Símon vandlætari
Útlit
Símon vandlætari var einn af postulunum sem fygldu Jesú. Hann er sá tíundi í röðinni í nafnalista Lúkasarguðspjalls og í Postulasögunni en ellefti í hinum samstofna guðspjöllunum tveimur. Símon er einn af þeim postulum sem minnst er um vitað um.
Í bláupphafi Postulasögunar er hann nefndur með nafni:
- Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan. Er þeir komu þangað, fóru þeir upp í loftstofuna, þar sem þeir dvöldust: Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum. María, móðir Jesú, var líka með þeim og bræður hans.
Símon er sagður hafa verið meðlimur í herskáum gyðinglegum trúflokki sem barðist gegn Rómverjum í Palestínu frá árinu 6. e. Kr. og þar til Jerúsalem féll árið 70, og nefndist sílótar eða vandlætarar. Sumir hafa þó dregið í efa að postulanum hafi áskotnast þetta auknefni af tengslum við sílótana, heldur miklu fremur af áhuga sínum og krafti við útbreiðslu fagnaðarerindisins.