Content-Length: 306154 | pFad | http://is.wikipedia.org/wiki/S%C3%A1d%C3%AD-Arab%C3%ADa

Sádi-Arabía - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Sádi-Arabía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sádí-Arabía)
Konungsríkið Sádi-Arabía
المملكة العربية السعودية
al-Mamlakah al-ʿArabīyah as-Saʿūdīyah
Fáni Sádi-Arabíu Skjaldarmerki Sádi-Arabíu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Það er enginn guð nema Guð; Múhameð er spámaður Guðs (trúarjátning múslima)
Þjóðsöngur:
an-Našīd al-Waṭanī as-Saʻūdī
Staðsetning Sádi-Arabíu
Höfuðborg Ríad
Opinbert tungumál arabíska
Stjórnarfar Konungsríki

Konungur Salman bin Abdul Aziz al-Sád
Forsætisráðherra Múhameð bin Salman
Sameining
 • Stofnun 23. september 1932 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
15. sæti
2.149.690 km²
0,7
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
40. sæti
33.000.000
14/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 1.924 millj. dala (14. sæti)
 • Á mann 56.817 dalir (12. sæti)
VÞL (2017) 0.853 (38. sæti)
Gjaldmiðill sádiarabískt ríal (SAR)
Tímabelti UTC+3
Þjóðarlén .sa
Landsnúmer +966

Sádi-Arabía (arabíska: السعودية‎ as-Saʿūdīyah) er konungsríki í Vestur-Asíu sem nær yfir stærstan hluta Arabíuskagans. Landið er um það bil 2.150.000 km² að stærð, stærsta ríki Mið-Austurlanda, annað stærsta Arabaríkið (á eftir Alsír), fimmta stærsta land Asíu og það tólfta stærsta í heimi. Sádi-Arabía á landamæri að Írak, Jórdaníu, Kúveit, Óman, Katar, Barein, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Jemen. Akabaflói skilur milli Sádi-Arabíu og Ísraels og Egyptalands. Sádi-Arabía er eina ríkið með strönd að bæði Persaflóa og Rauðahafi. Stærstur hluti af landi Sádi-Arabíu er eyðimörk. Í október 2018 var hagkerfi Sádi-Arabíu það stærsta í Mið-Austurlöndum og það 18. stærsta í heimi. Íbúar voru taldir vera um 33 milljónir árið 2018 og eru með þeim yngstu í heimi þar sem helmingur er undir 25 ára aldri.

Þar sem Sádi-Arabía er nú hafa risið nokkur forn menningarríki. Þar hafa fundist einhver elstu merki um menn í heimi. Önnur útbreiddustu trúarbrögð heims, íslam, urðu til þar sem Sádi-Arabía stendur. Snemma á 7. öld hóf Múhameð spámaður að sameina ættbálka Arabíu í eitt trúfélag. Eftir lát hans 632 tóku fylgjendur hans til við að stækka yfirráðasvæði múslima út fyrir Arabíuskagann og lögðu undir sig gríðarstórt landsvæði sem náði frá Íberíuskaganum í vestri til þess sem í dag er Pakistan í austri á nokkrum áratugum. Í Sádi-Arabíu komu upp kalífadæmin fjögur, Rasídúnar (632-661), Úmajadar (661-750), Abbasídar (750-1517) og Fatímídar (909-1171) auk fjölda annarra konungsætta sem ríktu yfir hlutum Asíu, Afríku og Evrópu.

Þar sem Sádi-Arabía er nú voru lengst af fjögur héruð, Hejaz, Najd og hlutar Austur-Arabíu (Al-Ahsa) og Suður-Arabíu ('Asir). Konungsríkið Sádi-Arabía var stofnað árið 1932 af Abdul-Aziz bin Sád (sem er betur þekktur sem Ibn Sád á Vesturlöndum). Hann sameinaði héruðin fjögur í eitt ríki með röð landvinninga frá því hann lagði Ríad undir sig árið 1902. Síðan þá hefur Sád-ætt farið með alræðisvald í konungsríkinu sem er ættarveldi skipulagt samkvæmt íslömskum lögum. Hinn íhaldssami wahhabismi er ríkjandi útgáfa súnní íslam í Sádi-Arabíu og hefur verið kallaður „helsta einkenni menningar Sádi-Arabíu“. Útbreiðsla wahhabisma um hinn íslamska heim hefur verið drifin áfram af tekjum af olíu- og gasvinnslu í Sádi-Arabíu. Sádi-Arabía er stundum nefnt „land hinna tveggja heilögu moskna“ og er þá átt við moskurnar Al-Masjid al-Haram í Mekka og Al-Masjid an-Nabawi í Medina, sem eru tveir helgustu staðir íslam. Arabíska er opinbert tungumál ríkisins.

Hráolía uppgötvaðist í landinu 3. mars 1938 og síðan þá hefur Sádi-Arabía verið annar mesti olíuframleiðandi í heimi (á eftir Bandaríkjunum) og mesti olíuútflytjandi heims. Landið ræður yfir stærstu olíubirgðum og sjöttu stærstu gasbirgðum heims. Um 90% af útflutningi Sádi-Arabíu er olía og tekjur af sölu olíu eru um 75% af landsframleiðslu. Ghawar er talin vera stærsta olíulind heimsins, áætlað er að um ¼ af þeirri olíu sem notuð er í dag komi þaðan. Heimsbankinn flokkar landið sem hátekjuland með háa vísitölu um þróun lífsgæða. Landið er eina Arabaríkið sem er eitt af 20 helstu iðnríkjum heims. Stjórnvöld þar hafa meðal annars sætt gagnrýni fyrir réttleysi kvenna, óhóflega notkun dauðarefsinga, ofsóknir á hendur trúarlegum minnihlutahópum og trúleysingjum, hlutverk sitt í borgarastyrjöldinni í Jemen, stuðning við íslamska öfgamenn og stranga beitingu sjaríalaga. Sádi-Arabía er í þriðja sæti yfir lönd eftir eyðslu til hermála og, samkvæmt Stockholm International Peace Research Institute, annar stærsti vopnakaupandi heims frá 2010 til 2014. Sádi-Arabía er stórveldi í sínum heimshluta. Það er forysturíki í Persaflóasamstarfsráðinu og OPEC, samtökum olíuframleiðsluríkja.

Eftir sameiningu konungsríkjanna Nejd og Hejaz var nýja ríkið nefnt المملكة العربية السعودية (al-Mamlakah al-ʻArabīyah as-Suʻūdīyah) á arabísku með konunglegri tilskipun þann 23. september 1932 sem var undirrituð af stofnanda ríkisins Ibn Sád. Þetta er venjulega þýtt sem „konungsríkið Sádi-Arabía“ en þýðir bókstaflega „arabíska sádíska konungsríkið“.

Lýsingarorðið as-Suʻūdīyah er nisba eða lýsingarorð sem vísar til uppruna. Það er dregið af ættarnafni konungsfjölskyldunnar al Sád og vísar til þess að ríkið er persónuleg eign konungsættarinnar. Upprunalega kemur nafn ættarinnar frá Sád ibn Múhameð ibn Muqrin sem lést árið 1725. Fyrstur til að taka það upp sem ættarnafn var sonur hans, Múhameð bin Sád, sem tók við völdum árið 1726.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Sádi-Arabía nær yfir um það bil 80% af Arabíuskaganum (sem er stærsti skagi heims) og liggur milli 16. og 33. gráðu norðlægrar breiddar og 34. og 56. austlægrar lengdar. Þar sem suðurlandamæri landsins við Sameinuðu arabísku furstadæmin og Óman eru ekki nákvæmlega skilgreind er stærð landsins óskilgreind. CIA World Factbook áætlar að hún sé 2.149.690 km² og setur landið í 13. sæti yfir stærstu lönd heims. Sádi-Arabía er stærsta ríkið á Arabíuflekanum.

Landslag í Sádi-Arabíu einkennist helst af Arabísku eyðimörkinni, hálfeyðimörkum og kjarrlendi, auk nokkurra fjallgarða og hásletta. Eyðimörkin er í raun samhangandi net margra eyðimarka. Þar á meðal er Rub' al Khali, 647.500 km² að stærð, í suðausturhluta landsins. Rub' al Khali er stærsta samfellda sandeyðimörk heims. Í landinu eru nokkur vötn en engar ár sem renna árið um kring. Flóðdalir, wadi, eru aftur á móti mjög margir. Frjósöm svæði er að finna í vatnsfarvegum, í wadi-dölum, vatnsgrunnum og vinjum. Stærstur hluti landsins er miðhálendið sem rís bratt upp af Rauðahafi og lækkar svo aflíðandi í átt að Nejd og Persaflóa. Við strönd Rauðahafsins er strandslétta, Tihamah, og meðfram henni endilangri hátt hæðardrag. Suðvesturhéraðið Asir er fjalllent og þar er að finna hæsta fjall landsins, Jabal Sawda, sem rís 3.133 metra yfir sjávarmál.

Fyrir utan Asir er loftslag í Sádi-Arabíu eyðimerkurloftslag með mjög háum hita yfir daginn sem fellur hratt þegar nóttin skellur á. Meðalsumarhiti er um 45°C en hitinn getur náð allt að 54°C. Á veturna fer hitinn sjaldan niður fyrir frostmark. Á vorin og haustin er hitinn tempraðri, um 29°C. Úrkoma er mjög lítil. Héraðið Asir sker sig úr þar sem þar gætir áhrifa monsúnrigninga á Indlandshafi sem venjulega standa yfir frá október og fram í mars. Á þeim tíma er meðalúrkoma 300 mm, sem er 60% af heildarúrkomu í landinu.

Arabísk spjótantilópa lifir villt í eyðimörkunum en er nú í útrýmingarhættu.

Meðal villtra dýra sem lifa í Sádi-Arabíu eru arabíuhlébarði, arabíuúlfur, randahýena, mongús, bavíani, eyðimerkurhéri, sandköttur og stökkmús. Stór dýr á borð við gasellur, spjótantilópur, hlébarða og blettatígra voru tiltölulega algeng fram á 19. öld þegar þeim var nær útrýmt með veiðum. Meðal fugla sem lifa í Sádi-Arabíu eru fálkar (sem eru þjálfaðir til veiða), ernir, haukar, gammar, spjátrur og glymir. Nokkrar tegundir snáka lifa þar, margar hverjar eitraðar. Í sjónum kringum landið er fjölbreytt lífríki, sérstaklega í Rauðahafi þar sem yfir 1200 tegundir fiska hafa fundist og um 10% þeirra finnast hvergi annars staðar. Þar á meðal eru 42 tegundir djúpsjávarfiska.

Líffjölbreytni Rauðahafsins er meðal annars vegna 2.000 km af kóralrifjum sem liggja meðfram strönd Sádi-Arabíu. Þessi jaðarrif eru 5-7000 ára gömul. Rifin eru aðallega mynduð úr Acropora- og Porites-kóröllum. Rifin mynda flasir og stundum lón meðfram ströndinni auk pytta, eins og Bláu holuna við Dahab. Úthafsfiskar, þar á meðal 44 tegundir af hákörlum, heimsækja þessi rif frá Rauðahafinu. Í Rauðahafinu eru líka nokkur úthafsrif, þar á meðal eiginleg hringrif. Margar óvenjulegar rifmyndanir á djúpsævi stangast á við hefðbundin flokkunarkerfi kóralrifja og eru venjulega talin stafa af jarðflekahreyfingum á svæðinu.

Meðal húsdýra sem ræktuð eru í landinu eru arabískur hestur, drómedari, kindur, geitur, kýr, asnar, hænur o.s.frv. Vegna eyðimerkurloftslagsins einkennist flóra landsins af jurtum sem þurfa lítið vatn. Döðlupálmi er útbreiddur.

Stjórnsýsluskipting

[breyta | breyta frumkóða]

Sádi-Arabía skiptist í 13 héruð (manatiq idāriyya; mintaqah idariyya í eintölu). Héruðin skiptast aftur í 118 umdæmi (muhafazat; muhafazah í eintölu). Inni í þeirri tölu eru höfuðstaðir héraðanna sem hafa sérstöðu sem sveitarfélög (amanah) undir stjórn borgarstjóra (amin). Umdæmin skiptast síðan í undirumdæmi (marakiz; markaz í eintölu).

Hvert hérað (áður nefnd sýslur, nú líka nefnd emíröt) hafa landstjóra með ráðherratitil sem heyrir beint undir innanríkisráðherra. Landstjórinn situr í forsæti héraðsráðsins þar sem helmingur meðlima er skipaður af ríkisstjórninni og helmingur kjörinn til fimm ára í senn. Hlutverk héraðsráðanna er félagsleg, efnahagsleg og skipulagsleg þróun héraðanna og að útfæra opinbera þjónustu, vera ráðgefandi fyrir og hafa yfirumsjón með stjórnum sem undir þau heyra, verja eigur ríkisins og gegna hlutverki milliliðar milli ríkisstjórnarinnar og sveitarstjórna.

Nr. á korti Opb. nr. Nafn Höfuðstaður Stærð (km2) Íbúar
1 13 Al Jouf (eða Al Jawf) Sakakah 100.212 449.009
2 09 Norðurmærahérað Arar 111.797 320.524
3 07 Tabouk Tabouk 146.076 791.535
4 08 Hail Ha'il 103.887 597.144
5 03 Madinah Medina 151.900 1.777.933
6 04 Qasim Buraidah 58.046 1.215.858
7 02 Makkah Mekka 153.148 6.915.006
8 01 Ríad Ríad 404.240 6.777.146
9 05 Austurhérað Sádi-Arabíu Dammam 672.522 4.105.780
10 12 Baha Al Bahah 9.921 411.888
11 06 Asir Abha 81.000 2.188.461
12 10 Jizan Jizan 11.671 1.365.110
13 11 Najran Najran 149.511 505.652

Stærstu borgir

[breyta | breyta frumkóða]
Listi yfir stærstu borgir í Sádi-Arabíu
Sæti Nafn Hérað Íbúar
1 Ríad Ríad 6.506.700
3 Jeddah Makkah 3.976.400
2 Mekka Makkah 1.919.900
4 Medina Madinah 1.271.800
5 Hofuf Austurhérað Sádi-Arabíu 1.136.900
6 Ta'if Makkah 1.109.800
7 Dammam Austurhérað Sádi-Arabíu 975.800
8 Buraidah Al-Qassim 658.600
9 Khobar Austurhérað Sádi-Arabíu 626.200
10 Tabuk Tabuk 609.000
Miðast við gögn frá 2013-2016.
Arabískt kaffi er hefðbundinn drykkur í Sádi-Arabíu.

Sádiarabísk matargerð er svipuð arabískri matargerð nágrannalandanna og í Arabaheiminum almennt. Hún hefur í gegnum söguna orðið fyrir áhrifum frá tyrkneskri, indverskri, persneskri og afrískri matargerð. Íslamskar matarreglur eru haldnar; svínakjöt er bannað og annað kjöt er eingöngu leyft af dýrum sem er slátrað í samræmi við halal. Kebab og falafel er vinsælt, auk shawarma, sem er marinerað og grillað lamba-, kinda- eða hænsnakjöt. Meðal þjóðarrétta er machbūs (kabsa), hrísgrjónaréttur með lambakjöti, kjúkling, rækjum eða fiski. Mandi er líka algengur réttur. Tabúnbrauð (steikt flatbrauð) er algengt meðlæti með öllum mat en auk þess döðlur, ferskir ávextir, jógúrt og húmmus. Arabískt kaffi er hefðbundinn drykkur en te og ávaxtasafi eru líka vinsælir drykkir. Elstu heimildir um kaffidrykkju eru frá súfistaklaustrum Arabíu á 15. öld.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Knattspyrna er þjóðaríþrótt Sádi-Arabíu. Landslið Sádi-Arabíu í knattspyrnu karla er talið eitt af sterkustu landsliðum Asíu. Þeir hafa sex sinnum komist í úrslit Asíubikarsins og þrisvar unnið (1984, 1988 og 1996). Þeir hafa auk þess áunnið sér þátttökurétt í Heimsmeistaramótinu fjórum sinnum frá 1994. Undir stjórn Jorge Solari sigraði liðið Belgíu og Marokkó í riðlakeppninni en tapaði fyrir Svíþjóð í 16-liða úrslitum í mótinu 1994. Árið 1993 hélt Sádi-Arabía Fahd-bikarinn, sem síðar varð Sambandsbikar FIFA, og komst þá í úrslitaleikinn þar sem liðið tapaði fyrir Argentínu.

Aðrar vinsælar íþróttir í Sádi-Arabíu eru sportköfun, seglbrettasiglingar og kappsiglingar. Körfuknattleikur er líka vinsæll og Sádi-Arabía náði bronsverðlaunum í Asíuleikunum 1999. Vinsælar hefðbundnar íþróttir eru kappreiðar og úlfaldakappreiðar. Á veturna er keppt í skeiðhöll í Riyadh. Úlfaldakappreiðar konungsins eru einn mikilvægasti íþróttaviðburður ársins. Þær hafa verið haldnar árlega frá 1973. Hefðbundnar fálkaveiðar eru enn stundaðar.

Trúaryfirvöld í Sádi-Arabíu hafa staðið gegn þátttöku kvenna í íþróttum og þeim hömlum hefur verið aflétt að litlu leyti síðustu ár. Til ársins 2018 fengu konur ekki aðgang að íþróttavöllum. Á þremur leikvöngum í helstu borgum landsins hafa nú verið settar upp sérstakar aðskildar sætaraðir fyrir konur.

  • „Hvernig er þjóðfélagsástandið í Sádí-Arabíu?“. Vísindavefurinn.
  • Saudi Arabar skrúfa frá olíukrana sínum, frétt 27. febrúar 2012
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: http://is.wikipedia.org/wiki/S%C3%A1d%C3%AD-Arab%C3%ADa

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy