Fara í innihald

Sumarólympíuleikarnir 1988

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
24. sumarólympíuleikarnir
Bær: Seúl, Suður-Kóreu
Þátttökulönd: 160
Þátttakendur: 8.453
(6.250 karlar, 2.203 konur)
Keppnir: 237 í 23 greinum
Hófust: 17. september 1988
Lauk: 2. október 1988
Settir af: Roh Tae-woo forseta
Íslenskur fánaberi: Bjarni Friðriksson

Sumarólympíuleikarnir 1988 voru haldnir í Seúl í Suður-Kóreu frá 17. september til 2. október.

Aðdragandi og skipulag

[breyta | breyta frumkóða]

Ákvörðunin um staðsetningu leikanna var tekin á árinu 1981. Auk Seúl sóttist japanska borgin Nagoya eftir gestgjafahlutverkinu. Japanska framboðið var talið mun sigurstranglegra og kom því verulega á óvart þegar Seúl fékk nálega tvöfalt fleiri atkvæði í kosningunni. Í aðdraganda leikanna hélt Seúl Asíuleikana árið 1986 sem hálfgerða generalprufu.

Skipuleggjendur fengu á sig nokkra gagnrýni þegar fréttist að borgaryfirvöld í Seoul höfðu látið flytja í burtu hópa heimilisleysingja og annarra sem taldir voru skaðlegir fyrir ímynd borgarinnar og halda þeim nauðugum á vistheimilum meðan á mótinu stóð. Óttast var að hópur kommúnistaríkja myndu sniðganga leikana líkt og gerst hafði fjórum árum fyrr. Þegar til kom ákváðu flest þeirra þó að taka þátt. Norður-Kóreumenn gerðu kröfu um að fá að halda hluta leikanna en þegar ekki var orðið við þeim óskum ákvað ríkið að mæta ekki til keppni. Sama gerðu Kúbanir, Albanir og Eþíópíumenn í samstöðuskyni.

Keppnisgreinar

[breyta | breyta frumkóða]

Keppt var í 237 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Einstakir afreksmenn

[breyta | breyta frumkóða]

Gríðarleg eftirvænting var fyrir 100 metra hlaup karla þar sem Ben Johnson frá Kanada kom í mark á glæsilegu heimsmeti, 9,79 sekúndum. Fögnuðurinn dofnaði hins vegar þegar í ljós kom að Johnson féll á lyfjaprófi, en flestir keppendurnir í úrslitahlaupinu áttu síðar eftir að gera slíkt hið sama.

Fimleikakonan Daniela Silivaş frá Rúmeníu vann til þrennra gullverðlauna og jafnaði met löndu sinnar Nadiu Comăneci sem hlotið hafði fullkomna 10 í fimleikakeppni ÓL árið 1976.

Dýfingakappinn Greg Louganis frá Bandaríkjunum varði tvöföld gullverðlaun sín frá fyrri leikum. Fyrr í keppninni rak hann höfuðið í stökkbrettið, missti meðvitund og var óttast að hann hefði stórslasast.

Christa Luding-Rothenburger frá Austur-Þýskalandi vann silfurverðlaun í hjólreiðum en fyrr á árinu hafði hún unnið til verðlauna í skautahlaupi á vetrarleikunum í Calgary. Samlanda hennar, Kristin Otto, hlaut flest gullverðlaun á leikunum - fimm talsins - í sundi.

Hafnabolti og taekwondo voru sýningargreinar á leikunum. Vinsældir síðarnefndu greinarinnar voru miklar og öðlaðist hún síðar stöðu fullgildrar Ólympíuíþróttar. Einnig var í fyrsta sinn keppt í kvennaflokki í júdó sem sýningargrein.

Tennis var meðal keppnisíþrótta í fyrsta sinn í 64 ár. Steffi Graf frá Vestur-Þýskalandi varð hlutskörpust eftir að hafa áður unnið öll fjögur risamótin í greininni á árinu.

Handknattleikskeppni ÓL 1988

[breyta | breyta frumkóða]

Með góðum árangri á HM í Sviss 1986, tryggði Ísland sér þátttökurétt á leikunum í Seoul og voru miklar vonir bundnar við góðan árangur. Styrkleikalisti Alþjóðahandknattleikssambandsins setti Ísland í fjórða sæti heimslistans skömmu fyrir leikana. Tólf lið kepptu í tveimur riðlum og var riðill Íslands ógnarsterkur.

Fyrstu tvær viðureignir liðsins voru gegn lökustu andstæðingunum, Alsír og Bandaríkjunum. Unnust þeir leikir auðveldlega. Íslendingar reyndust Svíum lítil fyrirstaða í þriðja leiknum. Því næst fylgdi jafntefli gegn Júgóslövum, með jöfnunarmarki á lokasekúndunni. Sovétmenn reyndust svo of stór biti í lokaleik riðilsins.

Andstæðingar Íslands í leiknum um sjöunda sætið voru Austur-Þjóðverjar og hefði sigur tryggt sæti á HM í Tékkóslóvakíu 1990. Leikurinn varð sögulegur. Eftir tvær framlengingar var staðan 28:28, en Þjóðverjarnir höfðu betur í vítakeppni.

Sovéska landsliðið varð Ólympíumeistari með talsverðum yfirburðum, vann allar viðureignir sínar með nokkrum mun. Suður-Kórea hlaut silfurverðlaunin en Júgóslavar bronsið.

Þátttaka Íslendinga á leikunum

[breyta | breyta frumkóða]

Auk handknattleikslandsliðsins, sendu Íslendingar sautján íþróttamenn til Seoul: sjö frjálsíþróttamenn, sex sundmenn, tvo júdókappa og tvo kappsiglingarmenn.

Eðvarð Þór Eðvarðsson náði bestum árangri sundmanna, varð sautjándi í 100 metra baksundi.

Uppskeran í frjálsíþróttakeppninni olli vonbrigðum. Íslendingar áttu á að skipa góðum keppendum í kastgreinum, s.s. kringlukastaranum Vésteini Hafsteinssyni, Kúluvarparanum Pétri Guðmundssyni og spjótkösturunum Vilhjálmi Einarssyni og Sigurði Einarssyni. Þeir voru allir nokkuð frá sínu besta. Einar varð þrettándi og Pétur fjórtándi.

Verðlaunaskipting eftir löndum

[breyta | breyta frumkóða]
Nr Lönd Gull Silfur Brons Alls
1 Sovétríkin 55 31 46 132
2 Austur-Þýskaland 37 35 30 102
3 Fáni Bandaríkjana Bandaríkin 36 31 27 94
4 Fáni Suður-Kóreu Suður-Kórea 12 10 11 33
5 Fáni Þýskalands Vestur-Þýskaland 11 14 15 40
6 Fáni Ungverjalands Ungverjaland 11 6 6 23
7 Búlgaría 10 12 13 35
8 Fáni Rúmeníu Rúmenía 7 11 6 24
9  Frakkland 6 4 6 16
10 Fáni Ítalíu Ítalía 4 4 4 14
11  Kína 5 11 12 28
12  Bretland 5 10 9 24
13 Kenýa 5 2 2 9
14  Japan 4 3 7 14
15  Ástralía 3 6 5 14
16 Júgóslavía 3 4 5 12
17 Tékkóslóvakía 3 3 2 8
18 Nýja Sjáland 3 2 8 13
19  Kanada 3 2 5 10
20 Pólland 2 5 9 16
21  Noregur 2 3 0 5
22 Holland 2 2 5 9
23  Danmörk 2 1 1 4
24  Brasilía 1 2 3 6
25  Finnland 1 1 2 4
Spánn 1 1 2 4
27 Tyrkland 1 1 0 2
28 Marokkó 1 0 2 3
29  Austurríki 1 0 0 1
Portúgal 1 0 0 1
Súrinam 1 0 0 1
32  Svíþjóð 0 4 7 11
33  Sviss 0 2 2 4
34 Jamæka 0 2 0 2
35 Argentína 0 1 1 2
36 Síle 0 1 0 1
Kosta Ríka 0 1 0 1
Indónesía 0 1 0 1
Íran 0 1 0 1
Hollensku Antillaeyjar 0 1 0 1
Perú 0 1 0 1
Senegal 0 1 0 1
Bandarísku Jómfrúaeyjar 0 1 0 1
44 Belgía 0 0 2 2
Mexíkó 0 0 2 2
46 Kólumbía 0 0 1 1
Djíbútí 0 0 1 1
Grikkland 0 0 1 1
Mongólía 0 0 1 1
Pakistan 0 0 1 1
Filippseyjar 0 0 1 1
Tæland 0 0 1 1
Alls 241 234 264 739
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy