie universelle, ancienne et moderne. 67. árgangur. Michaud frères. bls. 567.
  7. Árni Bergmann (2004). Rússland og Rússar. Reykjavík: Mál og menning. bls. 19. ISBN 9979-3-2402-3.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy