Fara í innihald

Skírdagur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Síðasta kvöldmáltíðin hefur verið listarmönnum mjög hugleikið viðfangsefni í gegnum aldirnar. Veggmynd Leonardo da Vinci (1452-1519) í Mílanó á Ítalíu er sjálfsagt þekktust þeirra.

Skírdagur er síðasti fimmtudagur fyrir páska. Hann var upphafsdagur hinnar fornu páskahátíðar Gyðinga. Þennan dag minnast kristnir þess að kristur þvoði fætur lærisveinanna fyrir hina heilögu kvöldmáltíð sem kölluð hefur verið síðasta kvöldmáltíðin. Skírdagur ársins er 28. mars, 2024.

Heitið Skírdagur

[breyta | breyta frumkóða]

Lýsingarorðið skír merkir hreinn, óblandaður; skær, bjartur; saklaus og vísar nafnið þannig til þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. Sögnin skíra merkir að hreinsa og hin upphaflega merking þess að barn sé skírt er þess vegna hreinsun. Skírdagur ásamt öskudeginum var öðrum fremur talinn dagur iðrunar og afturhvarfs.

Upphaflega hefur dagur þessi líklega verið nefndur á Íslandi skíri þórsdagur[1] eins og skærtorsdag á dönsku og Share-thursday á ensku. Þó finnst ekki nema eitt dæmi um það orð í íslenskum fornritum og er það frá 14. öld. Ástæðan er líklega vegna afnáms dagsheitana Týsdagur, Óðinsdagur og Þórsdagur á 12. öld, sem sagt er að Jón Ögmundsson biskup hafi fyrirskipað.

Skírdagur og föstudagurinn langi eru gjarnan nefndir einu nafni bænadagar og hefur sú nafngift verið algeng um land allt til skamms tíma. En þessir tveir dagar hafa einnig borið fleiri nöfn þó að þau hafi ekki tíðkast um allt land. Í Þingeyjarsýslum var orðið skírdagshelgar algengt heiti á þessum helgidögum og aðalheiti þeirra í máli fólks fyrr á tíð.

Siðir og venjur

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrr á öldum þvoðu sumir kristnir þjóðhöfðingar, eins og til dæmis Elísabet 1. Englandsdrottning og keisarar Austurríkis, fætur þjóna sinna á skírdag og er eitt heiti dagsins á latínu dies pedilavii sem merkir fótþvottadagur'.

Í katólskum sið var klukkum hringt á skírdag, eða kvöldið áður, í síðasta sinn fram að páskum og ljós deyfð í kirkjum. Eins var altari þvegið og olía vígð og varð hann fljótt aflausnardagur syndara.

Eftir siðaskiptin hefur frekar verið litið á skírdag sem lok föstu og haldið upp á hann með mat. Heimildir eru um það frá 18. og 19. öld að hnausþykkur rauðseyddur mjólkurgrautur hafi víða verið skammtaður á skírdagsmorgun áður en menn héldu til kirkju. En slíkur grautur þótti mikið lostæti hér áður fyrr á Íslandi, og er hans ósjaldan getið sem sérstaks hátíðaréttar. Grauturinn þótti þó auka mönnum svo vind, að sagt er að ekki hafi verið þefgott í kirkjunum á skírdag. [2]

Skírdagur er ásamt öðrum dögum páskanna, föstudeginum langa, páskadegi og öðrum í páskum, lögbundinn frídagur á Íslandi. Misjanft er eftir árum hvenær páskarnir eru og því getur skírdagur lent á bilinu 19.mars til 22.apríl. Skírdagur getur borið uppá sama dag og Sumardagurinn fyrsti en sjaldgæft er að það gerist, síðast gerðist það árið 2011.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Almanaksskýringar“. Almanak Háskóla Íslands. Sótt 24. mars 2016.
  2. Fróðleiksmolar um páskana; grein í Degi 1982
  • Árni Björnsson (2000). Saga daganna.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy