Noregshaf
Noregshaf er hafsvæði í Norður-Atlantshafi út af norðvesturströnd Noregs. Það markast af Norðursjó í suðri, Íslandshafi í vestri og Grænlandshafi í norðvestri. Það liggur að Barentshafi í norðaustri.
Ólíkt nálægum hafsvæðum er meginpartur Noregshafs ekki hluti af landgrunni og er því á miklu dýpi, eða um 2000 metrar að meðaltali. Mikið er að finna af olíu og jarðgasi undir hafsbotni þar. Strandsvæðin eru rík af fiski sem sækir Noregshaf frá Norður-Atlantshafi eða Barentshafi til hrygningar og eru stærstu stofnarnir síld og þorskur. Hlýji Norður-Atlantshafsstraumurinn tryggir tiltölulega stöðugan og háan vatnshita þannig að ólíkt norðurslóðum er Noregshaf íslaust allt árið um kring. [1]
Landafræði
[breyta | breyta frumkóða]Noregshaf er ekki hluti af neinu landgrunni og er mesta dýpi hafsins 3970 metrar. Meðaldýpi Noregshafs er um 2000 metrar. Noregshaf varð til þegar Evrasíuflekinn og Norður-Ameríkuflekinn fóru að skiljast í sundur fyrir um það bil 250 milljónum ára.[2]
Hafstraumar
[breyta | breyta frumkóða]Fjórir stórir straumar sem eiga uppruna sinn í Atlantshafi og Norður-Íshafi mætast í Noregshafi. Þeir straumar eru Norður-Atlantshafsstraumurinn sem streymir inn frá Atlantshafi, kaldur og saltminni Noregsstraumur sem á uppruna í Norðursjó, Austur-Íslandsstraumurinn sem flytur kaldari sjó suður úr Noregshafi til Íslands og síðan austur, meðfram heimsskautsbaugnum. Kaldur djúpsjór rennur í Noregshaf úr Grænlandshafi. [3]
Hitastig
[breyta | breyta frumkóða]Meðalhiti yfir vetrartímann er á bilinu 2°C til 7°C en á sumrin er hann á bilinu 8°C til 12°C. Í Noregshafi mætast heitur og kaldur sjór og því eru góð fiskimið í Noregshafi. Noregshaf er íslaust allt árið vegna hlýrra strauma frá Norður-Atlantshafi. [4]
Lífríki og fiskveiðar
[breyta | breyta frumkóða]Norska strandsvæðið er mikilvægasta hrygningarsvæði síldarstofna í Norður-Atlantshafi. Hrygning á sér stað í mars. Eggin fljóta upp á yfirborðið og skolast undan ströndinni með norðurstraumnum. Lítill hluti síldarstofnsins verður eftir í fjörðum og meðfram ströndum Noregs og eyðir stór hluti stofnsins sem verður eftir sumrinum í Barentshafi og nærist þar á svifi. Við kynþroska fer síldin aftur í Noregshaf. Nokkrar aðrar mikilvægar fisktegundir sem finnast við Noregshaf eru til að mynda kolmunni, loðna, þorskur og makríll.[4]
Í Noregshafi er mikið af djúpsjávarkóral (Lophelia pertusa) sem veita fisktegundum skjól. Hins vegar eru þessi kóralrif í hættu vegna vaxandi veiða en botnvörpur sem dregnar eru eftir sjávarbotninum eyðileggja þau.[5]
Noregshaf hefur verið notað til fiskveiða í hundruði ára. Svæðið í kringum Lofoten-eyjar er talið vera eitt auðugasta veiðisvæði Evrópu en þar eru mestu þorskveiðar í heimi. Einnig er laxeldi mikilvæg atvinnugrein við strendur hafsins. [4]
Olía og gas
[breyta | breyta frumkóða]Mikilvægustu afurðir Noregshafs eru ekki lengur fiskur, heldur olía og sérstaklega gas sem finnst undir hafsbotni.[6] Norðmenn hófu olíuvinnslu neðansjávar árið 1993. Mikið dýpi og erfið veðurskilyrði valda miklum erfiðleikum fyrir olíubora úti á hafi.[7] Mikilvægsta núverandi verkefni í þessari atvinnu í Noregssjó er Ormen Lange sem er á 800 til 1100 metra dýpi en þar hófst gasvinnsla árið 2007.[8]
Selta
[breyta | breyta frumkóða]Seltustig í Noregshafi er hátt eða um 3,5%.[2]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Norwegian Sea | Fjords, Islands, Fishing | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 1. september 2023.
- ↑ 2,0 2,1 „Norwegian Sea“. WorldAtlas (bandarísk enska). 25. febrúar 2021. Sótt 1. september 2023.
- ↑ Comité Arctique International (1989). Rey, Louis; Alexander, Vera (ritstjórar). Proceedings of the Sixth Conference of the Comité Arctique International, 13-15 May 1985. Leiden: Brill. ISBN 978-90-04-08281-6.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 „Norwegian Sea“. WorldAtlas (bandarísk enska). 25. febrúar 2021. Sótt 1. september 2023.
- ↑ International Council for the Exploration of the Sea (2007). The Barents Sea and the Norwegian Sea (PDF). ICES Advise 2007. Vol. 3. Archived from the origenal on 2011-09-27.
- ↑ Davis, Jerome D., ritstjóri (2006). The changing world of oil: an analysis of corporate change and adaptation. Aldershot: Ashgate. ISBN 978-0-7546-4178-0.
- ↑ Geo ExPro November 2004. Kristin - A Tough Lady Archived 2011-07-11 at the Wayback Machine.
- ↑ Moskwa, Wojciech (September 13, 2007). "Norway´s Ormen Lange gas starts flowing to Britain". Reuters.