Íran
Íslamska lýðveldið Íran | |
جمهوری اسلامی ایران Jomhuri-ye Eslami-ye Iran | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Sjálfstæði, frelsi, íslamska lýðveldið (persneska: Esteghlâl, âzâdi, jomhoorie eslâmi) | |
Þjóðsöngur: Sorood-e Melli-e Jomhoori-e Eslami | |
Höfuðborg | Teheran |
Opinbert tungumál | persneska |
Stjórnarfar | Íslamskt lýðveldi
|
Leiðtogi | Ali Khamenei |
Forseti | Masoud Pezeshkian |
Stofnun | |
• Medaveldið | um 678 f.o.t. |
• Akkamenídar | 550 f.o.t. |
• Parþaveldið | 247 f.o.t. |
• Sassanídar | 224 |
• Buyídar | 934 |
• Safavídar | 1501 |
• Afsjarídar | 1736 |
• Zand-ætt | 1751 |
• Kadjar-veldið | 1796 |
• Pahlavi-ætt | 15. desember 1925 |
• Bylting | 11. febrúar, 1979 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
17. sæti 1.648.195 km² 1,63 |
Mannfjöldi • Samtals (2024) • Þéttleiki byggðar |
17. sæti 89.819.750 55/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2024 |
• Samtals | 1.855 millj. dala (19. sæti) |
• Á mann | 21.220 dalir (78. sæti) |
VÞL (2022) | 0.780 (78. sæti) |
Gjaldmiðill | íranskt ríal (ریال) (IRR) |
Tímabelti | UTC+3:30 (+4:30 á sumrin) |
Þjóðarlén | .ir |
Landsnúmer | +98 |
Íran (persneska ایران, opinbert heiti Íslamska lýðveldið Íran) er land í Mið-Austurlöndum með landamæri að Aserbaísjan, Armeníu og Túrkmenistan í norðri, Pakistan og Afganistan í austri, Tyrklandi og Írak í vestri og strandlengju að Persaflóa í suðri og Kaspíahafi í norðri. Íran er eina landið sem á bæði land að Kaspíahafi og Indlandshafi. Þótt landið hafi verið kallað Íran að minnsta kosti frá tímum Akkamenída var það allt til ársins 1935 nefnt gríska nafninu Persía á Vesturlöndum. Árið 1959 tilkynnti Múhameð Resa Pahlavi að bæði nöfnin skyldu notuð. Árið 1979 var gerð bylting í landinu sem leiddi til klerkastjórnar Ayatollah Khomeinis og stofnunar íslamska lýðveldisins Íran (جمهوری اسلامی ایران). Nafnið Íran þýðir „land aríanna“.
Eitt af elstu menningarríkjum heims, Elam, varð til í Íran og hóf að myndast um 3200 f.Kr. Árið 625 f.Kr. stofnuðu Medar hið fyrsta af mörgum keisaradæmum í sögu Írans og eftir það varð landið ríkjandi menningarlegt afl í sínum heimshluta. Það náði hátindi sínum með veldi Akkamenída sem Kýros mikli stofnaði um 550 f.Kr. Þá náði ríkið frá Indusdal í austri að Þrakíu og Makedóníu í vestri. Þetta heimsveldi hrundi í kjölfar landvinninga Alexanders mikla árið 330 f.Kr. Eftir það risu þar veldi Parþa og síðar Sassanída. Múslimar lögðu landið undir sig árið 651 og Íslam tók þá við af manikeisma og sóróisma sem ríkjandi trúarbrögð. Árið 1501 hófst veldi Safavída sem studdu tólfungaútgáfu íslam. Eftir persnesku stjórnarskrárbyltinguna 1906 var fyrsta þing Írans stofnað og þingbundin konungsstjórn tók við. Í kjölfar stjórnarbyltingar sem Bretar og Bandaríkjamenn studdu árið 1953 varð stjórn landsins í vaxandi mæli alræðisstjórn. Óánægja með stjórnina og erlend áhrif leiddi til írönsku byltingarinnar og stofnunar íslamsks lýðveldis árið 1979.
Íran býr yfir miklum olíuauðlindum og á stærstu gaslindir heims. Olíuiðnaður landsins stendur undir 15% af vergri landsframleiðslu og 45% af tekjum ríkisins. Landið er stofnaðili að Samtökum olíuframleiðsluríkja, Samtökum hlutlausra ríkja og Samtökum um íslamska samvinnu. Stjórnarfar landsins er blanda af lýðræði og klerkastjórn þar sem æðstiklerkur hefur mikil pólitísk áhrif. Íran er annað fjölmennasta ríki Mið-Austurlanda og 17. fjölmennasta ríki heims með tæplega 90 milljónir íbúa. Íran er fjölmenningarríki en Persar eru rúm 60% þjóðarinnar. Að auki búa þar Aserar, Kúrdar, Mazanderar og Lúrar.[1] Persneska er opinbert tungumál landsins og sjía íslam er ríkistrú.
Heiti
[breyta | breyta frumkóða]Heitið Íran kemur úr miðpersnesku, Ērān, sem kemur fyrst fyrir í áletrun í Naqsh-e Rostam, ásamt parþísku útgáfunni Aryān, sem heiti yfir Írana.[2] Ērān og Aryān eru óbeinar fleirtölumyndir þjóðaheitisins ēr- (miðpersneska) eða ary- (parþíska), sem eru dregin af frumíranska orðinu *arya- („arískur“, það er íranskur),[2][3] sem er talið dregið af frumindóevrópska oriðnu *ar-yo-, sem merkir „sá sem setur saman (af list)“.[4] Samkvæmt persneskri goðafræði er nafnið dregið af sagnkonunginum Iraj.[5] Heitið Íran er borið fram /ʔiːˈɾɒːn/ á nútímapersnesku.
Á Vesturlöndum var Íran þekkt sem „Persía“, vegna grískra sagnaritara sem kölluðu allt Íran Persis, sem merkir „land Persa“.[6][7][8][9] Heitið Persía er dregið af Farshéraði í suðvesturhluta Írans og er líka þekkt sem Pârs.[10][11] Persneska orðið Fârs (فارس) er dregið af eldri orðmynd, Pârs (پارس), sem aftur er dregin af Pârsâ (fornpersneska: 𐎱𐎠𐎼𐎿). Vegna hins sögulega mikilvægis héraðsins[12][13] varð Persía heiti alls landsins í grísku um 550 f.o.t.,[14] sem Vesturlandabúar tóku svo upp.[15][16] Þetta tók að breytast eftir 1935, þegar Reza Shah óskaði eftir því við alþjóðasamfélagið að nota heldur innlenda heitið Íran.[17] Íranar hafa kallað landið Íran að minnsta kosti frá 1000 f.o.t.[10] Í dag eru bæði heitin, Íran og Persía, notuð í almennu samhengi, en Íran er opinbera heitið.[18][19][20][21][22]
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Íran er eitt af elstu samfelldu menningarsvæðum heims, með borgir sem rekja sögu sína allt til 4000 f.o.t.[23] Vesturhluti írönsku hásléttunnar var ein af vöggum siðmenningar, fyrst með ríkinu Elam (3200-539 f.o.t.) og síðar með fleiri þjóðum, eins og Kassítum, Manneum og Gutium. Georg Wilhelm Friedrich Hegel hélt því fram að Persar væru „fyrsta sögulega þjóðin“.[24] Á járnöld varð íranska keisaraveldið til þegar Medar sameinuðu landið í eitt ríki árið 625 f.o.t.[25] Akkamenídar (550-330 f.o.t.) komust til valda undir Kýrosi mikla og stofnuðu stærsta ríki sem þá hafði verið til, og náði frá Balkanskaga til Norður-Afríku til Mið-Asíu. Á eftir þeim fylgdu Selevkídar, Parþar og Sassanídar, sem ríktu yfir Íran í næstum 1000 ár og gerðu landið að forysturíki að nýju. Erkióvinir Persíu á þeim tíma voru Rómaveldi og arftaki þess, Austrómverska ríkið.
Þrátt fyrir innrásir Makedóna, Araba, Tyrkja og Mongóla, hélt Íran í menningarlega og pólitíska sérstöðu sína. Innrás múslima (632-654) batt enda á yfirráð Sassanída og leiddi til íslamsvæðingar frá 8. öld til 10. aldar, samhliða hnignun sóróisma. Hið nýja ríki leit þó á sig sem arftaka hinna fyrri. Hirðingjaþjóðir gerðu innrásir í Íran á síðfornöld og árnýöld.[26] Íran varð aftur sjálfstætt ríki 1501 undir stjórn Safavída, sem gerðu sjía íslam að ríkistrú [27] og ollu þannig straumhvörfum í sögu íslams.[28] Undir stjórn þeirra varð Íran forysturíki á ný og átti í samkeppni við Tyrkjaveldi í vestri. Á 19. öld missti Íran lönd sín í Kákasus til Rússaveldis, eftir ósigra í stríðum Rússa og Persa.[29]
Íran var einveldi til 1979 þegar íranska byltingin var gerð og lýst yfir stofnun íslamsks lýðveldis.[30][31] Síðan þá hefur Íran gengið í gegn um miklar pólitískar, samfélagslegar og efnahagslegar breytingar. Stofnun íslamsks lýðveldis varð til þess að umbylta stjórnkerfi landsins, þar sem erkiklerkurinn Ayatollah Khomeini var æðsti leiðtogi. Utanríkisstefna Írans mótaðist af stríði Írans og Íraks 1980-1988, spennu í samskiptum við Bandaríkin og kjarnorkuáætlun Írans, sem olli deilum á alþjóðavettvangi.
Árið 1989 tók Akbar Rafsanjani við forsetaembættinu. Rafsanjani einbeitti sér að endurreisn efnahagslífsins án þess að hverfa frá markmiðum byltingarinnar. Hann studdi frjálsan markað og einkavæðingu ríkisfyrirtækja heima fyrir, og stillingu í alþjóðasamskiptum. Árið 1997 tók umbótasinninn Mohammad Khatami við. Khatami jók tjáningarfrelsi og samskipti við ríki í Asíu og Evrópu, studdi frjálsa markaði og erlendar fjárfestingar.
Í forsetakosningum 2005 komst popúlistinn og þjóðernissinninn Mahmoud Ahmadinejad til valda. Hann varð þekktur fyrir harðlínustefnu, kjarnorkuvæðingu og andúð á Ísrael, Sádi-Arabíu, Bretlandi, Bandaríkjunum og fleiri ríkjum. Hann var fyrsti forsetinn sem þurfti að svara fyrir embættisverk sín fyrir íranska þinginu.[32] Árið 2013 var umbótasinninn Hassan Rouhani kjörinn forseti. Hann hvatti til aukins persónufrelsis, upplýsingafrelsis og kvenfrelsis. Hann bætti samskipti Írans við önnur ríki.[33] Árið 2015 komst Íran að samkomulagi við fastafulltrúa Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að hætta framleiðslu auðgaðs úrans gegn afnámi viðskiptaþvingana.[34] Árið 2018 dró ríkisstjórn Donald Trumpov sig út úr samkomulaginu og hóf viðskiptaþvinganir að nýju. [35]
Árið 2020 myrti Bandaríkjaher íranska herforingjann Qasem Soleimani, annan valdamesta mann Írans,[36] sem jók mikið á spennu í samskiptum ríkjanna.[37] Íran gerði hefndarárás með flugskeytum á bandaríska herstöð í Írak[38] þar sem 110 særðust.[39][40][41] Í forsetakosningum 2021 var harðlínumaðurinn Ebrahim Raisi kjörinn. Hann jók framleiðslu á auðguðu úrani, hindraði eftirlit erlendra stofnana, gerði Íran að þátttakanda í ríkjasamstarfi SCO og BRICS, studdi Rússa eftir innrás Rússa í Úkraínu og endurreisti stjórnmálasamband við Sádi-Arabíu. Í apríl 2024 gerði Ísraelsher sprengjuárás á sendiráð Írans í Damaskus þar sem nokkrir létu lífið.[42][43] Íran gerði hefndarárás með ómönnuðum loftförum, flugskeytum og eldflaugum. Níu af þeim náðu skotmörkum í Ísrael.[44][45][46] Herir Vesturlanda og Jórdaníu aðstoðuðu Ísraelsher við að skjóta niður íranska dróna.[47][48] Þetta var mesta drónaárás sögunnar,[49] stærsta flugskeytaárás í sögu Írans,[50] fyrsta beina árás Írans á Ísrael[51][52] og fyrsta skiptið sem Ísrael varð fyrir beinni árás erlends ríkishers frá 1991.[53] Þetta var á sama tíma og spenna jókst vegna innrásar Ísraels á Gasaströndina. Í maí 2024 fórst Raisi í þyrluslysi. Í júní var fyrrum heilbrigðisráðherra, umbótasinninn Masoud Pezeshkian, kjörinn forseti.[54][55]
Stjórnsýslueiningar og borgir
[breyta | breyta frumkóða]Íran er skipt í fimm landshluta sem aftur skiptast í 31 fylki (ostān). Yfir hverju fylki er skipaður landstjóri (ostāndār). Fylkin skiptast í sýslur (shahrestān) sem aftur skiptast í umdæmi (bakhsh) og undirumdæmi (dehestān).
Íran er það land í heiminum þar sem þéttbýlisvæðing er hvað hröðust. Frá 1952 til 2002 óx hlutfall íbúa í þéttbýli úr 27% í 60%. Samkvæmt spá Sameinuðu þjóðanna munu 80% íbúa búa í þéttbýli árið 2030. Þær borgir sem vaxið hafa hraðast eru Teheran, Isfahan, Avaz og Qom. Íbúafjöldi í Teheran er um 8,1 milljón. Borgin er bæði efnahagsleg og stjórnsýsluleg höfuðborg landsins auk þess að vera miðstöð samskipta og fólksflutninga.
Önnur stærsta borg Írans er Mashhad með um 2,7 milljón íbúa. Hún er helg borg meðal sjíamúslima því þar er helgidómur Reza. Á milli 15 og 20 milljónir pílagríma heimsækja borgina árlega.
Þriðja stærsta borgin er Isfahan með um 1,7 milljón íbúa. Isfahan var höfuðborg Persaveldis Safavída og átti sitt blómaskeið á 17. og 18. öld. Þar er mikið af sögulegum minjum. Í Isfahan er ein stærsta verslunarmiðstöð heims, Isfahan City Center.
Fjórða stærsta borg landsins er iðnaðarborgin Karaj með um 1,6 milljón íbúa. Borgin stendur við rætur Alborzfjalla. Þar eru stórar verksmiðjur sem framleiða vefnaðarvöru, sykur, stálvíra og áfengi.
Tabriz er fimmta stærsta borg landsins með um 1,4 milljón íbúa. Borgin var fyrsta höfuðborg Safavída. Tabriz er önnur stærsta iðnaðarborg landsins á eftir Teheran og var önnur fjölmennasta borgin fram undir lok 7. áratugarins.
Sjötta stærsta borg Írans er Shiraz með um 1,4 milljón íbúa. Hún er höfuðborg Farsfylkis. Hún var höfuðborg landsins á valdatíma Zandættar frá 1750 til 1794. Rústir tveggja helstu borga Persaveldis, Persepólis og Pasargadae er að finna í nágrenni borgarinnar.
Landfræði
[breyta | breyta frumkóða]Íran er 18. stærsta land heims, 1.648.195 km² að stærð. Það liggur á milli 24. og 40. breiddargráðu norður og 44. og 64. lengdargráðu austur. Íran á landamæri að Aserbaísjan, Armeníu og útlendunni Naxcivan í norðvestri, Kaspíahafi og Túrkmenistan í norðri, Afganistan og Pakistan í austri og Tyrklandi og Írak í vestri. Landið á strönd að Persaflóa og Ómanflóa í suðvestri og suðri.
Íran liggur aðallega á Írönsku hásléttunni nema við Kaspíahaf og í héraðinu Khuzestan í vestri. Landið er eitt það fjalllendasta í heimi og margir fjallgarðar skipta hásléttunni upp. Flestir þeirra eru í vesturhlutanum sem jafnframt er þéttbýlasti hlutinn. Þar eru Kákasusfjöll, Zagrosfjöll og Alborzfjöll. Hæsti tindur Írans er Damavandfjall sem rís 5610 metra yfir sjávarmáli. Það er jafnframt hæsta fjall Evrasíu vestan við Hindu Kush.
Í norðurhluta Írans eru þéttir regnskógar, Hyrkaníuskógarnir. Í austurhlutanum eru aðallega eyðimerkur eins og salteyðimörkin Dasht-e Kavir. Þar er að finna saltstöðuvötn. Þar eru fjöllin svo há að regnský ná ekki yfir þau.
Einu stóru slétturnar er að finna við strönd Kaspíahafs og norðurströnd Persaflóa þar sem landamæri Írans og Íraks liggja við ána Arvand Rood. Minni sléttur er að finna við strönd Persaflóa, við Hormússund og Ómanflóa.
Dýralíf
[breyta | breyta frumkóða]Mörg stór spendýr finnast í Íran, þar á meðal bjarndýr, gasellur, villisvín, úlfar, sjakalar, hlébarðar, gaupur og refir. Íranskir bændur rækta hesta, kindur, geitur, vatnabuffla, asna og drómedara. Meðal fugla sem lifa í Íran eru fasanar, lynghænur, storkar, ernir og fálkar.
Eitt frægasta spendýr Írans er asíublettatígur sem er í bráðri útrýmingarhættu. Stofninn hrundi eftir írönsku byltinguna 1979. Persneskur hlébarði er stærsta undirtegund hlébarða og lifir aðallega í norðurhluta landsins. Hann er líka í útrýmingarhættu. Áður lifðu asíuljón og kaspíahafstígur í landinu en þeim var útrýmt snemma á 20. öld.
Að minnsta kosti 74 tegundir lífvera í Íran eru á rauðum lista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna. Iðnaðarþróun, vaxandi þéttbýli og námavinnsla ógna líffræðilegri fjölbreytni landsins. Íransþing hefur ítrekað heimilað nýtingu náttúruauðlinda án tillits til áhrifa þess á náttúru og dýralíf.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Iran“. The World Factbook. Central Intelligence Agency (United States). Sótt 24. maí 2018.
- ↑ 2,0 2,1 MacKenzie, David Niel (1998). „Ērān, Ērānڑahr“. Encyclopedia Iranica. 8. árgangur. Costa Mesa: Mazda. Afrit af uppruna á 13. mars 2017. Sótt 8. ágúst 2011.
- ↑ Schmitt, Rüdiger (1987). „Aryans“. Encyclopedia Iranica. 2. árgangur. New York: Routledge & Kegan Paul. bls. 684–687. Afrit af uppruna á 20. apríl 2019. Sótt 11. mars 2016.
- ↑ Laroche. 1957
- ↑ Shahbazi, Alireza Shapour (2004). „IRAJ“. Encyclopaedia Iranica. Afrit af uppruna á 24. febrúar 2024. Sótt 26. janúar 2024.
- ↑ Wilson, Arnold (2012). „The Middle Ages: Fars“. The Persian Gulf (RLE Iran A). Routledge. bls. 71. ISBN 978-1-136-84105-7.
- ↑ Borjian, Maryam; Borjian, Habib (2011). „Plights of Persian in the Modernization Era“. Í Fishman, Joshua A; García, Ofelia (ritstjórar). Handbook of Language and Ethnic Identity: Volume 2: The Success-Failure Continuum in Language and Ethnic Identity Efforts (enska). New York: Oxford University Press. bls. 266. ISBN 978-0-19-539245-6.
- ↑ Lewis, Geoffrey (1984). „The naming of names“. British Society for Middle Eastern Studies Bulletin. 11 (2): 121–124. doi:10.1080/13530198408705394. ISSN 0305-6139.
- ↑ Persia Geymt 15 júní 2022 í Wayback Machine, Encyclopædia Britannica
- ↑ 10,0 10,1 „Your Gateway to Knowledge“. Knowledge Zone (enska). Sótt 3. apríl 2024.
- ↑ „Fars Province, Iran“. Persia Advisor (bandarísk enska). Afrit af uppruna á 2. maí 2024. Sótt 2. maí 2024.
- ↑ Foundation, Encyclopaedia Iranica. „Welcome to Encyclopaedia Iranica“. iranicaonline.org (bandarísk enska). Afrit af uppruna á 10. apríl 2010. Sótt 3. apríl 2024.
- ↑ „Eight Thousand Years of History in Fars Province, Iran“. Research Gate. 12. maí 2005. Sótt 3. apríl 2024.
- ↑ „From Cyrus to Alexander : a history of the Persian Empire | WorldCat.org“. search.worldcat.org (enska). Afrit af uppruna á 3. apríl 2024. Sótt 3. apríl 2024.
- ↑ Austin, Peter (2008). One Thousand Languages: Living, Endangered, and Lost (enska). University of California Press. ISBN 978-0-520-25560-9.
- ↑ Dandamaev, M. A. (1989). A Political History of the Achaemenid Empire (enska). BRILL. ISBN 978-90-04-09172-6.
- ↑ „Persia Changes Its Name; To Be 'Iran' From Mar. 22“. The New York Times. 1. janúar 1935. Afrit af uppruna á 25. desember 2018. Sótt 26. desember 2018.
- ↑ „Persia or Iran, a brief history“. Art-arena.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. maí 2013. Sótt 21. júní 2013.
- ↑ Christoph Marcinkowski (2010). Shi'ite Identities: Community and Culture in Changing Social Contexts. LIT Verlag Münster. bls. 83. ISBN 978-3-643-80049-7. Sótt 21. júní 2013.
- ↑ Frye, Richard Nelson (október 1962). „Reitzenstein and Qumrân Revisited by an Iranian“. The Harvard Theological Review. 55 (4): 261–268. doi:10.1017/S0017816000007926. JSTOR 1508723. S2CID 162213219.
- ↑ Richard Frye (2012). Persia (RLE Iran A). Routledge. bls. 13. ISBN 978-1-136-84154-5. Sótt 21. júní 2013.
- ↑ Farrokh, Kaveh. Shadows in the Desert: Ancient Persia at War. ISBN 1-84603-108-7
- ↑ People, "New evidence: modern civilization began in Iran", 10 Aug 2007 Geymt 24 febrúar 2021 í Wayback Machine, sótt 1. október 2007
- ↑ Azadpour, M. „HEGEL, GEORG WILHELM FRIEDRICH“. Encyclopædia Iranica. Afrit af uppruna á 11. apríl 2015. Sótt 11. apríl 2015.
- ↑ https://www.britannica.com/ebc/article-9371723 Geymt 29 apríl 2008 í Wayback Machine Encyclopædia Britannica Concise Encyclopedia Article: Media
- ↑ Baten, Jörg (2016). A History of the Global Economy. From 1500 to the Present. Cambridge University Press. bls. 214. ISBN 978-1-107-50718-0.
- ↑ R. M. Savory, "Safavids", Encyclopedia of Islam, 2nd edition
- ↑ "The Islamic World to 1600", Applied History Research Group, University of Calgary, 1998 Geymt 12 júní 2008 í Wayback Machine, sótt 1. október 2007
- ↑ Dowling, Timothy C. (2014). Russia at War: From the Mongol Conquest to Afghanistan, Chechnya, and Beyond. 2 volumes (enska). ABC-CLIO. bls. 728–729. ISBN 978-1-59884-948-6.
- ↑ "Iran Islamic Republic", Geymt 16 mars 2006 í Wayback Machine, Encyclopædia Britannica, sótt 23. janúar 2008
- ↑ „International relations / The Iranian revolution“. Encyclopædia Britannica. 23. janúar 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. desember 2007. Sótt 26. september 2024.
- ↑ „Ahmadinejad critic Larijani re-elected Iran speaker“. BBC News (bresk enska). 5. júní 2012. Afrit af uppruna á 10. maí 2024. Sótt 10. maí 2024.
- ↑ Borger, Julian; Dehghan, Saeed Kamali (19. september 2013). „Hassan Rouhani sets out his vision for a new and free Iran“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Afrit af uppruna á 12. nóvember 2023. Sótt 10. maí 2024.
- ↑ Kutsch, Tom (14. júlí 2015). „Iran, world powers strike historic nuclear deal“. Aljazeera America. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. júlí 2015. Sótt 15. júlí 2015.
- ↑ Brewer, Eric (25. júní 2024). „Iran's New Nuclear Threat“. Foreign Affairs (bandarísk enska). ISSN 0015-7120. Sótt 2. júlí 2024.
- ↑ „U.S. killing of Iran's second most powerful man risks regional conflagration“. Reuters. 4. janúar 2020. Afrit af uppruna á 18. apríl 2024. Sótt 7. maí 2024.
- ↑ Carolien Roelants, Iran expert of NRC Handelsblad, in a debate on Buitenhof on Dutch television, 5 January 2020.
- ↑ Never-before-seen video of the attack on Al Asad Airbase (enska), 28. febrúar 2021, afrit af uppruna á 23. febrúar 2022, sótt 8. janúar 2024
- ↑ „109 US troops diagnosed with brain injuries from Iran attack“. Al Jazeera (enska). Afrit af uppruna á 7. apríl 2024. Sótt 7. apríl 2024.
- ↑ „Pentagon admits 109 brain injuries in Iran attack – DW – 02/10/2020“. dw.com (enska). Afrit af uppruna á 7. apríl 2024. Sótt 7. apríl 2024.
- ↑ Starr, Barbara (10. febrúar 2020). „Over 100 US troops have been diagnosed with traumatic brain injuries following Iran strike | CNN Politics“. CNN (enska). Afrit af uppruna á 7. apríl 2024. Sótt 7. apríl 2024.
- ↑ „Several killed in Israeli strike on Iranian consulate in Damascus“. Al Jazeera (enska). Afrit af uppruna á 30. apríl 2024. Sótt 1. maí 2024.
- ↑ „Israeli strike on Iran's consulate in Syria killed 2 generals and 5 other officers, Iran says“. AP News (enska). 1. apríl 2024. Afrit af uppruna á 19. apríl 2024. Sótt 1. maí 2024.
- ↑ center, This aerial view shows Tel Aviv's Ben Gurion International Airport in the; April 5, the surrounding urban areas in Lodin central Israel on; Images, 2024-ROY ISSA/AFP via Getty (15. apríl 2024). „How Iran's attack on Israel is disrupting air traffic – Al-Monitor: Independent, trusted coverage of the Middle East“. www.al-monitor.com (enska). Afrit af uppruna á 1. maí 2024. Sótt 1. maí 2024.
- ↑ Toossi, Sina (2. maí 2024). „Iran Has Defined Its Red Line With Israel“. Foreign Policy (bandarísk enska). Afrit af uppruna á 1. maí 2024. Sótt 1. maí 2024.
- ↑ „What was in wave of Iranian attacks and how were they thwarted?“ (bresk enska). 14. apríl 2024. Afrit af uppruna á 14. apríl 2024. Sótt 1. maí 2024.
- ↑ Borger, Julian (14. apríl 2024). „US and UK forces help shoot down Iranian drones over Jordan, Syria and Iraq“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Afrit af uppruna á 14. apríl 2024. Sótt 1. maí 2024.
- ↑ „Macron: France intercepted Iranian drones 'at Jordan's request'“. POLITICO (bresk enska). 15. apríl 2024. Afrit af uppruna á 15. apríl 2024. Sótt 1. maí 2024.
- ↑ „The largest drone attack in history“. iranpress.com (enska). Sótt 1. maí 2024.
- ↑ Motamedi, Maziar. „'True Promise': Why and how did Iran launch a historic attack on Israel?“. Al Jazeera (enska). Afrit af uppruna á 14. apríl 2024. Sótt 1. maí 2024.
- ↑ „Iran launches first-ever direct attack on Israel“. ABC7 New York (enska). 13. apríl 2024. Afrit af uppruna á 1. maí 2024. Sótt 1. maí 2024.
- ↑ „How Israel could respond to Iran's drone and missile assault“. France 24 (enska). 18. apríl 2024. Afrit af uppruna á 1. maí 2024. Sótt 1. maí 2024.
- ↑ Johny, Stanly (14. apríl 2024). „Analysis | By attacking Israel, Iran turns shadow war into direct conflict“. The Hindu (Indian English). ISSN 0971-751X. Afrit af uppruna á 14. apríl 2024. Sótt 1. maí 2024.
- ↑ „Masoud Pezeshkian, a heart surgeon who rose to power in parliament, now Iran's president-elect“. AP News (enska). 6. júlí 2024. Sótt 6. júlí 2024.
- ↑ Fassihi, Farnaz; Vinograd, Cassandra (6. júlí 2024). „Reformist Candidate Wins Iran's Presidential Election“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 6. júlí 2024.