Fara í innihald

William Herschel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
William Herschel fæddist í Hannover

William Herschel (15. nóvember 1738 í Hannover25. ágúst 1822 í Slough) var enskur stjörnufræðingur af þýskum uppruna sem öðlaðist heimsfrægð fyrir að uppgötva reikistjörnuna Úranus árið 1781. Hann var einnig virtur tónlistarmaður og tónskáld.

Stærsti sjónaukinn sem Herschel smíðaði var 12 metra langur

Herschel fæddist í þýsku borginni Hannover meðan hún var höfuðborg konungsríkisins Hannover og var skírður Friedrich Wilhelm. Snemma lærði hann á hljóðfæri og spilaði á óbó. Hann gekk í herinn í 7 ára stríðinu 1757 en þegar Frakkar hertóku Hannover, flúði hann til Englands. Þar gerðist hann tónlistarmaður, tónskáld og organisti. Árið 1766 varð hann tónlistarstjóri í ensku borginni Bath. Eftir að hann kvæntist, fluttist hann til Slough, en þar starfaði hann til dauðadags og gerði sínar frægu uppgötvanir. Hann hóf að nema stærðfræði og öðlaðist við það áhuga á linsum, sjónaukum og stjörnufræði. Herschel smíðaði nokkra stjörnusjónauka um ævina, en sá stærsti var allt að tólf metra langur. Þetta var stærsti stjörnusjónauki heims í rúma öld og stóð á grind utandyra. Sjónaukinn eyðilagðist í stormi nokkru síðar. Áhugasvið Herschels var óvenjulegt hvað það varðar að hann hafði minni áhuga á tunglinu, reikistjörnum og halastjörnum, heldur beindist áhugi hans fyrst og fremst að fastastjörnum. Á þeim tíma vissu menn ekki að hér væri um sólir í órafjarlægð að ræða. Herschel reyndi að reikna út fjarlægðir þeirra frá jörðu og notaði við það stærð stjarnanna. Hann gerði þó þau mistök að ætla að þær væru allar jafn stórar. Því væru stærri stjörnurnar nær jörðu en þær minni fjær. Herschel hafði einnig áhuga á stjörnuþokum og kortlagði þær á stjörnukorti. Árið 1781 sá hann nýjan hnött innan sólkerfisins og taldi í fyrstu að hér væri um nýja halastjörnu að ræða. Fljótlega komst hann þó að þeirri niðurstöðu að þetta væri ný reikistjarna. Fréttin um þetta barst eins og eldur í sinu og varð Herschel víðfrægur fyrir fund sinn. Herschel bjó mestmegnis í ensku borginni Slough. Þar lést hann árið 1822 og var jarðsettur við St. Laurence kapelluna.

Úranus ásamt hringjum og nokkrum tunglum

Frá örófi alda töldu menn aðeins fimm reikistjörnur: Merkúríus, Venus, Mars, Júpíter og Satúrnus. Allar sjást þær með berum augum. Þessar reikistjörnur, ásamt sól og tungli, mynduðu hina 7 alkunnu himinhnetti. Á miðöldum var þetta heilagur sannleikur. Ekki mátti hrófla við þessari tölu. Þar að auki voru þessir himinhnettir sléttir og hreinir. Uppgötvanir Galileós um tungl umhverfis Júpíter var hafnað, eins og uppgötvanir hans um fjöll á tunglinu og hringi í kringum Satúrnus. Menn þekktu hins vegar til halastjarna. Þegar Herschel uppgötvaði nýjan hnött innan sólkerfisins 1781, var því tekið sem mikilsverðri uppgötvun. Herschel sjálfur taldi að hér væri um halastjörnu að ræða og nefndi hana Georgium Sidus (Georgsstjarnan), eftir Englandskonungi (sem reyndar var einnig frá Hannover). En við frekari útreikninga kom í ljós að braut hnattarins líktist braut hinna reikistjarnanna, en ekki brautir halastjarna. Herschel komst því að þeirri niðurstöðu að hér hlyti að vera um nýuppgötvaða reikistjörnu að ræða, sem væri svo langt frá jörðu að hún sæist ekki nema með bestu stjörnusjónaukum. Fréttin um nýja reikistjörnu barst eins og eldur í sinu um alla Evrópu og varð Herschel heimsfrægur á svipstundu. Allt í einu sá fólk að sólkerfið væri meira og stærra en gert hafði verið ráð fyrir í aldaraðir. Herschel breytti heiti hnattarins í Úranus, sem var heiti á fornguði í grískri goðafræði. Þegar Herschel endurbætti stjörnusjónauka sína, uppgötvaði hann 1787 tvö tungl sem snerust í kringum Úranus. Þau voru kölluð Títanía og Oberon. 1797 uppgötvaði hann hringi í kringum Úranus. Engir aðrir stjörnufræðingar eftir hans daga komu hins vegar auga á hringina og voru þeir því dæmdir sem mistök Herschels. Það var ekki fyrr en 1977, 180 árum síðar, að stjörnufræðingar uppgötvuðu hringi Úranusar á nýjan leik.

Aðrar uppgötvanir

[breyta | breyta frumkóða]

Með smíði stærri og betri stjörnusjónauka var Herschel í einstakri aðstöðu til að skoða fyrirbæri í himingeiminum, fyrirbæri sem engir aðrir jarðarbúar höfðu fram að þessu séð. Aðaláhugamál Herschels voru stjörnuþokur. Árin 1780-81 gaf Charles Messier út stjörnukort af 103 stjörnuþokum sem þekktar voru á þessum tíma. Menn voru hins vegar ekki á eitt sáttir um gerð stjörnuþoka, þ.e. hvort hér væri um þétta hópa af stjörnum að ræða, eða leifturský eða jafnvel vökva. Herschel athugaði þessar þokur, enda hafði hann smíðað stærsta stjörnusjónauka heims. Hann uppgötvaði mýmargar nýjar stjörnuþokur og komst að þeirri niðurstöðu að hér væri um þétta stjörnuklasa að ræða. Þegar ekki var hægt að greina stjörnur í þokunu, taldi hann að þær væru svo langt í burtu að stjörnurnar sjálfar sæust ekki. Tæknilega hafði hann rétt fyrir sér í mörgum tilfellum. En síðari tíma stjörnufræði hefur aðgreint stjörnuþokur í þrennt: Þéttar stjörnur, gasþokur og fjarlægar vetrarbrautir. Herschel skráði og kortlagði allar þessar stjörnuþokur. Til viðbótar reyndi hann að teikna upp lögun vetrarbrautarinnar. Auk Úranusar og tveggja stærstu tungla hans, uppgötvaði Herschel einnig tvö tungl í kringum Satúrnus. Þau kallaði hann Mímas og Enceladus. Þar með var Herschel eina persónan á 18. öld til að uppgötva ný tungl og sá fyrsti eftir Galíleó. Enn fremur var hann fyrsti maðurinn til að uppgötva árstíðaskipti á Mars, gufuhvolf á Venus og setti sólbletti í samhengi við veðurfar á jörðinni.

Annað markvert

[breyta | breyta frumkóða]
  • 1788 kvæntist William Herschel Mary Pitt, ekkju nágranna síns í Slough.
  • 1816 var Herschel sleginn til riddara fyrir störf sín og uppgötvanir.
  • 1817 var hann sæmdur riddarakrossi Guelph-reglunnar.
  • 1820 var Herschel kosinn forseti hins konunglega stjörnufræðifélags í Englandi.
  • Herschel var afkastamikið tónskáld og samdi m.a. 24 symfóníur, auk annarra konserta og kirkjutónlistar.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy